11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (493)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Briem:

Ég mun nota mér ráðleggingu hv. frsm. og láta brtt. bíða til 3. umr. En samt sem áður get ég ekki stillt mig um að víkja nokkrum orðum að hv. andmælendum mínum.

Hv. 4. landsk. sagði, að þessar tekjur ríkissjóðs af bifreiðaskattinum væru hér um bil alveg greiddar úr kaupstöðunum, og ættu þess vegna að ganga til þeirra aftur. Ég hygg að það sé nú allvandasamt að reikna það út, hvaðan tekjurnar eru runnar. Að vísu er bifreiðanotkun meiri í kaupstöðum en sveitum, en bílanotkunin fer sívaxandi í sveitunum og benzíneyðslan er þar mun meiri tiltölulega. Og sveitamenn borga því fyllilega sinn hluta af benzínskattinum, þó að þeir eigi ekki eins marga bíla og hinir, auk þess sem bílarnir skemma fyrir þeim vegina og valda héruðunum á þann hátt miklum kostnaði. En ég vil sérstaklega mótmæla því, sem hv. 4. landsk. sagði um að þessi brtt. mín gæti komið illu til leiðar á milli sveita og kaupstaða. Það liggur alls ekkert í till. í þá átt.

Þá vil ég jafnframt beina nokkrum orðum til hv. frsm. Hann sagði, að í 7. lið frv. væri ekkert ákvæði um fjárframlög til götulagninga og malbikunar í kaupstöðum. Ég held, að það gildi aðeins um þá kaupstaði, þar sem ekkert fé er lagt fram til þess á móti. Falli slík framlög niður, þá á skatturinn að leggjast í sjóð. En ef kaupstaðirnir leggja fram fé á móti til malbikunar, þá á ríkissjóður einnig að greiða sinn hluta af bifreiðaskattinum. Ég held, að þetta sé rétt skilið hjá mér, og sé ekki, að ég hafi gefið tilefni til þeirra orða, sem hv. frsm. mælti um þetta atriði. Ég mun taka þessa brtt. aftur til 3. umr.