01.04.1935
Sameinað þing: 7. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (4871)

21. mál, ríkisrekstur atvinnuvega og ríkiseignarjarða

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Herra forseti! Það var engin furða, þótt hv. þm. S.-Þ. þyrfti að tala um Jón í Stóradal og mig, þar sem hann getur varla gefið svo út blöð sín, eða skrifað greinar um hvaða efni sem er, að hann ekki minnist annarshvors okkar Jóns í Stóradal. Ég get ekki annað en talið það heiður fyrir okkur tvo, að vera þessi ljón, sem Jónas Jónsson sér alstaðar á leið sinni. Hann nefndi einu sinni enn Hrafnagil. Já, hvað oft hefir hann ekki í blöðum sínum og á mannfundum nefnt Hrafnagil. þ. e. a. s. síðan ég gerðist andstæðingur hans. Áður var aldrei á það minnzt. Hann nefndi bæði söluverð og kaupverð, en hvorugt gat hann hermt rétt. Hann gat þess ekki, að jörðin var seld í verðbólgu stríðsáranna. Hann gat ekki um aukna ræktun hennar, að töðufall hennar hafði tvöfaldazt, né hina nýju markaðsaðstöðu. Hann gat ekki um verðhækkunina, sem samtímis vor komin á allar afurðir og búpening. Samkv. skoðun hv. þm. S.-Þ. ætti ríkið eins að kaupa allar ær og kýr á landinu.

Hv. þm. sagði, að Bændafl. hefði með framboði sínu í Rangárvallasýslu stuðlað að sigri Sjálfstfl. Man þá ekki hv. þm. það lengur, að rétt áður en framboðsfrestur var útrunninn kom grein í blaði hans, þar sem því var haldið fram, að Bændafl. ætlaði að styðja íhaldið í Rangárvallasýslu með því að bjóða þar ekki fram. En svo nokkru seinna, þegar Bændafl. hafði boðið þar fram. sagði sama blað, að það væri gert til þess að styðja íhaldið.— Svona rekur sig hvað á annað hjá hv. þm. Svona snýr hann öllu sitt á hvað. Þetta er ekki nema eitt dæmi um óskammfeilni hans.

Hv. þm. S.-Þ. sagði, að blaðið Framsókn hefði svívirt Sigurð Kristinsson. Ég veit ekki til, að Það hafi nokkurn tíma gert það. En hv. þm. á sennilega við það, að blaðið hafi ekki talað nógu virðulega um hann sjálfan. En það væri að óvirða Sigurð Kristinsson að líkja þeim saman.

Það gleður mig, er hv. þm. segir, að bændur í Mosfellssveit fái nú 12/5 eyris meira en áður fyrir mjólkurlítrann. En ég veit þó, að hækkunin væri orðin meiri, ef ekki hefði verið spillt mjólkursölufrv., sem ég undirbjó, og ef bændur hefðu fengið að ráða einhverju sjálfir um söluna. Bæði mjólk og kjöt þurfa að hækka meira. Það verður að vera höfuðkrafa bænda, að landbúskapurinn fái framleiðsluverð fyrir afurðir sínar. Þá fyrst geta bændur haldið jörðum sínum, ræktað landið, numið það að nýju, alið hrausta, heilbrigða og dáðrakka kynslóð. — En til þess að búskapurinn geti borið sig þarf fleira en hækka verðið. Það verður að styðja bændur til þess að lækka framleiðslukostnaðinn, og það verður að styðja að meiri fjölbreytni framleiðslunnar. Það eru tvö undirstöðuatriði til þess, að landbúskapurinn geti borið sig. Till. Bændafl. í þessa átt hafa ekki fengið mikinn stuðning stjórnarflokkanna á hv. Alþ. En ef búskapurinn ber sig, held ég, að það séu færri bændur, sem vilja vera leiguliðar en sjálfseignarmenn.

Hv. 1. landsk. (StJSt) tók upp dæmið, sem ég nefndi um flutninga kringum land, að þeir væru betur komnir í höndum ríkisins, og dró út af því, að einkarekstur afskipti þá smáu. En ég benti líka á, að til þess að vernda þá smáu væri ekki nóg að hafa ríkisrekstur. Ég benti á, að samvinnufélögin geti gert það betur og hafi oft gert.

Ég ætla að fylgja dæmi hv. þm. S.-Þ. og enda á honum, eins og hann endaði á mér. Og ég ætla að gera það með því að tilfæra dæmi og orð, sem hann mun sízt geta vefengt. Ég ætla að minna hv. þm. á orð merks manns, sem hafa staðið í öðru stjórnarblaðinu og lúta að Jónasi Jónssyni. Þar er kafli með fyrirsögninni: Jónas Jónsson var eitt sinn ungur. Þar er sagt, að hann hafi eitt sinn átt hugsjónir, barizt drengilega fyrir þeim, en nú sé hann búinn að yfirgefa þær. Hann sé orðinn gamall um aldur fram. hafi gleymt hrifningu æskuáranna og sé nú tekinn að óvirða sínar fyrri hugsjónir. Ennfremur segir í greininni, að sum skrif hans séu makalaus vaðall. Og er ekki hægt að segja það um allt, sem þessi hv. þm. skrifar og talar, að það sé makalaus vaðall? — Þar endar stuðningsmaður ríkisstj., að hann segist ekki vilja setja blett á Jónas Jónsson í elli hans, er hann sé búinn að yfirgefa hugsjónir sínar: „Það setur blett á elli yðar, en blettum er ekki á yður bætandi.“

Ég vil enda á þessu og yrði ekki meira á Jónas Jónsson, því að blettum er ekki á hann bætandi.