31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (4802)

139. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins leiðrétta fáein atriði í ræðum tveggja hv. þm., sem hér hafa talað.

Hv. þm. N.-Ísf. lítur þannig á, að það væri gabb, ef leitað væri upplýsinga um það, hvað boðið væri í skipin, en ekki yrði svo úr kaupunum. En það veit hv. þm., að slíkt viðgengst í allri verzlun. Það mundi skipta miklu máli, hvort hægt væri að fá 400 þús. kr. eða 100 þús. kr. í boð, og það er ómögulegt, hvorki fyrir þing né stj., að ákveða að selja svona dýr skip fyrr en vitað er um tilboðið. Eins og stendur býst ég við, að útboð á Óðni, ef til kæmi, yrði að vera til ríkisstjórna í næstu löndum, þeirra, sem ætla mætti; að þyrftu á gæzluskipi að halda.

Óðinn er eðlilega byggður eftir sínum tilgangi, og þess vegna yrði fyrst og fremst að leita eftir því, hvort einhverjar af Norðurlandaþjóðunum þyrftu slíkt skip til gæzlu. Það er tæplega hugsandi, að eins og stendur fengist nokkurt tilboð frá atvinnurekendum í Óðin eða Ægi, því þeir eru báðir byggðir fyrir gæzlu, og ekki annað. En öðru máli gegnir um Þór; hann er tiltölulega auðseldur til atvinnurekstrar, þar sem hann er byggður sem togari. — Ég get ekki samþ. það, sem síðasti ræðumaður sagði, að Óðinn sé orðinn úreltur sem varðskip. Honum er vel við haldið, vélin er í mjög góðu standi, svo það er ekkert út á skipið að setja til þess brúks, sem það var byggt til. Að vísu er hann nokkuð kolafrekur, en það leiðir af þeim hraða, sem hann er byggður fyrir. Ef svo færi nú, að þingið hallaðist að því að selja Óðin, en ekki tækist að selja hann neinni ríkisstjórn til gæzlu, þá væri ekki um annað að gera en að breyta honum í togara. Það hefir verið athugað og virðist vera vel mögulegt.

Út af aðstöðu Vestmannaeyja til þessara mála vil ég segja það, að fjvn. óskar eftir þessari heimild fyrir ríkisstj. af því að hún finnur, að það er hætt við því, að ef ekkert er gert í þessa átt, verði landhelgisgæzlan verri og verri, af því að með vaxandi erfiðleikum með fjárhag ríkissjóðs í sambandi við kreppuna má búast við því, að þessi 2 skip eða einhver 2 skip verði látin liggja allt árið, því það er vitað, að það kostar 200 þús. kr. á ári að halda Þór úti og 350 þús. kr. að halda Óðni úti. Hér er því ekki um smáræðis fjárhæð að ræða, ef ekkert gagn er að skipunum eftir þeirra upprunalega tilgangi.

En þar sem hv. þm. N.-Ísf. óttaðist það, að gæzlunni mundi fara aftur, get ég fullyrt það, að fyrir fjvn. vakir það eitt, að gæzlan verði betri og að í gangi verði eitt íslenzkt skip, eitt danskt og 4 bátar, sem verði staðbundnir. Hv. þm. er vel kunnugt um það, að einmitt úr hans kjördæmi og nágrannakjördæmi hans koma stöðugar kröfur frá fiskimönnum um að hafa bát sem lengst, því þeir hafa fundið, að bátur, sem var staðbundinn fyrir Vestfjörðum, gat haldið togurum í burtu. — Ég get ennfremur upplýst eftir manni, sem hefir með gæzlumálin að gera nú, að eftir að bátarnir eru hættir og þó 2 skip séu í gangi, þá sé gæzlan miklu lakari, af því að ekki notast af skipunum að fullu af þeim ástæðum, sem ég hefi nefnt. Ég get þess vegna fullyrt, að fyrir þeim, sem beita sér fyrir þessari till., vakir það, að um leið og skipunum sé fækkað fjölgi bátunum, þannig að a. m. k. 4 séu í gangi samtímis þeim varðskipum, sem eftir eru.

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður (PÞ) sagði, þegar hann mælti fyrir till. á þskj. 420, vil ég aðeins segja það, að forstöðumaður skipaútgerðarinnar hefir lagt til við fjvn., ef hallazt yrði að því ráði, sem um hefir verið rætt, þá verði Ægir hafður við suðurströndina, eða þá útlent skip í staðinn fyrir hann, ef hann þyrfti að víkja sér frá, eins og t. d. í sambandi við strönd eða meiri háttar sjóslys. Ég get þá ekki séð, að Vestmannaeyingar hafi nokkra ástæðu til að kvarta, því þá væru þeir látnir hafa það, sem þjóðin hefir fullkomnast til.