04.04.1935
Sameinað þing: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í D-deild Alþingistíðinda. (4931)

122. mál, þýsk ríkismörk

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. vil ég upplýsa það, að þessari till. var, eins og hv. þm. muna, vísað til fjvn., en hún hefir lítið getað athugað hana. Og hér er um töluverðu fjárveitingu að ræða, ef illa tekst til, og þó einkum, ef fleiri færu á eftir. — Það er svo stutt síðan till. kom fyrir n., að hún hefir sama og ekkert getað haft hana til meðferðar. Á fundi n. í dag voru ekki mættir vegna veikinda nema 6 af 9 nm. En okkur kom saman um það öllum sex, að þetta væri ekki nógu undirbúið til þess að taka ákvörðun í málinu. Og þess vegna er málið óafgreitt frá n. til þingsins. Og ég verð að segja það, að það er alveg tilgangslaust að vísa slíku máli til n., kannske einhverju stærsta fjármáli, sem komið hefir fyrir þingið, ef n. á ekki að gefast tækifæri til að athuga það nema einn dag. Við komumst að raun um, að við þyrftum að fá upplýsingar erlendis frá, áður en við gætum um það dæmt. Ég vonast þess vegna til, að þegar nú hæstv. fjmrh. hefir sýnt fram á það með miklum rökum, að málið er hættulegt á margan hátt, þó að það hafi sína miklu kosti, og þegar hann hefir heitið að gera það, sem hægt er, til þess að þetta yrði ekki að árekstri, þá verði afgreiðslu þess frestað, þegar maður líka athugar, að hér er skapað nýtt fordæmi, ef málið er tekið hálfkarað úr höndum fjvn. — Ég treysti því, að hæstv. forseti sjái, að ekki er eðlilegt að halda þessu máli til streitu, þar sem líka nokkrir þm. eru farnir burtu og aðrir ekki viðstaddir nú um miðja nótt.

Ég vil taka það fram, að við reyndum í n. að fá landsbankastjórana á fund í dag, en það hefir ekki unnizt tími til þess. En þeir tjáðu mér persónulega, að það hefði verið farið fram á við bankann um þessa ábyrgð bæði nú og í fyrra, en hann ekki treyst sér til að verða við því. Aftur hafa einstakir nm. vitneskju um það — að þeir halda áreiðanlega vitneskju að t. d. þjóðbankinn danski gangi í ábyrgð fyrir slíkum mörkum þar. Meira höfum við ekki getað gert, en n. þarf að fá upplýsingar um, hvernig tekið er á þessum spursmálum í öðrum löndum, því að það er merkilegur hlutur að taka ábyrgð á gjaldeyri annarar þjóðar.

Ég fer svo ekki lengra út í þetta. En ég vildi skýra vegna n., hvar málið er statt, að það er óafgr. frá okkur vegna vantandi upplýsinga. Ef málinu verður aftur á móti ekki frestað, þá býst ég við, að hér fari fram ýtarlegar umr. um það, því að á því eru margar hliðar. En ég ætla ekki að fara út í það frekar.