31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (4801)

139. mál, landhelgisgæsla

Páll Þorbjörnsson:

Á undanförnum árum hefir verið horfið að því meir og meir að nota smærri vélskip, frá 30—50 smál., til landhelgisgæzlu, og reynslan hefir sýnt, að þau eru sízt lakari til þess, a. m. k. suma tíma árs, heldur en stærri skipin. Út frá þessu og með hliðsjón af hinu m háa rekstrarkostnaði varðskipanna mun vera komin sú till. fram, að rétt sé að reyna að endurskipuleggja landhelgisgæzluna, losna við dýrari skipin og fá minni og ódýrari skip í staðinn. Alþfl. hefir rætt þetta mál, og eins og hv. 9. landsk. gat hér um, þá gat hann fallizt á, að leitað væri tilboða í Varðskipið Óðin, en hv. 9. landsk. láðist að geta þess, að þegar þetta mál var rætt í Alþfl., kom fram sú skoðun, að setja bæri það skilyrði fyrir sölu Óðins, að í stað hans yrðu keyptir vandaðir vélbátar til landhelgisgæzlu. Hinsvegar gátum við Alþýðuflokksmenn ekki fallizt á það, að leyft yrði útboð á Þór. Og kemur það til af því, að það hefir verið hlutverk varðskipanna frá fyrstu tíð að hafa annað starf með höndum, sem sé björgunarstarf, og um fjöldamörg ár hefir alltaf verið staðbundið við Vestmannaeyjar eitt af varðskipunum, og Þór lengst af. En öllum, sem eitthvað þekkja til, er það ljóst, að þó þessir mótorbátar, sem hafa verið hér við gæzlu, hafi sýnt sig að vera nothæfir sem gæzluskip, þá er það útilokað, að þessir bátar geti komið að nokkru gagni, sem heitið geti, sem björgunarskip við Vestmannaeyjar á vertíðinni. Út frá þessu var það, að Alþfl. gat ekki fallizt á, að tímabært væri að bjóða varðskipið Þór út, a. m. k. ekki fyrr en reynsla væri fengin fyrir því, að hægt væri að fá ódýrara og hentugra skip í staðinn. En sökum þess, hvernig þáltill. var borin fram, sá ég ástæðu til þess að bera fram brtt. við hana, sem er í fullu samræmi við það, sem hefir komið fram innan okkar flokks.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. N.-Ísf. vildi ég segja það, að öllum er kunnugt um, að varðskipið Óðinn er dýrasta og óhentugasta varðskipið nú orðið, og ef maður tekur viðhorfið til björgunarstarfsins í Vestmannaeyjum, þá vitum við þar, að Óðinn hefir ekki komið að neinu frekara gagni en hin varðskipin, nema síður sé. Því er ekki að neita, að það er að miklu leyti einmitt viðhorfið til Vestmannaeyja, sem fyrir mér vakir, og þess vegna vil ég ekki ganga inn á það, að farga megi varðskipinu Þór. Það er sorgleg reynsla fengin fyrir því í Vestmannaeyjum, að þar er ekki hægt að komast af með lakara björgunarskip heldur en einmitt Þór, og er þar skemmst að minnast þeirrar vertíðar milli þess að gamli Þór fórst og þangað til hinn nýi var keyptur. Ég hygg, að engum, sem íhugar þetta mál, blandist hugur um það, að ef á annað borð á að selja eitthvert af varðskipunum, þá beri að selja Óðin. Hann er mannfrekari heldur en hin skipin, eyðir meiru og er að mörgu leyti orðinn úreltur til landhelgisgæzlu. Ég vil því vænta þess, að sú brtt., sem ég hefi borið fram á þskj. 120, verði samþ., því ég teldi það ekki vansalaust fyrir Alþ., ef það yrði til þess að selja einmitt það varðskipið, sem hefir haft þýðingarmesta starfið með höndum á undanförnum árum.