01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (4868)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Þó að skoðanamunur milli sósíalista og sjálfstæðismanna sé allmikill, þá er samt þessi grein ekki eins hrein og ætla mætti. Þannig hefir upplýstast nú, og var enda kunnugt áður, að ýmsir menn úr Sjálfstfl. hafa verið með einkasölum á ýmsum sviðum. Á sama hátt hafa framsóknarmenn ekki verið alveg eins áfjáðir í einkasölu á öllum hlutum eins og jafnaðarmenn. Það, sem hefir takmarkað stefnu Bændafl. í þessum sökum, er sú stefna, sem var ríkjandi áður fyrr í Framsfl., á meðan hann var ekki eins háður sósíalistum eins og nú orðið, þ. e. a. s. hann vill nota einstaka verzlunargreinar, sem eru sérstaklega vel fallnar til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. eins og t. d. áfengiseinkasölu og tóbakseinkasölu.

Ágreiningurinn um ríkiseign jarða er aftur nokkuð greinilegri heldur en um einkasölur. Framsfl. er nú alltaf að færast mér og nær stefnu sósíalistanna í þeim sökum, að gera allar jarðir að ríkiseign, og þá sjálfsagt um leið að gera alla framleiðslu að ríkisframleiðslu. Stefna okkar Bændaflokksmanna í þessum efnum er sú, að reyna að styðja sem mest einstaklingsframtakið, gera jarðirnar að eign bændanna sjálfra og hjálpa þeim yfir þá erfiðleika, sem svo mikið hafa komið í ljós á seinni árum — að getu yfirtekið jarðirnar, ættlið fram af ættlið. Hér er um að ræða erfiðleika, sem verður að fá lausn á, og hún mun fást með heppilegri löggjöf, og er þegar stigið nokkurt spor í þá átt.

Í sambandi við þessar umr. hefir hv. þm. S.-Þ. reynt að ná til hv. 10. landsk. og ásakað hann fyrir ýmsar ráðstafanir, sem hann hefir annaðhvort látið gera eða látið ógert. þegar hann átti sæti í ríkisstj. Það er orðið svo fyrir þessum hv. þm. og ýmsum fleirum úr Framsfl., að það er helzt ekkert annað, sem þeir sjá, heldur en Bændafl., og vitanlega er þá allt fært til verri vegar og rangfært það, sem gert og sagt hefir verið. — Hv. þm. S.-Þ. lét undrun sína í ljós yfir áhuga hv. 10. landsk. á samvinnumálum og var að tala um einhverja árás af hendi Bændafl. á Sigurð Kristinssom framkvstj. Sambandsins. Nú vil ég biðja hv. þm. S.-Þ. að upplýsa það, hvort hann hafi átt tal við Sigurð Kristinsson um þessa hluti, hvort hann hafi látið í ljós nokkuð í þá átt, sem geti bent til þess, að hv. 10. landsk. hafi verið óvinveittur samvinnufélagsskapnum í landinu. Ég hafði þá aðstöðu núna fyrir rúmu ári síðan að hlusta á Sigurð Kristinsson lýsa því yfir, að það hafi ekkert verið látið ógert af ríkisstj. hálfu, meðan hv. 10. landsk. átti sæti í henni, til hagsbóta fyrir samvinnufélagsskapinn, sem hann eða Sambandið hefði farið fram á.

Það var minnzt á í þessu sambandi hina margumræddu kjötuppbót frá árinu 1933 og mjólkurbúastyrkinn. Um hann er það að segja, að eftir l. var ekki hægt að greiða hann út nema gengið yrði frá skuldbindingum mjólkurbús Flóamanna, en það þótti ófært að ganga svo hart að því sem l. ákváðu. En þegar Bændafl. fór fram á það á þingi, að þessi lagaákvæði væru ekki látin standa í veginum fyrir því, að önnur mjólkurbú gætu fengið útborgaðan þennan styrk, þá beitti stjórnarliðið sér á móti þeirri sjálfsögðu leiðréttingu. — Um kjötuppbótina frá 1933 er það að segja, að hún var undirbúin af fyrrv. stj., og eftir það að Alþ. gaf heimildina til slíkrar útborgunar leið ekki lengri tími, sem fyrrv. stj. Sat við völd, heldur en frá því að núv. stj. tók við völdum og þangað til styrkurinn var útborgaður, og hafði þó fyrrv. stj. verið búin að búa þetta í hendur núv. stj., en hún þurfti jafnlangan tíma til þess að ákveða sig eins og fyrrv. stj. þurfti til þess að undirbúa málið í hennar hendur.

