08.11.1935
Efri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (4833)

104. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

Guðrún Lárusdóttir:

Ég skal strax svara hæstv. forsrh., að ég er honum samdóma um það, að beztu staðirnir fyrir börnin séu góð heimili, og að heppilegra sé að hafa svona barnahæli ekki stór, enda er stefnt að því í Danmörku, þar sem ég þekki bezt til.

Mér þótti vænt um að heyra, að hæstv. forsrh. er till. fylgjandi, því fyrst er að hugsa um málið og ræða það, og ekki annað, sem liggur fyrir nú.

Ég minnist þess, að þegar hæstv. forsrh. var hér lögreglustjóri, kom hér fyrir mjög leiðinlegt barnamál. var þá haldinn stór borgarafundur, þar sem töluðu margir mætir menn, svo sem Guðmundur próf. Hannesson, Maggi Júl. Magnús, Ólafía Jóhannsdóttir o. fl., og voru allir sammála um, að þörf væri á að koma upp hæli eins og þessi þáltill. fer fram á. Eftir þær umr. komu barnaverndarlögin, og átti hæstv. forsrh. mikinn þátt í undirbúningi þeirra. Eins er um þessa till., að hún á að vera fyrsta sporið til að koma málinu á stað, svo að það verði athugað og undirbúið, í þeirri von, að upp af því geti svo sprottið framkv. þegar ástæður leyfa.

Sem fátækrafulltrúi þekki ég dálítið til þess, hve erfitt er að útvega þessum börnum samastað. Þurfa að fylgja þeim ýms vottorð um hegðun og annað. Eiga börnin á hættu að verða fyrir ýmiskonar tortryggni, e. t. v. óverðskuldaðri. Á þessu væri minni hætta, ef við þeim tæki stofnun, sem teldi þau eins og velkomna gesti á heimilið.

Ég get aldrei gleymt einni heimsókn á eitt svona barnaheimili í Danmörku. Þar voru nokkrir drengir, og þeir ekki álitnir af betri tegundinni. Auk þeirra var fólk ekki annað en roskin hjón, sem stjórnuðu heimilinu. Þar var ekki verið með tortryggni í garð barnanna. Þarna stóð allt opið og drengirnir fengu að ganga um allt eftir eigin vild. Og einmitt þetta, að sýna börnunum traust, sannar reynslan, að hefir mest áhrif á þau, einkum ef þau eru vön að mæta tortryggni um, að þau skrökvi, steli o. s. frv. — Ég ætla ekki að vanþakka sveitaheimilunum það, sem þau hafa gert fyrir þessi börn og þeirra aðstandendur. Þá hafa mörg tekið börnunum afburða vel. En eins og nú er komið, er það mjög erfitt vegna fólksleysis, og má því ekki líða á löngu þar til það opinber, tekur í taumana.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í málið, einkum þar sem allir virðast sammála um, að þáltill. gangi fram. Einnig ber ég fullt traust til hæstv. ríkisstj. um að greiða fyrir málinu, einkum vegna þess, að hæstv. forsrh. hefir verið hér lögreglustjóri og þekkir, hve mikið hér er af óknyttabörnum og hversu erfitt er að fá fyrir þau samastað.