31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (4807)

139. mál, landhelgisgæsla

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Borgf. lýsti því yfir, að hér við flóann, og enda viðar, hefðu menn hafizt handa um fjársöfnun í því skyni að koma upp bátum til björgunarstarfsemi, og það væru ekki nema sanngjarnar kröfur frá hendi þeirra manna, sem að því stæðu, að ríkið tæki að sér rekstur slíkra báta og notaði þá jafnframt til landhelgisgæzlu, það er ekki óeðlilegt, að menn tengi saman þessi tvö verkefni, enda er þetta ekki í fyrsta sinn, sem það er gert. Þeir, sem voru í fararbroddi í þessum málum upphaflega, töldu einmitt, að það væri rétt að tengja saman landhelgisgæzluna og björgunarstarfsemina. En alltaf álitu þeir menn, sem mesta reynslu höfðu í þessum efnum, að til þess slíkt væri unnt yrðu skipin, sem til þessara starfa væru ætluð, að hafa allverulega yfirburði fram yfir þá báta og þau skip, sem þeim væri ætlað að hjálpa.

Annars fannst mér á hv. þm., að hann vera allgleyminn á forsögu þessa máls og landhelgisgæzlumálanna yfirleitt. Það má undarlegt heita með mann, sem jafnmikið hefir gefið sig að landhelgisgæzlumálum. Hann sagði, að Vestmannaeyingar hefðu ekki á döfinni að koma upp björgunarskútu á sama hátt og annarsstaðar væri hafin barátta fyrir. Þeir eru búnir að gera þetta fyrir 15 árum síðan. Það eru nú liðin tvisvar eða þrisvar sinnum 15 ár síðan farið var að tala um að koma upp björgunarskútu hér við Faxaflóa. Hún er ekki komin enn samt, en vonandi kemur hún bráðlega. Hinsvegar eru 15 ár síðan Vestmanneyingar hófu framkvæmdir á þessu sviði og lögðu fram upp undir 200 þús. kr., að meðtöldum styrk, er víðsýnir mannvinir hér í Reykjavík hjálpuðu um. Hv. þm. sagði, að ríkið hefði orðið að létta rekstri þessa skips af Vestmannaeyingum. Það er að vísu rétt, en ríkið sá sér líka hag í að láta það annast landhelgisgæzlu jafnhliða björgunarstarfseminni. Hv. þm. vita allir, að það voru fleiri hundruð þúsunda, sem runnu í landhelgissjóð fyrir atbeina þessa skips, sem Vestmannaeyingar höfðu á sínum tíma keypt.

Hv. þm. Borgf. taldi óréttmæta andstöðuna gegn þessari till., því á þessu stigi málsins lægi ekki annað fyrir heldur en að vita, hvort stj. mætti leita tilboða í skipin. Mér finnst nú samt liggja annað og meira á bak við þessa till., eins og líka kom fram hjá hv. frsm. (ÓTh: Hver trúir honum?). Og sú fullyrðing hefir komið fram hjá fleirum, að það eigi að koma í gegn gagngerðum skipulagsbreytingum á landhelgisgæzlunni, og dylst engum, að þessi till. er nokkurskonar fyrirrennari þeirra og samþykkt hennar fyrsta stigið í því, sem hér á að fara fram. Hv. þm. telur það ósanngjarnt af mér og öðrum að færast undan að samþ. þessa till., vegna þess, að það sé hægt að snúa við seinna. Það er að vísu rétt, að það er hægt að hverfa frá því aftur að selja skipin, en það er þó ekki hægt að komast hjá því að sjá, hvert stefnir með þessu. Ég hefi lýst því yfir, að ég væri á móti till. vegna þess, að ég hefi ekki séð þau rök fyrir þeirri skipulagsbreyt., sem boðuð er, að þau nægi til þess að ég vilji taka þátt í undirbúningi hennar að svo stöddu. Það getur vel verið, að þegar þau plögg koma fram, sem talað er um, að von sé á í þessu máli, gefi ég fallizt á þetta. En ég er ekki trúaður á, að það komi að eins miklum notum eða nægilegum notum að halda uppi landhelgisgæzlu með smábátum eins og sumir hv. þm. halda. Sú reynsla, sem fengin er í þessu efni, er ekki svo einhlít, að hún geti fengið mig til þess að skipta um skoðun. Sérstaklega verður að gæta þess, ef varðbátarnir eiga að annast björgunarstarfsemi, að hún mun koma að vafasömum notum nema því aðeins, að það sé um að ræða skip, sem hafa allmikla yfirburði yfir stóra mótorbáta, því vitanlega eru það oft stórir mótorbátar, sem komast í hafsnauð og þurfa hjálpar við. Það duga engir smábátar til þess að draga þá að landi í verstu vetrarveðrum.

Það, sem skipaútgerð ríkisins segir eða lofar í þessu efni, tel ég ekki, að hægt sé að reiða sig á. Það var lofað gæzlubát frá skipaútgerð ríkisins til Vestmannaeyja í sumar, sem átti að hefja gæzlu I. ágúst, en ég hefi ekki komið auga á hann enn; er svo landhelgin skafin jafnvel um hábjartan dag. Það var farið fram á við ríkisstj., að úr þessu væri bætt, og til bráðabirgða var leigður lítill bátur úr Vestmannaeyjum, sem hafður var til að reka úr túninu, ef svo mætti að orði kveða, um þrjár vikur. Svo stóð til, að það kæmi einn af föstu varðbátum ríkisins, og því var lofað, en ég varð aldrei var við hann. Þetta er nóg til þess, að það þarf meira til þess að fá mig til að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem verið hefir á landhelgisgæzlunni. heldur en að skipaútgerð ríkisins segi, að hún eigi að vera svona eða svona. Ég veit, að það kostar mikið fé að halda úti varðskipunum, en ég held, að það kosti líka mikið að halda úti mörgum smábátum. Þetta kemur nú allt til álita á sínum tíma. Verði þessi till. samþ., fær stj. að spreyta sig á að finna kaupanda að þessum skipum. Ég verð að álíta litlar líkur til þess, að hægt verði, a. m. k. fyrir lok þessa þings, að fá kaupanda að þeim fyrir nokkurt teljandi verð, svo hvað það snertir mun ekki skipta miklu, hvort till. verður samþ. eða ekki.