01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (4867)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Herra forseti ! Þessar umr., sem áttu að vera um þáltill. á þskj. 23, hafa farið nokkuð á við og dreif. Það hefir m. a. verið minnzt á kjötsölulögin og mjólkursölulögin, en ég ætla ekki langt út í þau mál í þetta sinn, enda mundi ég ekki geta lokið máli mínu um þau á svo stuttum tíma sem ég hefi nú til umráða.

Öllum hugsandi mönnum hlýtur að vera það ljóst, að það hefir ekki átt sér stað nein einkasala á kjöti eða mjólk hér á landi. Bændur ráða sjálfir meiri hluta þeirra nefnda, sem ráða um söluskipulag á þessum vörutegundum. Um kjötsöluna er það að segja, að saltkjötið frá síðastl. hausti er allt saman selt, og allt frysta kjötið, sem út hefir verið flutt, er einnig selt. Kjötbirgðirnar hér innanlands eru ekki sérlega miklar, og fjarri því að vera nokkuð óvenjulegar, samanborið við það, sem verið hefir á þessum tíma árs.

Það er reglulega ánægjulegt að fá þessa umr. að því er snertir afurðasölumálin og ummæli hv. 6. þm. Reykv. um þau, sem segist tala fyrir sinn flokk, Sjálfstfl., og einnig hnjóðsyrði hv. þm. V.-Sk. um afurðasölulögin og framkvæmd þeirra, sem sýna í raun og veru beran fjandskap frá hálfu Sjálfstfl. til þeirra mála. Þessum hv. þm. þykir hlýða að hafa allt illt á hornum sér vegna þess, að tekizt hefir með aðstoð þessara laga að hækka til muna verðið á þessum afurðum bænda.

