22.03.1935
Efri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (4824)

103. mál, drykkjumannahæli

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi, eins og hæstv. ráðh., mæla nokkur stuðningsorð með till., og get bætt því við, að ég tel sjálfsagt, að allir vilji samþ. hana. Sá eini efi, sem þar getur komizt að, er væntanlegur halli á rekstri slíks hælis. En það eru í sjálfu sér engin mótmæli gegn stefnunni, ef menn eru á annað borð sannfærðir um, að þörf sé fyrir slíkt hæli. Og um það býst ég við, að allir séu sammála, sem þekkja drykkjuskaparhneigð Íslendinga. Spurningin verður því aðeins um það, hvort hægt muni vera að bæta þeim kostnaði, sem af slíkri stofnun leiddi, við útgjöld ríkisins, eins og nú stendur, eða hvort óhjákvæmilegt er að draga það enn um skeið. En ég álít, að þetta sé gott mál, sem þarf að leysa svo fljótt sem hægt er.

Ég ætla í þessu sambandi að minnast á hugmynd, sem mér datt í hug í sumar á ferð minni um Norðurland. Ég kom á sveitaheimili austanvert við Eyjafjörð. Þar er stórt íbúðarhús, sem mun hafa kostað fram undir 150 þús. kr., og ætli þar að vera gott rúm fyrir 30—40 manns. Jörðin er stór og góð, með miklu sléttu túni. Þessi jörð mundi fást fyrir lítið verð: ekki nema tiltölulega lítinn part af kostnaðarverði. Byggingar eru sterkar, steinsteyptar með járnþökum, enda mega byggingar fyrir þessa menn ekki vera úr timbri, sem eldhætta gæti stafað af. Einnig liggur jörðin svo nærri Akureyri, að sennilega mætti semja við lækni þar að hafa eftirlit með hælinu, ef það væri á þessari jörð. Þessu vildi ég beina til hæstv. ríkisstj. til athugunar. Ég hefi minnzt á þetta við ýmsa menn, þar á meðal lækna, og þeim litizt vel á. Á þennan hátt yrði kostnaður tiltölulega lítill, og mörgum sinnum minni en kosta mundi að reisa slíkar byggingar af nýju.

Mér þótti rétt að segja frá þessu nú, svo hæstv. ríkisstj. vissi um þennan möguleika, ef hún undirbýr málið, svo hægt væri að leysa það svo fljótt sem unnt er.