25.03.1935
Sameinað þing: 6. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (4855)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Á síðasta þingi bar ég fram till. til þál. um þjóðaratkvæði um ríkisrekstur atvinnuveganna og ríkiseign bújarða. Sú till. fékk ekki afgreiðslu á því þingi, þrátt fyrir ítrekaða kröfu mína um, að hún yrði tekin til meðferðar og afgreiðslu. Nú í þingbyrjun bar ég fram samhljóða till. Henni mun hafa verið útbýtt í Sþ. 25. febrúar, en nú er 25. marz og till. þessi er ekki enn komin til umræðu. Fundir í Sþ. hafa verið fáir á þessu þingtímabili og auk þess hafa ýms smámál verið tekin fyrir, en þetta mál, sem ekki er smámál, kemur ekki til umr., nema hvað ákveðið var, að um málið skyldi hafa tvær umr., þegar till. kom fram.

Mér er sagt, að það standi til að fresta þingi mjög bráðlega, og þá get ég ekki betur séð en að það muni vera af ásettu ráði, að hæstv. forseti lætur draga að taka málið til meðferðar. Ég vil spyrja hann, hverju sæti þetta ótvíræða brot, sem ég tel vera framið á þingvenjum með meðferð þessa máls.