01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (4865)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Stefán Jóh. Stefánsson:

Hv. þm. Hafnf. hefir í ræðu sinni sýnt fram á það, að afstaða Alþfl. til þeirra mála, sem hér um ræðir í þáltill. á þskj. 23, sé í fullu samræmi við stefnuskrá flokksins, og hefir framkoma Alþfl. í þessum málum sem öðrum verið í samræmi við kenningar flokksins. Frá sjónarmiði Alþfl. er það því hin mesta fásinna að bera sérstaklega undir þjóðaratkvæði einn þátt úr stjórnmálastefnu hans. Alþingiskosningar snúast um stefnur flokkanna í höfuðmálunum, og út frá því sjónarmiði greiða kjósendur atkv. Er það því næsta óeðlilegt og fávíslegt að láta fara fram þjóðaratkvæði á milli kosninga um mál, sem hafa verið ofarlega á baugi fyrir margar kosningar. Það mætti eins fara fram á það, að láta þjóðaratkvæði fram fara um jafnaðarstefnuna og íhaldsstefnuna, stefnu þá, er Sjálfstfl. yfirleitt aðhyllist. En fáum mun detta slík endileysa í hug. nema hv. flm. þáltill.. 6. þm. Reykv., og samherjum hans.

Í fyrri liðnum á þskj. 23 er spurt að því, hvort menn vilji með nýrri löggjöf vinna að þeirri breyt. á þjóðskipulagi Íslendinga, að ríkisrekstur komi í stað einkaframtaks í atvinnumálum. Hér er barnalega spurt. Það er engin breyt. á þjóðskipulagi Íslendinga, þó komið sé á ríkisrekstri a. m. k. í vissum atvinnu- eða starfsgreinum. Með sameiginlegu samþykki allra flokka er ríkisrekstri viðhaldið í nokkrum starfsgreinum, og sá ríkisrekstur hefir verið aukinn nokkuð hin síðari ár, án þess að framkvæmd slíkra aukninga hafi alltaf farið eftir flokkaskiptingu á Alþingi, og er nýjasta dæmið það, er þetta þing hefir afgr. lög um einkasölu á trjáplöntum. Aðalflm. þess frv., hv. þm. A.-Húnv., sagði við 2. umr. um frv. um einkarétt ríkisstj. til þess að flytja trjáplöntur til landsins og eftirlit með innflutningi trjáfræs:

„Ég mundi ekki geta fylgt því, ef till. kæmi fram um það að leggja niður áfengiseinkasölu ríkisins og gefa vínverzlunina frjálsa innanlands, enda var ég fylgjandi því fyrirkomulagi á síðasta þingi. Sömuleiðis var ég því fylgjandi á síðasta þingi, að einkasala ríkisins á tilbúnum áburði væri látin starfa áfram.“ Þetta segir þm. úr Sjálfstfl. um einkasölurekstur ríkisins. Ríkisreksturinn er vissulega ekki ómerkilegur þáttur í ríkisbúskap Íslendinga. Samkv. fjárlfrv. fyrir 1935 eru tekjur af rekstri ríkistofnana áætlaðar tæpar 2 millj. kr., og skiptast þær þannig niður:

1. Rekstrarhagn. póstsjóðs ...... 53860 kr.

2. — landssímans .... 42300 -

3 — áfengisverzlunar. 750000 —

4. — tóbakseinkasölu . 600000 —

5. — ríkisútvarps .... 77000 —

6. — ríkisprentsmiðju 60000 —

7. — landssmiðju .... 10000 —

8. — Vífilsstaðabús . 5000 —

9). — Kleppsbús .... .. 5000 —

10. — Reykjabús ... .. 4000 —

Samtals 1987860 kr.

