02.12.1935
Sameinað þing: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (4838)

182. mál, tekjustofnar bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Jónas Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það er í sjálfu sér ekki þörf á að hafa langa framsögu fyrir þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, því það er búið að ræða þetta svo mikið, a. m. k. í hv. Nd. í sambandi við ýms önnur mál, sem hafa legið fyrir á undanförnum vikum, og get ég því í rauninni vísað til þeirra umr. að því er snertir þessa þáltill.

Það er ljóst, þegar litið er yfir þingtíðindi síðustu ára, að ýmsar raddir hafa verið uppi um það, að skapa þyrfti nýja tekjustofna fyrir sveitar- og bæjarfélög, eða fella niður einhverja útgjaldaliði.

Í þál., sem samþ. var í Ed. 1933, var skorað á ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. um tekjustofna fyrir sveitar- og bæjarfélög, og segir í grg. fyrir till., að vel megi sjá, að tekjustofnar þeirra séu ónógir og því brýn þörf á að auka þá. En þrátt fyrir þetta hefir ekkert verið gert enn sem komið er, og hér inn á Alþ. flykkjast frv. um tekjustofna handa ýmsum sveitar- og bæjarfélögum, og munu ekki vera færri en 10 slík frv. eða mál, sem komið hafa fyrir þetta þing. Má þar nefna frv. til 1. um vörugjald í Vestmannaeyjum, heimild um samskonar gjöld fyrir Siglufjörð, og fyrir Akureyri, sem fellt var hér á fyrri hluta þingsins, og svo Sauðárkróksfrv. fræga, sem a. m. k. er þekkt í Nd., frv. um húsaskatt á Ísafirði, frv. um útsvarsálagningu á síldarverksmiðjur ríkisins, sem fram hefir komið frá hv. þm. N.-Þ., frv. frá hv. 2. landsk. um að fasteignaskattur renni til sveitar- og sýslusjóða, og ennfremur má benda á frv. hv. þm. V.-Sk., sem gengur út á að fella niður berklavarnagjald hreppsfélaganna, ennfremur brtt. frá mér o. fl. hv. þm. við Sauðárkróksfrv., sem fjöldamarga hv. þm. langaði til að samþ., en gerðu ekki af því þeir álitu rétt að athuga þetta mál í heild fyrir næsta þing. Það er því ljóst, að breytingar á verzlunar- og atvinnuháttum á síðustu árum gera það að verkum, að nauðsynlegt er að breyta l. um tekjustofna sveitar- og bæjarfélaga. Fyrir mér og sjálfsagt flestum eða öllum, sem að þáltill. þessari standa, vakir það fyrst og fremst, að ríkisstj. láti endurskoða núgildandi útsvarslög og samræma ákvæði um útsvarsálagningu, er nái yfir land allt, en nú eru þetta mjög mismunandi stigar, sem farið er eftir, og slíkt ósamræmi þarf að lagfæra. Þá þarf ennfremur að setja skýr ákvæði um umsetningargjaldið eða rekstrarútsvarið, sem mjög er farið að nota, en er talið af lögfræðingum, að sé mjög vafasamt, hvort nokkur heimild sú til um.

Að öðru leyti álít ég nauðsynlegt, að nefnd sú, sem látin verður undirbúa þetta mál og athuga hina nýju tekjustofna, geri till. um föst ákvæði um, hvernig haga beri álagningu á ríkisfyrirtæki eða ríkisverzlanir til sveitarfélaga, og önnur skyld fyrirtæki. eins og t. d. fisksölusamlög, sem risið hafa upp víða í kaupstöðum og talin eru skattfrjáls.

Ég vil svo ekki hafa um þetta lengri ræðu, en ég veit, að það er ósk og von allra þm., að hæstv. ríkisstj. láti ekki undir höfuð leggjast, eins og varð fyrir ríkisstj. 1933, að gera eitthvað í þessu máli og freista þess fyrir næsta þing að leggja fram sæmilega undirbúið frv. um tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, sem gæti komið að gagni og til framkvæmda þegar á árinu 1936.