01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (4870)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég mun verja þessum fáu mínútum, sem mér eru eftir skildar, til þess að minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið í umr. í kvöld. Ég hjó sérstaklega ettir því hjá hv. 10. landsk., að hann minntist á það, að það gæti verið heppilegt að hafa ríkisrekstur á strandferðunum. Færði hann þau rök fyrir máli sínu, að í höndum einstaklinganna yrði þessu hagað þannig, að farið yrði einungis á beztu hafnirnar, en hinar látnar eiga sig. Aftur á móti sagði hann, að ríkið ætti að sjá um, að hinar smærri hafnir væru ekki afskiptar, ef það hefði þennan rekstur með höndum. M. ö. o., af þessum röksemdum hans mátti álykta, að einstaklingarnir hugsuðu fyrst og fremst um gróðann af atvinnurekstrinum, en í höndum ríkisins væri almenningsheill sett ofar, og ekki síður hlúð að hinum smærri í þjóðfélaginu en hinum. Þarna hygg ég, að skotið hafi upp skynsamlegri skoðun hjá þessum hv. þm., þeirri skoðun, að í höndum ríkisins séu fyrirtækin rekin með almenningheill fyrir augum, en hjá einstaklingunum með tilliti til stundarhagsmuna eigendanna fyrst og fremst. Það er vissulega höfuðkostur ríkisrekstrarins, að hann er rekinn eins með hagsmuni hinna smáu og hinna stóru fyrir augum.

Bæði hv. flm. þessarar till. til þál., sem hér er til umr., hv. 6. þm. Reykv., og flokksbróðir hans. einn, hv. þm. V.-Sk., héldu því fram, að núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar væru að framkvæma stefnu kommúnista hvað snertir ríkisverzlun. Hafði hv. þm. V.-Sk. um það mörg orð og stór, hversu fyrirmyndin væri sótt til Rússlands, þar sem ríkisverzlanir störfuðu, og hversu stjórnarflokkarnir „gengju undir ok hins rauða kommúnisma“, eins og hann orðaði það. Samtímis því, að þessi talsmaður Sjálfstfl. hér í þinginu er að halda þessa ræðu, kemur út málgagn kommúnistaflokksins, þar sem það, að gefnu tilefni Alþýðublaðsins, minnist örfáum urðum á landsverzlun, og skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa stuttan kafla úr grein um þetta efni í Verklýðsblaðinu, kafla, sem lögð er sérstök áherzla á í blaðinn og prentaður með stóru, svörtu letri. Hann hljóðar svo: „Landsverzlun þýðir í böndum auðvaldsstjórnar hið ógurlegasta vald til að skattleggja alþýðu eftir vild með duldum tollum á nauðsynjavörum hennar og myndi því jafngilda nýrri hungurherför, vaxandi dýrtíð og álögum, samfara auknu atvinnuleysi verzlunarfólks.“

Þetta hefði að flestu leyti eins vel getað staðið í Morgunblaðinu og Verklýðsblaðinu, og sannast hér eins og svo oft áður, að „það er mjótt mundangs hófið“, mjótt milli þessara tveggja póla, svartasta íhaldsins annarsvegar og kommúnismans hinsvegar. En þetta sýnir mætavel, hve lítt rökstuddar ræður sjálfstæðismanna hafa verið, þegar þeir telja fyrirmyndina um landsverzlun, sem að þeirra áliti er svo óalandi og óferjandi, sótta til kommúnistanna, og að það sé þeirra stefna, sem nú sé verið að framkvæma á Íslandi. Hv. B. þm. Reykv. sagði, að í höndum ríkisverzlana væru vörurnar dýrari og óheppilegri en hjá einstaklingum, sem rækju verzlanir. Út af þessu vil ég minna á viðskipti þessa sama hv. þm. við ríkisverzlun, og þann hag, sem hann hefir af því haft, að komið hefir verið á einkasölu með vissa vörutegund. Þessi hv. þm. hefir eins og margir aðrir góðir menn viljað fylgjast með tímanum og keypt sér útvarpstæki hjá viðtækjaverzlun ríkisins. Þetta er Philipstæki og kostaði 280 kr. En hjá nágrannaþjóðunum, t. d. dönskum verzlunarfyrirtækjum, kostar nákvæmlega samskonar tæki 425 kr. í frjálsri verzlun. Viðtækjaverzlun ríkisins er rekin með allverulegum ágóða, sem rennur í ríkissjóð, og á að vera hægt að verja honum til almenningsþarfa í landinu, og samt sem áður getur þessi einkasala veitt viðskiptavinum sínum hagkvæmari kjör en verzlun með samskonar vörur í nágrannalöndunum. — Þetta er lítið dæmi um það. hversu fráleitt það er, þótt þessir hv. sjálfstæðismenn haldi því fram, að vörur verði bæði verri og ódýrari í höndum ríkisverzlana en í frjálsri samkeppni, því að það mun mála sannast, að þetta dæmi, sem ég hefi nú nefnt, sé ekki einstakt, heldur sérkennandi fyrir ríkisrekstur yfirleitt.

Hv. 6. þm. Reykv. gat þess sérstaklega, að það yrði óvandur eftirleikurinn. þegar Alþfl. yrði tekinn til hirtingar. Þar kom fram sama hugsunin, sama kenningin sem svo greinilega birtist í ræðu hv. þm. V.-Sk., og komið hefir fram í blöðum sjálfstæðismanna og umr. þeirra á mannamótum. Það er hótunin mikla um það, að tekið skuli ómjúkum höndum á andstæðingunum, ef Sjálfstfl. auðnist að komast aftur til valda. Þetta er gamla sagan um að þjarma að andstæðingunum, kenningin, sem sett var svo greinilega fram fyrir síðustu kosningar af höfuðpresti íhaldsins, sr. Knúti Arngrímssyni, í hans eftirminnilegu grein, þar sem hann segir, að sjálfstæðismenn eigi að reka „rauðu hættuna“ af höndum sér að dæmi Mið-Evrópuþjóða, þar sem nazistar og facistar hafa náð yfirráðunum. Það var við því að búast, að þessar umr. myndu ekki líða svo, að ekki kæmi fram höfuðeinkennið á Sjálfstfl.: Hugsunin um að brjóta völdin undir sig með ofbeldi, og halda þeim með ofbeldi, ef með þarf.

Þótt þessi till. til þál. sé ómerkileg, hefir hún þó komið af stað þeim umr., sem leiða í ljós, greinilegar en áður lá fyrir, að Sjálfstfl. misskilur að miklu leyti þjóðmálin, og hefir hinn fyllsta vilja til þess að hlúa að einstaklingunum á kostnað almennings í landinn. Aftur er það ljóst, að Alþfl. byggir stefnu sína á fræðilegum kenningum, með það sjónarmið, að einstaklingunum beri að víkja fyrir alþjóðarheill. Um þessi 2 höfuðsjónarmið mun stjórnmálabaráttan verða háð á næstu árum, og gifta þjóðarinnar ræður því, hvor stefnan nær meira fylgi. Ég vænti þess, að ekki sé ástæða til að örvæntu í því efni, og því meira sem þessi mál eru rædd, því meiri líkindi eru til þess, að hinn góði málstaður sigri.