31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (4809)

139. mál, landhelgisgæsla

Sigurður Einarsson:

Hv. þm. Borgf. þurfti ekki að verða hissa á orðum mínum. Ég gerði ekki annað en endurtaka það, er við létum getið í n. báðir Alþfl.fulltrúarnir, er við höfðum kannað nánar hugi manna viðvíkjandi sölu á Þór. Hinsvegar sá hvorki ég né samflokksmaður minn í n. ástæðu til að amast við því, að málið væri lagt fyrir þingið í sama formi og áður var ákveðið.

Það er ástæðulaust fyrir hv. þm. Borgf. að láta sér títt um, að till. er skipt í tvo liði; það er einungis gert til þess, að menn hafi óbundnar heldur gagnvart síðari liðnum, viðvíkjandi tilboði í varðskipið Þór.

Hv. þm. Borgf. er drýldinn yfir hinu góða minni sínu. Ég vil heldur alls ekki draga það í efa, að hann hafi gott minni, og allra sízt rýra ánægju hans yfir þessu góða minni. En maður, sem þekkir hann betur en ég, hv. þm. Vestm., fann þó ástæðu til þess í ræðu sinni að tyfta hv. þm. Borgf. fyrir minnisbilun og varði miklu af sínum ræðutíma til að útskýra þetta efni. Ég get því látið við orð hv. þm. Vestm. sitja og þarf ekki fleira að segja.