11.03.1935
Sameinað þing: 4. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (4922)

54. mál, öldubrjótur í Bolungavík

Flm. (Jón Auðunn Jónsson) [óyfirl.]:

Út af því, sem hv. 9. landsk. sagði, vil ég taka það fram, að það er svo, að áætlun getur brugðizt, jafnvel í þessu efni sem öðrum. Það er rétt, að vitamálaskrifstofan taldi, að tryggja mætti mannvirki það, sem hér um ræðir, með 40 þús. kr. árið 1933. Hreppurinn gat ekki lagt allt sitt tillag fram á móti og fékk því 12800 kr. lán til þess í svipinn. Meira var ekki lagt fram af hálfu ríkissjóðs. Ég ætla, að ómögulegt sé, jafnvel fyrir verkfróða menn í þessu efni, að segja um það hvort slík mannvirki eru tryggð gegn alveg óvenjulegum atburðum eins og þeim, sem skeðu síðastl. haust. Ég hygg, að bæði þarna og einnig viðast hvar á Vestur- og Norðurlandi hafi engum manni dottið í hug, að sjórótið yrði jafnmikið og raun varð á. Í Bolungavík hefir alltaf verið talið öruggt að láta skipin standa sjávarmegin við verbúðirnar, og það hefir ekki komið fyrir, að sjór hafi grandað skipunum þar, svo langt sem elztu menn muna. Í haust gekk sjórinn svo langt, að menn urðu að setja mótorbátana bak við húsin, og rann sjórinn inn í allar verbúðir í Bolungavík, sem aldrei hefir áður skeð.

Óvenjulega mikið brim fylgdi, og undir slíkum kringumstæðum hygg ég, að ekki sé hægt að ásaka menn fyrir það, að áætlun standist ekki. því að ég býst varla við því, að nokkurntíma verði unnt að byggja þær hafnir, hvorki á þessum stað né öðrum, þar sem mikil úthafsalda fellur að landi, sem standast undir öllum kringumstæðum. — Viðvíkjandi því, að hv. þm. talaði um, að fyrir hefði legið beiðni um fjárframlag, sem næmi á annað hundr. þús. kr., frá hreppsnefndinni í Hólshreppi, vil ég taka það fram, að það er að vísu rétt, en það var ekki til þess að tryggja mannvirkið eins og það er nú, heldur til þess að framlengja öldubrjótinn, sem jafnframt er byggður þannig, að hafskip gætu legið við hann. Þetta er auðvitað framtíðartakmark hjá íbúum Bolungavíkur. Það kemur einhverntíma að þessu, þótt það verði ekki á næstu árum eða áratugum, svo framarlega sem nokkurra framfara er að vænta á sviði sjávarútvegsins. En það, sem nú kallar að, er að tryggja mannvirkið eins og það nú er. Ég geri alls ekki ráð fyrir, að hreppsnefndin sjái sér fært á næstu 10 árum að leggja fram fé til framlengingar á öldubrjótnum. Það, sem hér liggur fyrir, er að tryggja umrætt mannvirki með endurbótum á þeim stórfelldu skemmdum, sem það varð fyrir á síðastl. hausti. — Hv. þm. mun a. m. k. einu sinni hafa komið til Bolungavíkur og mun því vera kunnugt um, eins og hann reyndar gat um í ræðu sinni, að lífsafkoma manna þar er öll undir því komin, að mannvirki þetta verði tryggt, svo að það verði nothæft. Án þess, er ekkert annað hægt að gera en að flytja fólkið burt úr þessu þorpi, sem er eitt af elztu og fiskisælustu verstöðvum landsins, verstöð, sem hefir svo hagkvæma legu, að íbúar hennar geta hagnýtt sér þá aðstöðu, þegar lítið aflast, sem aðrir geta ekki gert. Þannig hafa þeir bjargazt af verstu tíma, eins og t. d. árin 1922—1924 og oft áður.