04.04.1935
Sameinað þing: 11. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (4900)

126. mál, forstaða Raftækjaeinkasölu ríkisins

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki tefja lengi umr., en út af orðum hv. 2. landsk. verð ég að taka til máls. Hann gerði lítið úr því sem fyrrv. hluthafi í tóbaksverzlun Íslands, hvaða hagnaður gæti verið í því, sem keypt var af bréfum tóbaksverzlunarinnar. En þá gleymdi hv. þm. útistandandi skuldum, sem ekki er ónýtt að fá tóbakverzlunina til að innheimta.

Annars lýsti hv. þm. skemmtilega, hverju ríkið getur komið á veg með einkasölubraski sínu. Hann sagði, að sér hefði verið gefinn kostur á að gerast hluthafi í tóbaksverzlun Íslands, en með skilyrðum. Hvað þýðir svona tilboð? Hvað heitir þetta, að ganga að skilyrðum til að mega leggja fé í fyrirtæki, er gaf svo mikinn hagnað, mér heyrðist 50% á ári? Ef þetta hefði komið fram við mig, þá hefði ég verið svo gætinn að segja ekki frá því; ég hefði þagað yfir því, ef það hefði hent mig að gera þessa eða þvílíka verzlun.

Hæstv. fjmrh. sagði í einni af fyrri ræðum sínum, að raftækjaverzlun Íslands yrði lögð niður, en þegar ég innti hann eftir því, þá mótmælti hann, að hann hefði sagt þetta, og sagði, að ekki kæmi annað til mála en verzlunin héldi áfram. (Fjmrh.: Yrði smásöluverzlun. sagði ég). Um annað er ekki að ræða. Hæstv. ráðh. er svo hræddur við spurningar, að hann kallar það ósvífni, ef spurt er. Það gengur í hans augum glæpi næst að spyrja um afstöðuna til A.E.G. Ég er hissa á, hvað hæstv. ráðh. hefir getað verið blindur, ef honum hefir ekki dottið fyrirtækið í hug í þessu sambandi. Auðvitað hefði hann átt að hugleiða allt í þessu sambandi, sem komið gat til greina, t. d. hagsmunina, sem þarna eru á bak við. Hann segir, að raftækjaverzlunina eigi að leggja niður. Ég spyr, með hvaða kjörum. Þá telur hann þetta tilhæfulaust, verzlunin eigi að halda áfram. Hvernig meinar hæstv. ráðh. þetta? því verður auðvitað ekki svarað.

Það er ekki vert fyrir hæstv. ráðh. að gera lítið úr því fyrir raftækjaverzlun Íslands, hvað verður, ef hún leggst niður og kallast einkasala ísl. raftækja. Það er ekki lítils virði að geta afhent allskonar skuldbindingar til annara, í þessu tilfelli til ríkisins. En það er ekkert auðvelt að leggja verzlunina niður. Það er margt, sem þar kemur til greina. Hún hefir t. d. skyldur við sitt fólk. Það er ekki hægt einn dag að segja: nú verður verzlunin lögð niður. En það eru stórkostleg hlunnindi fyrir þessa verzlun að geta með samningi hæstv. ráðh. orðið raftækjaeinkasala Íslands. En það er ekki bara það, sem hæstv. ráðh. telur aðalástæðuna, að raftækjaverzlun Íslands sé með þessu gefinn kostur á að losna við birgðir sínar.

Hæstv. forsrh. hefir ekki fremur en hæstv. fjmrh. gert sér grein fyrir öllum atriðum þessa máls. Þeir mega því ekki hneykslast, þó að komi fram hjá öðrum ýmis atriði í málinu, sem þeir hafa ekki hugleitt.

Það er ákaflega „typiskt“, er hæstv. forsrh. sagði, eftir að hann var búinn að svara fyrirspurn hv. 6. þm. Reykv., hvort hann væri hluthafi í fyrirtæki. Er hæstv. ráðh. hafði svarað neitandi, þá mun ekki nokkrum í salnum hafa dottið í hug, að hann færi ekki með satt mál. En svo bætir hæstv. ráðh. við: Vill ekki þingheimur spyrja Svein Benediktsson eða Alexander Jóhannesson, hvort ég sé hluthafi. — Þetta er sama og hann segði: Líklega trúir mér enginn. — Þetta er óvirðulegt. Þegar hæstv. forsrh. hafði sagt þetta, þá þurfti ég ekki að spyrja. Ef ekki væri hægt að treysta orðum hæstv. ráðh., þá væri ekki heldur hægt að tala við þá í sameinuðu þingi.