04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (4889)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Flm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Það er hreinasti misskilningur, að till. þessari sé stefnt gegn Sigurði Jónassyni, og ég viðurkenni ekki að hafa sagt neitt það, er gaf tilefni til að halda slíkt. Það, sem ég hefi sagt, er það, að Sigurði Jónassyni, sem er forstöðumaður fyrir raftækjaverzlun Íslands, hafi verið falin forstaða fyrir hinni væntanlegu raftækjaverzlun ríkisins. Að það var gert, kvað hæstv. fjmrh. vera sökum þess, að hann hefði sökum sparnaðar ekki viljað bæta nýjum forstjóra fyrir þetta fyrirhugaða fyrirtæki. Út af þessum ummælum hæstv. ráðh. vil ég beina fyrirspurn til hans um það, hvers vegna hann hafi endilega valið þennan mann. Hvers vegna skipaði hann t. d. ekki forstjóra viðtækjaverzlunarinnar í þetta? Það var þó skyldari forretning en tóbakið. Það, sem hæstv. ráðh. var að reyn, að afsaka þessar gerðir sínar með, var það, að Sigurður Jónasson hefði sérstaka þekkingu á slíkum verzlunarrekstri sem þessum. En sú ástæða verður að teljast harla lítils virði, þar sem það er vitað, að Sigurður hefir jafnan haft við hlið sér þýzkan sérfræðing í þessari grein, sem talið er að eigi að fylgja honum yfir í ríkisfyrirtækið, því að hann skortir vitanlega alla sérþekkingu á þessum hlutum. Það er því hinn þýzki maður, sem hér á aðallega að ráða, enda hefir Sigurður líka margt annað að gera. Það, sem fyrir hæstv. ráðh. hefir vakað með skipun Sigurður í forstjórastöðu þessa, er því alls ekki það, sem hann hefir verið að herja fram nú, heldur hitt, að hann hefir með þessu verið að bjarga fjárhagslega nokkrum stuðningsmönnum stj., sem tengdir eru við raftækjaverzlun Íslands.

Þá var hæstv. ráðh. að furða sig á því, að ég hefði sagt, að þetta væri það versta, sem stj. hefði gert. Þetta sagði ég bara ekki, heldur hitt, að veiting þessarar forstöðu væri sennilega eitt það vitlausasta og jafnframt það hneykslanlegasta, sem hún hefði gert; og það, sem gerir ráðstöfunina hneykslanlega, er tilgangurinn, að vera að reyna að bjarga nokkrum pólitískum vinum sínum, sem illa eru staddir fjárhagslega, á annara kostnað.

Það er vitanlegt, að þeir, sem kunna að fást við verzlun, geta haft hag af henni. Ég vil því spyrja: Hvers vegna hefir raftækjaverzlun Íslands tapað eins og raun er á orðin? Er það ekki sökum þess, að forstjórinn hefir ekki kunnað að fást við verzlun með slíka hluti, sem þar hafa verið hafðir á boðstólum? Því hefir að vísu verið haldið fram, að tap verzlunarinnar væri því að kenna, að hún hefði upphaflega fengið mjög óhagstæð verzlunarsambönd erlendis og fengið inn vörur, sem hún gat ekki selt aftur. Þetta má vel vera rétt að einhverju leyti, en sé svo, að hún liggi með meira eða minna af lítt seljanlegum vörum, — skapar þá einkasalan kannske ekki aðstöðu fyrir forstjórann til þess að afsetja þær? Hæstv. ráðh. sagði vitanlega, að það væri ekki meiningin að einkasalan keypti þessar vörur, heldur í hæsta máta tæki þær til umboðssölu. Ég þykist nú vita, að hæstv. fjmrh. sé ekki svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki, að þetta sé eitt og hið sama, hvort vörurnar verða keyptar af verzluninni eða að forstjórinn tekur þær í umboðssölu. Það kann aðeins að líða dálítið lengri tími þar til vörurnar eru allar komnar í verð, ef þær eru teknar í umboðssölu. En hitt er víst, að þeim verður öllum komið í verð, — því að hver er það kannske annar en forstjórinn, sem ræður því, hvaða vörur eru keyptar inn á hverjum tíma? Það er þetta, sem er hið hneykslanlega í þessu máli, það hneykslanlegasta, sem mér er kunnugt um, að stj. hafi aðhafzt, að skara svo mjög sem raun er á orðin eld að köku sinna nánustu fylgifiska á kostnað annara. Það má vel vera, að ráðh. þekki eitthvað hneykslanlegra en þetta, sem stj. hefir gert, en sem sagt, mér er ekki kunnugt um það. Þetta er sú stjórnarráðstöfun, sem kemst næst hneykslanlegri framkvæmd mjólkursölulaganna, þó ýmislegt sé ekki sambærilegt með fyrirkomulagið á þessum tveimur einkasölum, m. a. það að mjólkursalan hefir aðeins til meðferðar innlenda vörutegund, en raftækjasalan selur aðeins innflutta vöru. Þessar tvær einkasölur eru því ekki fyllilega sambærilegar.

Hæstv. ráðh. svaraði út í hött hinu og þessu, sem hann var að gera mér upp að hafa sagt, t. d. það, að ekki mætti veita hæfileikamanni þetta starf eða sérfróðum manni. Hann veit vel, að þetta er ekki mín meining. Hinsvegar er mér ekki kunnugt um, að sá maður, sem gerður hefir verið að forstöðumanni raftækjaverzlunarinnar, sé neinn sérfræðingur í þeirri grein. Við þá verzlun, sem hann hefir veitt forstöðu, hefir starfað útlendur sérfræðingur, og ég geri ráð fyrir, að hægt hefði verið að fá þann sama mann til þess að annast raftækjaeinkasöluna án þess að hún sé sett í samband við tóbakseinkasöluna.