19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (4842)

202. mál, Menningarsjóður

Flm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Þessi till., sem flutt er af 3 þm., einum úr hverjum flokki, skýrir sig sjálf með þeim gögnum, sem henni fylgja. Ég ætla þó að bæta við nokkrum orðum.

Tilgangurinn með till. þessari er sá, að kennslumálaráðh. athugi og leggi fyrir næsta þing till. til breyt. um menningarsjóð. Það skal tekið fram, að fyrsta atriðið og það, sem mestu máli skiptir fyrir sjóðinn, er fjárhagshliðin, eða að honum séu tryggðar tekjur, a. m. k. 50 þús. kr. árlega, og lítur stjórn sjóðsins svo á, að það geti orðið með tvennum hætti. Annaðhvort að heimila áfengisverzluninni að leggja til sjóðsins þessa fjárupphæð, eða það sé greitt beint úr ríkissjóði, sem í rauninni er alveg sama. Eins og sést af skýrslu þeirri, sem fylgir hér með, hefir sjóðurinn fengið fyrstu 7 árin að jafnaði um 50 þús. kr. árlega. Þetta eru glöggar tölur og stöðugar meðan hin eldri áfengislöggjöf var í gildi og bruggið gaf góðar tekjur, en síðan, eða eftir að sterku vínin voru flutt inn í landið, minnka þessar tekjur til stórra muna, og þykir sennilegt, að árið 1934 verði tekjur sjóðsins 20—25 þús. kr.. og þarf þá í viðbót a. m. k. 23 þús. kr., ef tekjur sjóðsins eiga ekki að ganga saman. En jafnhliða því, sem tekjur sjóðsins minnka á þennan hátt, bætist svo við, að sjóðnum er geri að skyldu að kaupa steinasafn Guðm. heitins Bárðarsonar, sem kostaði 23 þús. kr. og tekur því allar tekjur sjóðsins, sem áttu að ganga til náttúrufræði. Niðurstaðan hefir svo orðið sú, að nefndin hefir ekki getað keypt af listamönnum nema fyrir 1000 kr., sem hún hefir skipt á milli tveggja fátækra og duglegra manna, og þar með hafa listamennirnir tapað mestöllum möguleikum sínum til að ná í tekjur, því að í þessu litla landi er svo lítið af þeim keypt. Þetta er nokkuð ýtarlega tekið fram í bréfi okkar 4 úr stjórn sjóðsins, sem erum hér á landi. Einn úr stjórninni, Kristján Albertsson, dvelur erlendis, en hann er áreiðanlega okkur sammála.

Það verður ekki komizt hjá því annaðhvort að leggja niður þennan sjóð — ef þinginu sýnist svo — eða þá leggja honum til fé. — Ég get í sem stytztu máli sagt það, að 3 stéttir manna njóta góðs af starfsemi sjóðsins; það eru listamenn, rithöfundar og náttúrufræðingar, þær stéttir andlegra manna, sem erfiðast eiga.

Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé aðeins einn listamaður, sem hefir tekjur til að lifa af, en afgang engan, og það er Ásgrímur Jónsson, sem er sparsamur maður og reglusamur og lifir einföldu og óbrotnu lífi. Engir aðrir teljast hafa þær tekjur af list sinni, að nægi fyrir daglegu brauði. — Um rithöfundana má segja það, að sjóðurinn spillir ekki fyrir útgáfu þeirra, og til bókaútgefenda berst mikið að, svo þeir geta ekki annað því, né heldur greitt sómasamleg ritlaun. — Í þriðja lagi eru svo náttúrufræðingarnir; þeir hafa raunar alltaf verið útigangsklárar, — allt frá Eggert Ólafssyni, Jónasi Hallgrímssyni og Þorvaldi Thoroddsen, sem eru fyrstir og frægastir, en fengu sinn styrk frá öðru landi, og í sjálfu sér má segja, að hið íslenzka ríki hafi aldrei styrkt náttúrufræðing, nema þann stutta tíma, sem menningarsjóður hefir starfað.

Ég vil benda á það, að Ísland er af mörgum jarðfræðingum álitið eitt merkilegasta land Evrópu sem náma fyrir jarðfræðinga. Það er, eins og menn vita, eitt af yngstu löndum álfunnar, byggt upp af eldi og ísi í einu. Hin einkennilega náttúra landsins gerir það því nauðsynlegt fyrir þjóðina að láta rannsaka þetta merkilega land.