Þessi áætlun virðist vissulega ekki vera út í bláinn. Samkv. skýrslu hæstv. fjmrh. um afkomu ársins 1934 hafa tekjur af rekstri þessara ríkisstofnana árið 1934 numið allt að 2 millj. kr. — eða kr. 1941000. Rúmlega 1/7 hluta af tekjum ríkissjóðs er því nú aflað með rekstri ríkisstofnana, og þá aðallega með ríkisverzlun. Væri þá vissulega skarð fyrir skildi, ef þessir tekjuliðir væru niður felldir, og ætla ég, að fáir íslenzkir stjórnmálamenn séu svo fávitrir að óska þess. Ríkisrekstur og rekstur vissra starfsgreina af ríkisins hálfu er því vissulega hagkvæm tekjuöflunarleið. Og það er einmitt þessi ástæða. tekjuöflunarleiðin, sem hefir orðið til þess, að komið hefir verið á og viðhaldið ríkisrekstri á verzlun einstakra vörutegunda og starfsgreina. Og er fullt útlit fyrir, að frekar verði við bætt m úr dregið á þessu sviði.

Hvað viðkemur síðari spurningunni á þskj. 23, um það, hvort stefna eigi að því, að allar jarðeignir í landinu hverfi úr sjálfsábúð og verði ríkiseign, þá er þess fyrst og fremst að geta, að það er aðeins nokkur hluti þeirra jarðeigna, sem eru í einkaeign nú, sem jafnframt eru í sjálfsábúð, því að sjálfsábúð og einkaeign á jörðum fer ekki nærri alltaf saman. En spurningin um það, hvort jarðir eigi að hverfa sem mest í eign ríkisins, og að ríkið eigi a. m. k. að bætta að selja sínar jarðeignir, hefir verið uppi á teningnum við næstum allar alþingiskosningar, og Alþfl. hefir ekki farið dult með skoðanir sínar í þessu efni frekar en öðru. Afstaða Alþfl. til þess máls er löngu kunn öllum kjósendum á landinu. Þeir vita það, að Alþfl. telur það heppilegast og eðlilegast, að allar jarðir séu eign þjóðfélagsheildarinnar. Fjöldi manna, á öllum tímum, hér á landi, sem ekki hafa aðhyllzt jafnaðarstefnuna, hafa verið sama sinnis. Má þar nefna nöfn merkra stjórnmálamanna, sem nú eru látnir, eins og Péturs Jónssonar frá Gautlöndum, Hermanns Jónassonar frá Þingeyrum og Jóns Jónssonar frá Múla. Og nú á tímum mun vera fjöldi manna í öllum flokkum, sem telur það æskilegast, að jarðeignir hér á landi séu þjóðareign.

Af því, sem ég nú hefi sagt, er það auðsætt, að till. á þskj. 23 er byggð á misskilningi eða ónógri þekkingu á stjórnmálastefnum, þar sem ríkisrekstur á ýmsum verzlunar- og starfsgreinum og ríkiseign á jörðum skiptir ekki hreinlega flokkum, né er þess eðlis sem ágreiningsatriði, að það sé nýtt í íslenzkum stjórnmálum. Það, sem hér er um að ræða, eru gömul og ný dagskrármál, sem hafa verið þaulrædd og mikið um þau ritað, og engin ástæða til að bera þau sérstaklega undir þjóðaratkvæði. — En það er annað, sem er mjög einkennandi fyrir þessa till., eins og það hefir yfirleitt einkennt umr. margra hv. sjálfstæðismanna, að þeir rugla átakanlega saman hugtökunum, sem felast í orðunum ríkisrekstur og þjóðnýting. Sést þetta bezt á grg. till. á þskj. 23, þar sem talað er um að styðja að þjóðnýtingu atvinnuveganna með ríkisrekstri, rétt eins og ríkisrekstur og þjóðnýting væri eitt og hið sama. Þetta kom einnig fram í frumræðu hv. flm. Það er aumt til þess að vita, að þeir menn, sem hæst gala gegn þjóðnýtingu og ríkisrekstri, skuli ekki vita, í hverju hugtök þessi eru fólgin, en rugla þeim þrálátlega saman, svo að úr verður hinn argasti hrærigrautur. Kemur þetta til af því, að þeir menn, sem mikið hafa sig í frammi sérstaklega gegn jafnaðarstefnunni, eru oft næsta fákunnandi í félagslegum efnum. En framkoma þessarar till., þar sem hugtakaruglingurinn er næsta greinilegur, gefur sérstakt tækifæri til þess að skýra þessi hugtök og aðgreina þau, ef vera mætti, að það yrði til þess, að menn gættu sín betur í opinberum skrifum og umr. að rugla ekki svo saman þessum hugtökum. Og hv. þm. V.-Sk. kvað svo hart að orði nú í ræðu sinni, að slíkt blekkingarinnar hjal, um að mismunur sé á þjóðnýtingu og ríkisrekstri, viðurkenni ekki sjálfstæðismenn. — Það hefir verið talinn skammgóður vermir að því að neita staðreyndum, þó að Sjálfstfl. þykist vera þess umkominn. Hér er hv. þm. V.Sk. að neita fræðilegum staðreynum. Geri aðrir betur.