Það mál, sem ég ætla sérstaklega að taka til yfirvegunar, er sá liður þáltill., sem þannig er orðaður: „Viljið þér, að stefnt sé að því, að allar jarðeignir í landinu hverfi úr sjálfsábúð og verði ríkiseign?“ — Í raun og veru er þessi spurning, eins og hún er borin fram, blekking, vegna þess að það atriði, sem hér er spurt um. liggur alls ekki fyrir á þessu þingi. Stefnuskrá Framsfl. um þetta atriði, sem var birt í blaði flokksins, Tímanum, stuttu fyrir kosningar síðastl. vor, var og er þannig: „Framsfl. vill styðja að því að koma á löggjöf um erfðaábúð á jörðum, sem eru eign ríkisins; hann vill styðja að því að afnema þjóðjarðasöluna og sölu á kirkjujörðum og vill styðja að því, að ríkið eða sveitarfélögin geti eignazt með hæfilegu verði jarðir þær, sem lánsstofnanir eða einstaklingar vilja selja.“ — Og í samræmi við þessa stefnuskrá er síðan gerður málefnasamningur við jafnaðarmenn á þá leið að afnema þjóðjarðasöluna og undirbúa löggjöf um jarðakaup ríkisins. M. ö. o., málefnasamningur sá, sem gerður var við jafnaðarmenn eftir kosningarnar og áður en þessi ríkisstj. tók til starfa, er í nákvæmu samræmi við þessa kosningastefnuskrá, sem Framsfl. birti fyrir kosningarnar 24. júní og barizt var um næstum því á hverjum einasta landsmálafundi um allt land í vor. Það hefir þess vegna verið m. a. kosið beinlínis um þessi stefnuskráratriði Framsfl., stefnuskráratriði, sem vitanlega eiga ekkert skylt við það, sem hér er borið fram í blekkingarformi, að ríkið eignist allar jarðeignir á landinu. Það, sem Framsfl. hefir lýst sig fylgjandi, er, eins og kemur fram í stefnuskránni og málefnasamningnum, að afnema þjóðjarðasöluna og styðja að kaupum á jörðum frá einstaklingum og lánsstofnunum, ef þær sérstaklega vilja selja. Það, sem deilt er um hér á þingi, er þess vegna alls ekki þetta, sem kemur fram í þessari þáltill. það, sem deilan er um. er stefnuskrá Framsfl. í þessu efni. Það er vitanlegt, að í þessu atriði eru stefnurnar 3 hér á þingi. Stefnu jafnaðarmanna hefir verið lyst af jafnaðarmönnum. Þeir vilja gera allar jarðeignir að ríkiseign, eins og þeir hafa líst yfir hér á þingi. Stefna sjálfstæðismanna er hinsvegar sú, að þeir vilja halda áfram þjóðjarðasölunni. braskinu með jarðirnar og breyta engu frá því, sem verið hefir undan farin ár, að öðru leyti en því, sem tekur til frv. um óðalsrétt, sem ég hefi ekki tíma til að fara út í. Það, sem ræður hér á þingi, er stefna Framsfl., því vitanlega verður ekki hægt fyrir jafnaðarmenn að fara lengra heldur en sú stefna markað., nema Sjálfstfl. gangi í lið með þeim til þess að koma þeirri stefnuskrá fram. Það hefir verið reynt að láta líta svo út, að deilan um þessi atriði væri eitthvað nýtt hér á Alþ., þessi millistefna Framsfl. væri einhver jafnaðarstefna. En ég vil segja það, að deilan um þessi atriði er sannarlega ekki ný á þingi, hún stóð 1905, þegar l. voru samin og sett um það að selja þjóðjarðirnar, og síðar kirkjujarðirnar. Deilan stóð þá á milli bænda, þannig að mestu bændaskörungarnir, sem þá voru á þingi, voru ákveðnir á móti þjóðjarðasölunni. Það voru þeir Hermann Jónasson frá Þingeyrum, Pétur Jónsson frá Gautlöndum og Jón Jónsson frá Múla. Það er áreiðanlegt, að það hefir ekki verið sagt neitt í kvöld um þjóðjarðasöluna, sem er betur sagt heldur en það, sem þessir menn sögðu 1905. Þeir sýndu fram á allar þær meinsemdir, sem af henni mundu leiða, og þær hafa allar komið fram. Ég hefi því miður ekki tíma til þess að lesa nokkra kafla úr ræðum þessara manna. Hermann Jónasson frá Þingeyrum bendir á, að það sé einkennilegt að vilja selja þjóðjarðirnar, þó að sýnt sé, að ábúðin sé bezt á þeim. — Pétur Jónsson sýnir fram á, að innan nokkurra ára muni koma upp ýmiskonar samvinnubúskapur og að ríkið og sveitarfélögin þurfi að ráða yfir löndum til þess að koma niður smábýlum, sem muni rísa upp. Sérstaklega tekur Jón Jónsson frá Múla þetta greinilega fram, að nauðsynlegt sé fyrir ríkið að ráða yfir jörðum. Ég skal leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp stuttan kafla úr ræðu eftir hann. Hann segir svo: „Þeim (þ. e. a. s. bændum) er ætlað að verja fé sínu og striti til þess að borga landssjóði óræktaða moldina, því sama fé og erfiði geta þeir ekki varið til þess að rækta og bæta jörðina. Þetta er auðskilið og sömuleiðis hitt, að jarðabætur verða minni, máske engar, á þessum jörðum meðan verið er að borga þær. Legði ábúandi þar á móti þetta fé í jarðabætur, og til þess hefði hann fulla hvöt, ef ábúðinni væri svo hagað sem ég hefi bent á, þá tvöfaldaðist á sama tíma gildi jarðarinnar og verð, og þó raunar miklu meira, ef jarðabæturnar eru gerðar skynsamlega. Á þann hátt yrði landið miklu fyrr ræktað, verðgildi þess yxi og margfaldaðist. Það yrði hin nýja landnámsöld.“ En hún er að renna upp núna, 30 árum eftir að Jón frá Múla sagði þessi orð. Hann vildi tryggja ábúðarréttinn með erfðafestu, þannig að maðurinn, sem á jörðinni býr, hafi alla hagsmuni af því og allan vilja til þess að gera jörðinni til góða fyrir sína afkomendur. Þetta sýnir hann fram á með langri ræðu og skýrum rökum. Hann segir m. a.: „Ég bið hv. dm. að veita því eftirtekt, að allt það fé, sem lagt er fram til þess að kaupa land, stendur þar fast og verður ekki notað til þess að bæta landið. Þessari skoðun held ég ennþá fast fram og get ekki breytt henni; ég hefi haft hana frá því ég fór fyrst að hugsa um þessi mál.“ — Ég get ekki stillt mig um að lesa enn endi ræðu hans, þar sem hann svarar ráðh., sem bar sérstaklega fram frv. um þjóðjarðasöluna: . — — En þrátt fyrir það hefi ég ekki sannfærzt á því enn, að salan sé heppilegri heldur en sú aðferð, sem ég benti á, til þess að ná þessu marki. Sagan, sem hæstv. ráðh. sagði, var um barn, sem þótti vænt um rúmið sitt, vildi sofa í því og prýða það, af því að því var talin trú um, að það ætti það sjálft. Þessi saga hins hæstv. ráðh. sannfærði mig ekki um það, er ætlazt var til, að þetta frv. væri heppilegt. En hún er samt allvel viðeigandi hér sem dæmisaga. Ábúendum er talin trú um, að þeir kaupi jarðirnar, séu eigendur þeirra, jafnvel þó mjög litlar líkur séu til, að þeim endist aldur og þróttar til að borga þær til fulls. Þetta á að gróðursetja eigendatilfinninguna hjá þeim eins og hjá barninu. Hvorttveggja er nú samt blekking ein. Mundi ekki vakna eins heit og eins endingargóð eigandatilfinning hjá ábúanda, ef hann fengi áreiðanlega lögtryggða vissu fyrir því, að sérhverjar verulegar bætur, er hann gerði á jörðinni, væru í raun og veru hans eign, sem hann stæði í engri skuld við landssjóðinn fyrir? Jú, vissulega. Bændur eru engin börn.“

