31.10.1935
Sameinað þing: 18. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (4811)

139. mál, landhelgisgæsla

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Borgf. lét þess getið, að fjvn., sem væri að lita eftir fjármálum landsins, væri sárt um hverja krónu, og hann gerði mikið úr því, hvort hægt væri að selja skipin einu eða tveim hundr. þús. meira eða minna. Hv. frsm. var búinn að taka það fram, að ekki væri hægt að gera skipin út með sama fyrirkomulagi og áður. Úr því svo er ekki, þá hljóta þeir í n. að hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að með breyttu fyrirkomulagi verði útgerðin kostnaðarminni, og væri þar um talsverðan sparnað að ræða. Og ef hægt er að spara 50 þús. kr. — minna getur það naumast verið, ef önnur leiðin er fær en hin ófær, — þá sé ég ekki annað en svona mikil spörun á ári eigi að hafa afgerandi áhrif á það, hvort á að selja skipin eða ekki, en ekki hitt, hvort söluverð þeirra verður þetta meira eða minna. Það er rangt að selja ekki, úr því stofninn verður þetta hærri, í stað þess að hugsa eingöngu um söluverðið. Svo þröngt má ekki lita á krónur eða aura, heldur verður að taka tillit til, hvað þetta tilsvarar vöxtum og hæfilegri rýrnun á ákveðnum stofni.

Hér er því verið að þreifa fyrir sér á vitlausum enda á málinu. Það, sem máli skiptir, er það, hvernig hægt er að halda uppi landhelgisgæzlunni, hvað kleift er fyrir ríkissjóð og hvað svarar bezt kostnaði, og í þriðja lagi, hvernig hægt er að samræma þetta björgunarstarfseminni, svo að hvorugt bíði tjón af. Þetta er þungamiðja málsins, og umræðurnar hafa alltaf snúizt um þennan aðalkjarna þess.

Það er slæmt, að þm. skuli ekki hafa verið kynntar betur þessar till., sem hér liggja fyrir, því að þær gefa bendingu um það, hvort selja á skipin eða ekki.

Hv. þm. Borgf. dettur auðvitað ekki í hug, að frekar eigi að láta skipin liggja ónotuð heldur en selja þau fyrir nokkur hundr. þús. kr. lægra verð en þau kostuðu upphaflega, því að það verður aldrei hægt að fá fyrir þau svipað kostnaðarverði.