19.12.1935
Efri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (4843)

202. mál, Menningarsjóður

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það hefir verið orðtak, að ekki hafi Adam verið lengi í Paradís. Mér virðist hv. þm. S.-Þ. ekki ætla að dvelja svo lengi í sparnaðarlandinu, að hann verði þar ríkisborgari. Mér virðist, að hv. flm. till. ætlist til þess, að útgjöld ríkissjóðs aukist um næstum 30000 kr. á ári í náinni framtíð. Ég geri ráð fyrir, að verði að nýskattleggja fólk til þess að ná þessu fé í ríkissjóð, hvort sem það verður gert með beinum eða óbeinum sköttum. Mér finnst þessi till. ónauðsynleg á þessu stigi málsins og nú á þessu þingi. Hv. flm. þessarar till. og sjóðsstjórnin gætu í sameiningu samið frv. um þetta efni á næsta þingi. ef efnahagur landsins þetta það góður, að rétt væri talið að leggja einhvern skatt á þjóðina í þessu augnamiði. MG: Þeir geta brotið bannlögin). Já, að vísu, en varla taka þeir ákvæði um það upp í frv. sitt, og ef ekki verður úr því á einhvern hátt, að þetta frv. verði samið á næsta þingi, þá má vitanlega setja þetta gjald í fjárl., ef tekjur nema meiru en gjöldin. Ég sé enga ástæðu til þess að undirbúa löggjöf um þetta atriði eins og nú standa sakir, og ég fyrir mitt leyti mun hiklaust greiða atkv. á móti þessari till. Þó að margt gott megi um menningarsjóð segja, þá verð ég að semja, án þess að ég ætli að minnast á einstakar bókaútgáfur, að það leikur á tveim tungum, hvort ekki hefði mátt vanda meir til bókaútgáfunnar en gert hefir verið. — Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara út í fleiri atriði.