04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (4929)

122. mál, þýsk ríkismörk

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég vil fara fram á það við hæstv. forseta, að hann leyfi það, að þessari umr. verði frestað, fyrst og fremst af því, að málið er umfangsmikið og stórt, og ekki hefir ennþá komið fram nál. Í öðru lagi eru sumir þm. farnir burtu, og er óviðkunnanlegt að afgr. svo mikilsvarðandi mál. þegar þm. eiga ekki allir kost á að vera viðstaddir. En ef þm. telja þetta sanngjarnt og ef hæstv. forseti vill verða við þessari ósk minni, að umr. verði ekki haldið áfram um till. fyrr en þing kemur saman aftur, þá skal ég taka það fram, að ég mun vinna að því í samráði við gjaldeyrisnefnd að skipuleggja vöruinnkaupin frá Þýzkalandi, til þess að útflytjendur ísfiskjar til Þýzkalands geti fengið andvirði hans greitt með sem minnstri töf, og geri mér von um. með tilliti til ísfisksútflutningsins í fyrra, að fyrstu tvo útflutningsmánuði ísfiskjarins a. m. k. muni ekki standa á því, að andvirði ísfiskjarins verði notað til greiðslu vöruskulda og vörukaupa. Verður þá þing komið saman og mun ég þá taka til athugunar, hvort nauðsyn muni sérstakra ráðstafana af hálfu Alþingis vegna ísfiskssölu togaranna.