Ég vil líka benda á það, að danskur maður hefir ráðgert að leggja fé í náttúrufræðilegar rannsóknir hér á landi í 2—3 ár, og koma þær rannsóknir Íslendingum einum til góða, því að það getur engin útlend þjóð haft neitt upp úr þeim, nema þá vísindamenn yfirleitt. Ef við viljum taka í okkar hendur rannsóknir á landi okkar, þá verðum við að kosta einhverju fé til þess. Í þessu sambandi vil ég nefna eitt dæmi, sem tala má um á þessu stigi málsins og sýnir, hvernig aðstaða okkar er nú viðvíkjandi rannsóknum landsins. Í till. fjvn. er nú lítill liður, sem borinn var fram samkv. ósk núv. hæstv. stj., um 4000 kr. fjárframlag til jöklarannsókna. Síðustu ár hafa sem sé ýmsir þekktir, sænskir jarðfræðingar haft mikinn áhuga fyrir jöklarannsóknum hér á landi, og má meðal þessara manna sérstaklega benda á próf. Ahlmann, sem hér hefir verið áður og gert rannsóknir á jöklum landsins, og kemur hann hingað af því að hann hefir mjög mikinn áhuga á þessum efnum og er alveg sérstakur lærdómsmaður í þessari grein. Hjá honum stundar a. m. k. einn ungur Íslendingur jarðfræðinám. Þessi prófessor fær svo 4500 kr. frá Svíum til þess að leggja í leiðangur til Íslands, en hann vill heldur, að Íslendingar sjálfir taki að einhverju leyti þátt í þessum rannsóknum, en við höfum, eins og kunnugt er, ekkert fé handbært til þess, nema því aðeins, að ríkissjóður hlaupi undir bagga í þessu efni, eins og gert er ráð fyrir í áðurnefndri till. Á þann hátt stöndum við og Svíar jafnt að vígi að þessu leyti. Ef svo færi, að þessi till. væri samþ., þá álít ég, að sú deild menningarsjóðs, sem hér um ræðir, gæti tekið að sér að styðja þennan sænska leiðangur; ef tekjuöflun þessa hluta sjóðsins er 17000 kr., þá tel ég réttmætt og eðlilegt, að sjóðurinn hlaupi undir bagga og taki að sér þetta verkefni. Það getur auk þess verið miklu þægilegra að hafa fast ákvæði um fjárveitingu til slíkra rannsókna hér á landi, til þess að þurfa ekki að hlaupa til þingsins í hvert skipti, sem eitthvað þarf að skera í þessu efni.

Á þeim árum, sem menningarsjóður hefir starfað, hefir ríkið eignazt töluvert af listaverkum, sem geymd eru í þinghúsinu, ráðherrabústaðnum og einnig í Arnarhvoli, á þeim stað, þar sem þeim getur ekki stafað hætta af bruna. Þennan vísi til listasafns er ekki hægt að sýna almenningi sökum húsnæðisskorts. — Í þessu sambandi tel ég rétt að skýra hv. d. frá því, að stjórn menningarsjóðs hefir hugsað sér, einkum ef þetta mál næði fram að ganga, að reyna að fá menntaskólahúsið lánað í 6 vikur á sumrin meðan mestur gestastraumurinn er hér í bænum, og halda þar sýningu á listaverkum ríkisins. Vitanlega yrði hafður vörður um skólann á nóttum með tilliti til eldsvoðahættu og aðrar varúðarráðstafanir gerðar eftir því sem þörf krefði. Ég nefndi þetta aðeins sem dæmi þess, að slík áform, sem hér um ræðir, byggjast raunverulega á því, að það sé meining þjóðarinnar að halda áfram að kaupa verk listamanna þjóðarinnar og reyna að sýna þau landsmönnum.

Ég býst ekki við, að það hefði neina sérstaka þýðingu fyrir þá meðferð, sem þessi till. fær á Alþingi, þó ég reyndi að færa fleiri rök fyrir þessu máli, og mun Ég því láta hér við sitja. nema því aðeins, að sérstakt tilefni gefist til.