Þetta voru nú skoðanir þessara þriggja þingskörunga á þjóðjarðasölunni 1905. Þeir börðust á móti henni eins og þeir gátu á þinginu, en urðu í minni hl. En reynslan, sem við höfum nú fengið af þjóðjarðasölunni, hefir sýnt, að þeir höfðu rétt fyrir sér.

Ég hefi því miður ekki tíma til að lesa upp úr skýrslum um jarðir, sem seldar hafa verið 1908 —1909, en á báðum þessum árum voru seldar 35 jarðir, 16 af jörðunum, sem seldar voru hvort ár, eru komnar í leiguábúð, og verðið, sem þær hafa verið seldar fyrir núna seinast, er 10 sinnum meira heldur en það, sem ríkið seldi þær upphaflega fyrir. Þannig hefir braskið farið með þessar eignir, sem ríkið afhenti einstaklingum.

Við erum ekki í vafa um það, framsóknarmenn, að það á hiklaust að taka upp stefnu Péturs á Gautlöndum, Jóns frá Múla og Hermanns Jónassonar. Við erum búin að fá nóga reynslu af þjóðjarðasölunni. Það má sérstaklega benda á það, að einmitt braskið með jarðirnar hefir leitt til annarar niðurstöðu, sem gerir það líka nauðsynlegt, að ríkið hlaupi að nokkru leyti undir bagga og kaupi sumar jarðir nú. Það liður varla sú vika, að ekki komi til mín a. m. k. 2—3 bændur, sem eru leiguliðar á þann hátt, að þeir hafa jarðirnar til eins árs í senn hjá lánsstofnunum, sem hafa tekið jarðirnar upp í vanskil. Bankarnir sitja sem eðlilegt er um að selja þessar jarðir og vilja því ekki leigja þær nema til eins árs í senn, en það er sú alversta leiguábúð. En það, sem Framsfl. vill gera með því að kaupa þessar jarðir. er að létta af þessari leiguábúð, sem er skömm fyrir þjóðfélagið, og reyna að koma á erfðaábúð með sæmilegum kjörum í staðinn. Það, sem þess vegna hér liggur fyrir um sölu og kaup þessara jarða. er ekki það, sem spurt er um í þáltill. Það, sem spyrja á um viðvíkjandi stefnunni, sem ríkjandi er á Alþ. í þessum efnum, er því þetta: Á að halda áfram sölu þjóð- og kirkjujarða, þótt reynslan hafi sýnt og sannað, að það fyrirkomulag hefir alla þá galla, sem þeir Pétur Jónsson og Jón frá Múla bentu á í upphafi þessa máls? — Ég er ekki í nokkrum vafa um, að mikill meiri hl. þjóðarinnar svaraði neitandi.

Ein spurningin er um það, hvort eigi að hjálpa þeim mönnum, sem einstaklingsbraskið er búið að sliga, undan skuldabyrðinni, hvort eigi að hjálpa þeim mönnum, sem nú búa á jörðum sem lánsstofnanir eiga og leigðar eru til eins árs í senn með afarkostum, með því að veita þeim erfðaábúð. Ég er ekki í vafa um, að mikill meiri hl. íslenzkra bænda svaraði þessu játandi. En því miður er ekki hægt að hjálpa öllum þeim, sem hjálpa þarf, vegna þess að ríkið hefir ekki nema svo lítið fjármagn. Það er ekki hægt að kaupa nema sáralítið af jörðum á næstunni, þó farið verði inn á þessa braut.