11.03.1935
Efri deild: 22. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Ég vissi vel, hvernig þetta frv. hljóðar og þurfti ekki á neinni fræðslu að halda um það frá hv. 10. landsk. Ég sé ekki betur en að með 7. lið frv. sé farið fram á að draga til muna úr þeim fjárframlögum, sem samkv. bifreiðaskattslögunum eru ætluð til malbikunar í kaupstöðum. Þar er alls ekki farið fram á ný fjárframlög til slíkrar malbikunar. Þess vegna er það alveg rétt, sem ég sagði, frv. fer ekki fram á ný fjárframlög, það dregur til muna úr eldri lagafyrirmælum í því efni. Af því leiðir, að atkvgr. um brtt. er ekkert val um það, hvort heldur fénu skuli varið til jarðræktar í sveitum eða malbikunar gatna í kaupstöðum. Með 7. lið frv. er mjög dregið úr gildandi lagafyrirmælum um þessi framlög til malbikunar. Ummæli hv. 10. landsk. eru því hreinasta fjarstæða, að atkvgr. um brtt. eigi að skoðast sem val á milli þess að verja fénu til jarðræktar eða malbikunar.