20.11.1935
Neðri deild: 78. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (4913)

178. mál, strandvarnir við Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson) [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram þessa þáltill. og hefi greint þær höfuðástæður, sem til þess liggja, að ég tel, og menn yfirleitt í Vestmannaeyjum, að nauðsyn beri til þess, að gerðar verði meiri ráðstafanir en verið hefir til þess að verja landhelgina þá tíma, sem Þór er þar ekki. Eins og ég vísa til í grg. fyrir þáltill., hefir það verið svo á undanförnum árum, að þegar vertíð hefir verið lokið, hafa varðskipin yfirleitt ekki sézt fyrir sunnan land eða við Vestmannaeyjar, og það af þeirri eðlilegu ástæðu, að þau hafa verið við landhelgisgæzlu fyrir Norðurlandi á þeim tíma. En þetta er farin að verða of góð hlífð fyrir suma botnvörpungana, og vil ég ekki draga dul á, að þeir, sem við vitum um, eru eingöngu útlendir, og hafa þeir gert sig ákaflega heimakomna á heimamiðum Vestmannaeyinga undanfarið, og má segja, að þeir hafi hvað eftir annað tekið bitann frá munninum á sjómönnum okkar. Þetta er þeim mun leiðara og skaðlegra vegna þess, að nú á síðustu árum hafa dragnótaveiðar talsvert verið stundaðar við Eyjarnar að sumrinu og fram á haust. Það hefir oft farið svo, að dragnótabátarnir hafa orðið að gefast upp við veiðar á vissum stöðum innan landhelginnar vegna þess að þessir útlendu togarar hafa orðið fyrri til að taka veiðina. Ég á við, að það mætti beina einum vélbát í þá átt að verja landhelgi Vestmannaeyja. Myndi það nægja til að halda burtu skipum, sem ár eftir ár hafa sótt á þessi mið.

Ég get bent á það, að dragnótaveiðarnar hafa gefið ekki svo lítinn erlendan gjaldeyri í ríkissjóð á undanförnum árum. Af þessum stað er mjög þægilegt að koma nýjum fiski á erlendan markað, og nú er það komið á góðan rekspöl, að bátar þeir, sem þessar víðar stunda, geti komið afurðum sínum á markaðinn. Er því sjálfsagt að stuðla að því, að þetta geti tekizt á sem affarasælastan hátt. Þetta gildir og að sjálfsögðu um aðra báta, er veiði stunda við Vestmannaeyjar með öðrum aðferðum. Þeir bíða samskonar tjón af þessum ágangi erlendra togara. vegna gæzluleysis, t. d. bátar, sem stunda þar veiði með línu, sumir allt haustið. Þessu er hægt að ráða bót á með þeim hætti, sem till. fer fram á. vona ég því, að hv. þingd. samþ. hana.