11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ef hv. 10. landsk. óskar eftir því, að fjhn. taki afstöðu til þessarar brtt. hans, þá er sjálfsagt réttast af honum, eins og hann ráðgerði, að taka till. aftur til 3. umr. Eins og ég áður gat um, þá get ég ekkert sagt um hana á þessum fundi fyrir n. hönd. En án þess að ég ætli nokkuð að ræða brtt., þá vil ég taka það fram, að ég mótmæli því algerlega, sem hv. 10. landsk. sagði, að með atkvgr. þdm. um þessa brtt. ættu þeir að velja á milli þess, hvort þessu fé yrði varið til jarðræktar í sveitunum eða til gatnalagningar og malbikunar í kaupstöðunum. — Ef í þessu frv., sem hér liggur fyrir, væri eitthvert ákvæði um það, að verja fé til malbikunar í kaupstöðum, þá gætu þessi ummæli hv. þm. verið réttmæt. En nú er auðvitað ekkert um það í 7. lið frv., heldur það gagnstæða; þar er einmitt tekið fram, að frestað skuli framkvæmd á greiðslu þess fjár, sem samkv. bifreiðaskattslögunum er ætlað úr ríkissjóði til malbikunar gatna í kaupstöðum. Þess vegna getur þetta alls ekki staðizt, sem hv. þm. sagði, því að það getur vitanlega farið svo, ef frv. verður samþ., að þá verði hægt að verja meiru fé úr ríkissjóði til jarðræktar.

Ég álít, að það sé hyggilegast fyrir hv. flm. að taka till. aftur til 3. umr. og láta atkvgr. um hana bíða.