31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (4805)

139. mál, landhelgisgæsla

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Í grg. fyrir þessari till. er þess getið, að fyrir þinginu liggi till. einnar n., sem á þessu sama þingi í vor var falið að gera till. um framtíðarskipulag landhelgisgæzlunnar með hliðsjón af því, að björgunarstarfið yrði að meira eða minna leyti sameinað landhelgisgæzlunni — Mér er ekki kunnugt um, að þessum till. hafi verið útbýtt hér á þingi. Hinsvegar hefir það nokkuð komið í ljós í ræðum manna hér, í hverja átt þessar till. stefna, sem sé í þá átt að fækka stóru skipunum, en fjölga bátunum. Ég skal að vísu viðurkenna það, að af smábátagæzlunni hefir verið allgóður árangur á undanförnum árum, en þó mun það hafa verið á mjög takmörkuðum svæðum, eins og t. d. í Garðsjónum og víðar þar, sem líka stendur á. En án þess að ég vilji nú fara að hefja neinar verulegar umr. um gagnsemi eða ógagnsemi þessarar stefnu, sem mér skilst, að upp sé tekin af þeirri n., sem ég hefi minnzt á, þá vil ég leyfa mér að benda á, að það kann að vera nokkuð öðru máli að gegna um landhelgisgæzlu í Garðsjónum og fyrir Vestfjörðum heldur en víðsvegar við strendur landsins í misjöfnum vetrarveðrum.

Nú óskar fjvn. eftir að fá þessa heimild, sem hér er um að ræða, með hliðsjón af þessum till., sem ég hefi ekki átt kost á að kynna mér, sökum þess að þær hafa ekki verið lagðar fram fyrir þm. almennt. En ég vil helzt vera laus við að gefa stj. neitt umboð til þess að farga þeim varðskipum, sem við eigum nú, meðan maður veit ekki með vissu. í hverju þetta fyrirkomulag en fólgið, sem hv. frsm. fjvn. minntist á. Og ég hefði a. m. k. ekki talið óviðeigandi, að áður heldur en stigið væri spor í þá átt að farga meiri hluta varðskipanna, hefðu þessar till. legið fyrir sjútvn. til athugunar. Þótt vitaskuld séu það ágætir menn, sem um þessi mál fjalla í fjvn., þá er vel við eigandi, að það komi nokkuð undir álit sjútvn. þingsins áður en afgerandi hlutir eru gerðir um skipulag,breytingu landhelgismála.

Þetta veldur því, að ég fyrir mitt leyti hefi ákveðið að greiða atkv. á móti þeirri till., sem hér liggur fyrir. En áður en ég lýk máli mínu vil ég minnast á það, að mér þykir gott að heyra fyrst og fremst yfirlýsingu hv. form. fjvn. hvað Vestmannaeyjar snertir, að engum detti í hug, að þær verði eftirlitsskipslausar, þó þessi skipulagsbreyt. komist á. Einnig þykir mér rænt um, að þær raddir koma úr hópi jafnaðarmanna, sem mótmæla því yfirleitt, að Þór sé seldur, þar sem hann var, eins og menn vita, sérstaklega til þess keyptur að vera varðskip við suðurströndina. vil ég í því sambandi taka undir það, sem hv. 3. landsk. sagði, að það er mjög lítið hald í því fyrir okkur í Vestmannaeyjum — og þegar talað er um Vestmannaeyinga í þessu sambandi, eiga þar hlut að máli sjómenn víðsvegar að af landinu, sem þaðan róa á vertíðinni —, þó við eigum von á dönsku varðskipi á sveimi einhverstaðar nálægt eyjunum til björgunarstarfsemi í fjarveru Ægis. Það er sýnilegt, að með fyrirhuguðu fyrirkomulagi á landhelgisgæzlunni yrði hann mjög stopull á þessu svæði, og þá skilst mér á orðum hv. form. fjvn., að danska skipinu sé ætlað að halda uppi björgunarstarfsemi við Eyjar. Með allri virðingu fyrir starfi Dana hér við land, þá veit ég, að flestir, sem til þekkja, treysta kunnugum Íslendingum betur til þess að rækja þessi störf heldur en ókunnugum útlendingum. Sérstaklega hefir komið í ljós, að staðarkunnugleiki yfirmanna varðskipanna hefir komið að mjög blessunarríkum notum við björgunarstarfsemina.

Sem sagt, áður en fullkomin trygging liggur fyrir um það, að á þessu svæði, þar sem frá því í janúar og þangað til í maí fara á sjóinn 600—700 manns daglega í öllum verstu veðrum, verði framvegis rækt björgunarstarfsemi, sem á engan hátt er verr til stofnað heldur en verið hefir samkv. þeim skuldbindingum, sem Alþingi og ríkisstj. hafa gengizt undir gagnvart Vestmannaeyingum, sé ég mér ekki fært að stuðla að því á nokkurn hátt, að fargað sé þeim varðskipum, sem við eigum nú.