Þá var hv. þm. S.-Þ. að tala um það, hvað ræða hv. 10. landsk. hefði verið laus. Hann má nú trútt um tala, því hann óð sjálfur úr einu í annað, og var ekki hægt að segja, að hann hefði góða fótfestu. Sem dæmi upp á þetta vil ég nefna það, að hann taldi það vafasama fullyrðingu hjá hv. 10. landsk., að rekstur síldarverksmiðjunnar hefði verið ofvaxinn sem einkafyrirtæki, en hann sagði, að verksmiðjan hefði verið nauðsynleg af allt öðrum ástæðum. Þetta voru allar röksemdirnar, sem hv. þm. færði gegn þeirri skoðun hv. 10. landsk., að nauðsynlegt hefði verið að láta ríkið reisa þessa verksmiðju, vegna þess, að einstaklingar gátu ekki gert það á þeim tíma, sem nauðsynlegt var að koma henni upp.

Hv. þm. Hafnf. vildi ekki álíta, að það hefði verið gengið of langt í ríkisrekstri í löggjöf á þessum 2 þingum, sem hafa verið háð síðan núv. stj. tók við völdum. Frekar sagðist hann geta sakað ráðandi flokka þingsins fyrir það, að þeir hefðu gengið of skammt í þessum sökum. Það er ekki undarlegt, þó honum finnist það, því það er ekki nema að nokkru leyti tekið tillit til þeirrar stefnuskrár, sem flokkur hans samdi fyrir kosningarnar síðustu. En það er áreiðanlegt, að framsóknarráðh. eiga eftir að beygja sig betur fyrir valdi sósíalistanna heldur en þeir hafa gert enn, og þykir þó sumum allnægilega að verið. Að það hafi verið ljóst fyrir síðustu kosningar, að Framsfl. mundi ganga eins langt inn á brautir sósíalista í þessum efnum eins og raun er á orðin, er fjarstæða ein. Fyrir nokkrum árum lét hv. þm. S.-Þ. þau orð falla um jafnaðarmenn, að þegar þeir færu að framkvæma stefnu sína á þjóðnýtingu, þá mundi Framsfl. snúa við þeim bakinn og taka höndum saman við „íhaldið“ til andstöðu við sósíalista. Framsóknarmenn úti um land munu því hafa trúað því, hvað svo sem sagt hefir verið fyrir kosningarnar í vor, að Framsfl. á þingi mundi, eftir þessi orð leiðtoga síns, aldrei ganga til samkomulags við sósíalista á þessum grundvelli.

Hv. þm. Hafnf. sagði ennfremur um þjóðjarðasöluna, að það þyrfti að komast í l., að þær umbætur, sem gerðar væru á jörðunum, yrðu á engan hátt til þess að hækka verð þeirra, og lét hann þau orð falla í sambandi við þetta, að þetta gæti orðið til þess, að léttara yrði fyrir jarðeigendur að sjá af jörðum til ríkisins. Það er einmitt þarna, sem hundurinn liggur grafinn hjá sósíalistum. Þeir ætla sér með löggjöf að þvinga jarðeigendur til þess að bjóða ríkinu jarðir sínar til kaups og þannig ná því stefnuskráratriði, sem framsóknarmenn segjast hafa á sinni stefnuskrá, — að taka ekki aðrar jarðir heldur en þær, sem bændur bjóða ríkinu til kaups.

Ég get látið útrætt um þessa hlið málsins. Hún hefir þegar verið tekin til meðferðar af hv. 10. landsk., sem greint hefir frá stefnu okkar Bændafl.manna. Það verður ekki um það deilt, hver er stefna sósíalista í þessum efnum. Um það verður heldur ekki deilt, hverja stefnu sjálfstæðismenn, a. m. k. þeir, sem harðvítugast hafa barizt gegn einkasölum, hafa í þessum málum. Báðir eru þessir flokkar á skakkri leið. Þeir, sem hafa komizt næst hinu rétta, eru þeir löggjafar á undanförnum þingum, að undanskildu því síðasta, sem hafa valið úr og tekið þær vörur í einkasölu, sem hentugastar hafa verið til þess, og vel hægt að forsvara. Nú hefir verið tekin upp önnur aðferð, sem orsakast af því, að sósíalistar hafa náð meiri tökum á þinginu en þjóðin ætlast til og gerði ráð fyrir.