08.11.1935
Efri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (4832)

104. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er ekki nema gott um það að segja, að þetta mál, sem þáltill. fjallar um, sé athugað og undirbúið. Ég hefi fyrir nokkrum árum kynnt mér talsvert þetta mál. Og yfirleitt er reynslan sú, að bezta athvarfið fyrir þessi börn sé gott heimili. Þó að stærri hæli hafi sumstaðar reynzt vel, hafa þau reynzt mjög misjafnlega. Ég vil því vekja athygli á því, ef til þess er hugsað að koma upp svona stofnunum, að þær stóru hafa víðast reynzt illa, en alstaðar verið hnigið að því, að hafa þær smáar, eða aðeins sem stór heimili, fyrir 12—20 börn. Ég vildi aðeins beina því til þeirra, sem að till. standa, að taka þetta til greina við undirbúning málsins.