Til þess að gera sér grein fyrir því, hvað felist í hugtakinn þjóðnýting og greina það frá öðrum hugtökum, er nauðsynlegt að skilgreina þjóðnýtingu. En hin bezta skilgreining og réttasta á þessu hugtaki er sú, sem gerð var af norsku þjóðnýtingarnefndinni, og er hún þannig:

Þjóðnýting táknar það, að eignarumráð framleiðslutækja eru flutt úr höndum einstaklinganna yfir til þjóðfélagsheildarinnar, og rekin af henni með hagsmuni alþjóðar fyrir augum, eftir ákveðnu skipulagi, með lýðræðisstjórn og hagfræðilegri og réttlátri skiptingu arðsins meðal manna.

Af þessari skilgreiningu er það auðsætt, að til þess að hægt sé að kalla framleiðslu þjóðnýtta. verður alitaf að krefjast þess:

1. að framleiðslan sé skipulögð undir lýðræðisstjórn. Með því er átt við það, að allir þeir, er starfa að fyrirtækjunum, taki þátt í stjórn þeirra, og að slík fyrirtæki verða að vera háð eftirliti kjörinna fulltrúa framleiðenda og neytenda. Einkastjórn nokkurra manna á opinberum fyrirtækjum uppfyllir ekki hugtakseinkenni þjóðnýtingar.

2. framleiðslan verður að vera miðuð við þarfir þjóðfélagsheildarinnar. Í því efni aðgreinir þjóðnýtt framleiðsla sig frá framleiðslu einstakra manna eða félaga, þar sem markmiðið er eingöngu eða aðallega, að framleiðandinn hafi hagnað af framleiðslunni. Þó framleiðslan sé þjóðnýtt, kemur það að litlu liði, ef dreifing hennar — verzlunin — er háð öðru skipulagi. Til þess að um þjóðnýtta verzlun sé að ræða, verður hún að vera háð stjórn og eftirliti þjóðfélagsheildarinnar, og ber því að sjálfsögðu að leggja áherzlu á það, að fullnægt sé þörfum framleiðenda, neytenda og þjóðarheildarinnar yfirleitt. En sé allra þessara hagsmuna gætt réttilega, eru fram komin höfuðeinkenni þjóðnýttrar verzlunar. Og að sjálfsögðu verður þjóðnýtt verzlun að veru háð lýðræðisstjórn, þannig að henni sé stjórnað af kjörnum fulltrúum þjóðfélagsheildarinnar. með þarfir alþjóðar fyrir augum.

Opinber verzlun ríkis eða héraðs er venjulega alls ekki þjóðnýtt verzlun. Þó að þjóðfélagið sjálft geti með því móti haft aðalhagnaðinn af verzluninni, í stað þess sem einstaklingar njóta þess arðs að öðrum kosti, og að því leyti getur oft verið um hagkvæma tekjuöflunarleið að ræða, þá er þó ríkisverzlun með öllum höfuðeinkennum borgaralegs þjóðfélags. Þetta hefir verið mjög skýrt fram tekið af beztu rithöfundum jafnaðarstefnunnar. t. d. segir Karl Kausky það á einum stað í ritum sínum, að þjóðnýtt verzlun sé skipulagsbundin dreifing verðmætanna, undir stjórn og eftirliti allrar þjóðfélagsheildarinnar, í stað þess sem ríkisverzlun í auðmagnsríki sé háð pólitískri stéttastjórn borgaranna. — August Bebel hefir einnig sagt um ríkisverzlun, að hún hafi á sér öll höfuðeinkenni auðmagnsskipulagsins, og að hvorki verkamenn né aðrir starfsmenn ríkisverzlana hafi nokkur sérstök hlunnindi af henni, enda komi ríkið oft fram sem óvæginn atvinnurekandi. Og ennþá skýrar kemur þessi skoðun fram hjá hinum alþekkta belgíska stjórnmála- og jafnaðarmanni Emil Vandervelde í hinni ágætu bók hans „Jafnaðarstefnan gegn ríkinu“. Þar sem m. a. segir: Það er lítill fengur að afnema einkaauðmagn, en koma í stað þess á ríkisauðmagni. Leiðin út úr ógöngunum krefst afnáms hvorstveggja, en í stað þess skipulags, þar sem framleiðslan og verzlunin séu reknar af þjóðfélagsheildinni, undir beinni og áhrifaríkri stjórn hennar með hagsmuni allra fyrir augum.

Eins og ríkisverzlun er rekin nú á tímum, er hún fjarskyld þjóðnýttri verzlun vegna þess:

1. að henni er stjórnað af fámennu flokksráðuneyti, án þess að framleiðendur. neytendur og öll alþýða taki beinan þátt í þeirri stjórn.

2. að venjulega er ekkert hirt um það, þó að neytendur þurfi að greiða of hátt verð fyrir hin seldu verðmæti, og eins hitt, að verkamenn og aðrir, er að slíkri verzlun vinna, fá ekki greitt sannvirði vinnu sinnar.

Ég hefi þá hér á undan í ræðu minni gert fræðilegan greinarmun á þjóðnýtingu og ríkisrekstri og sýnt fram á það, að flm. till. á þskj. 23 ruglar þessu alveg saman. Till. þessi er því frá upphafi til enda, jafnt að formi sem efni, hinn aumlegasti vanskapnaður, er ber höfundum sínum órækt vitni. Slíkum óskapnaði er gert of hátt undir höfði með því að láta till. koma til atkvæða á hinu háa Alþingi. Það, sem því ber að gera, er það, að hv. Alþingi, að gefnu þessu tilefni, lýsi yfir:

að það sé fjarri lagi að láta einstaka þætti úr stjórnmálastefnum, sem auk þess er ekki hreinn flokkslegur ágreiningur um, koma til þjóðaratkvæðis, að tillagan ber vott um ónóga þekkingu eða misskilning á þjóðfélagsmálum, og að þar er á hinn herfilegasta hátt ruglað saman hugtökum,

og er því nægilegt að slá þessum staðreyndum föstum og ljúka þar með máli þessu hér á Alþingi. — Leyfum við okkur því, ég og hv. þm. S.-Þ., að bera fram til afgreiðslu málsins eftirfarandi rökst. dagskrá:

Með því að það er fjarri lagi að bera undir þjóðaratkvæði einstaka þætti úr stjórnmálastefnum, ekki sízt þar sem slíkir þættir, eins og ríkisrekstur, eru framkvæmdir að vilja allra stjórnmálaflokka, og með því að samherjar flutningsmannsins að tillögu þeirri, er hér liggur fyrir, hafa komið á ríkisrekstri á sölu áfengis. tóbaks, matjessíldar og nú síðast trjáplantna, og þar sem ennfremur þingsályktunartillagan ásamt greinargerð hennar er sýnilega byggð á misskilningi eða ónógri þekkingu á stjórnmálastefnum, auk þess sem hugtökum er þar ruglað saman, þá sér Alþingi ekki ástæðu til þess að gera ályktun um mál þetta og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.