18.12.1935
Sameinað þing: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (4949)

123. mál, áfengismál

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Borgf. hefir nú gefið hér nokkuð langa skýrslu um það, hvernig ástandið hefir verið í landinu í áfengismálunum síðan áfengislögin gengu í gildi. Hann gaf einnig skýrslu um þetta í útvarpinu fyrir nokkru síðan, og sá ég þá ástæðu til að skrifa upp einstök atriði úr þeirri ræðu hans og leita fyllri upplýsinga út af þeim. Ég skal ekki fara hér út í þá skýrslu, sem hv. þm. flutti í útvarpinu. En hinsvegar mun ég athuga að nokkru það yfirlit, sem hv. þm. gaf hér um málið.

Það fyrsta, sem máli skiptir, þegar verið er að beina ákúrum út af þessu gegn stj., er það, hvort ég hafi gert það, sem Alþingi ætlaðist til og lagði fyrir út af þessum lögum, eða hvort áfengislögunum hafi yfir höfuð verið réttilega framfylgt.

Í fyrsta lagi var ætlazt til þess, að skipaður yrði fulltrúi í áfengismálum, sem kallaður er áfengismálastjóri. Þetta var gert. Það var skipaður í það starf mjög áhugasamur maður, sem mikið hefir unnið að bindindismálum í landinu og stórstúka Íslands hafði bent á. Þessi maður hefir ákveðin laun fyrir störf sín, svo að hann ætti að geta gefið sig óskiptan að þeim. Jafnframt hafa verið, samkv. till. áfengismálastjóra, skipaðar áfengisvarnarnefndir í hverjum einasta hreppi á landinu, eins og Alþ. ætlaðist til, til þess að vinna á móti áfengisbölinu. Ennfremur hefir á þessu ári, eins og hv. þm. gat um, verið gerð alveg sérstök herferð gegn bruggurum og smyglurum í landinu, og fyrir þeirri herferð stóð sá maður, sem bezt hefir reynzt í því á undanförnum árum að hafa upp á bruggurum og útrýma þeim. Þessi maður, Björn Blöndal, hefir verið margar vikur í ferðalögum úti um land í þessum erindum.

Það hafa aldrei verið skiptar skoðanir um það milli mín og hv. þm. Borgf., að Alþingi beri að gera allt, sem það getur, til þess að útrýma áfengisbölinu úr landinu. En við höfum bara ekki verið sammála um leiðirnar til þess að ná því marki. Ég er alveg samþykkur 5. lið í þáltill. hv. flm., um að lagt sé ríkt á við löggæzlumenn ríkisins, að þeir gangi röggsamlega fram í því, að áfengislögunum sé hlýtt. En mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að hv. flm. skuli nú bera fram áminningar um þetta, þegar búið er að skipa duglegan mann fyrir áfengismálastjóra, til þess að gefa stjórnarvöldum landsins upplýsingar um þessi efni og til þess að vinna gegn áfengisnautninni, og auk þess hefir verið skipuð nefnd í hverjum hreppi til að gera hið sama, og í þriðja lagi hefir verið gerð röggsamleg herferð á hendur bruggurunum. En þó ég líti svo á, að hv. flm. hafi engin tilefni til þess að veita stj. áminningar um framkvæmd áfengislaganna, þá er ég honum sammála um, að þessar ráðstafanir sé sjálfsagt að gera.

En reynsla mín sem lögreglustjóri í Reykjavík í 8 ár hefir sannfært mig um það, hvaða tökum sé bezt að taka á þessum málum, og samkv. þeirri reynslu get ég ekki orðið hv. þm. Borgf. samferða lengra en þetta.

Ég hefi þegar slegið því föstu, að ríkisstj. hafi gert allt á þann hátt, sem til var ætlazt samkv. áfengislögunum, til þess að vinna á móti áfengisbölinu. Og, eins og hv. þm. Borgf. tók fram, þá hefir sá löggæzlumaður, sem bezt hefir reynzt í þessu efni, verið sendur í herferð gegn bruggurunum út um land.

Lýsing hv. þm. á því, hvernig ýmiskonar afbrot hafi aukizt, svo sem þjófnaðir og innbrot, síðan áfengislögin gengu í gildi, eins og hann tók fram í skýrslu sinni í útvarpserindinu er, sem betur fer, ekki sönn.

Til þess að gefa hv. Alþingi réttar upplýsingar um það. hvernig áfengislögin hafa reynzt, skal ég leyfa mér að lesa hér upp, samkv. skýrslu lögreglustjórans í Reykjavík, í fyrsta lagi, hversu margir menn hafa verið sektaðir fyrir ölvun á almannafæri, og ennfremur eru talin ýms önnur áfengislagabrot o. fl. í Reykjavík. Gera má ráð fyrir, að skýrslan sé að öllu leyti rétt, þar sem hún er gefin af þeim mönnum, sem séð hafa um löggæzluna í mörg ár og alltaf fylgt sömu reglum, þar eð sömu menn hafa framkvæmt eftirlitið á því tímabili, sem skýrslan nær yfir.

Búizt hafði verið við, að ástandið yrði verst fyrsta árið eftir afnám bannlaganna, eins og í Noregi. En niðurstaðan er sú, að árið 1935 eru talsvert færri sektaðir fyrir ölvun á 10 mánuðum heldur en sum árin þar á undan. Ölvunarbrotin komust hæst 1930. Þá voru þau alls 880. En samanburðurinn á milli ára er að öðru leyti þannig samkv. skýrslunni, sem ég minntist á, með leyfi hæstv. forseta:

Skýrsla

um ölvunarbrot, áfengislagabrot o. fl. í Reykjavík.

1/1—31/10

Brotin 1931 1932 1933 1934 Aths um árið 1935

1935 .

Ölvun ..................... 594 614 518 483 1)546 1) Þar af 45 í janúarmánuði

Ölvun við bifreiðaakstur ... 45 43 36 29 2) 21 2) — — 3 í

Áengissala ................ 27 10 11 15 7 eða hærri þá en hina mánuðina

Brugg ..................... 16 29 43 30 3) 13 3) Þar af 6 í janúarmánuði

Smygl ..................... 31 14 12 26 4) 23 4) — — 3 í

Þjófnaður ................. 76 78 88 83 5) 79 5) — — 6 í -

Tala ölvunarbrota gengur sitt á hvað. Þó er hún langhæst 1930, og árin 1931 og 1932 eru þau allt eins há og þetta ár, sem búizt var við, að yrði verst allra ára. Um árið 1930 er rétt að geta þess, að þá var mannmörg aukalögregla starfandi um nokkurt skeið og umferð í bænum og fólksfjöldi algerð undantekning frá því vanalega vegna alþingishátíðarinnar. Það er eftirtektarvert, að brot fyrir vínbruggun hrapa niður í 13 árið 1935. Undir liðunum brugg og smygl í þessu yfirliti er langoftast einnig um sölu að ræða. þó að það komi hér ekki fram, enda oft ósannað. Þær tölur, sem skýrslan birtir um þjófnaði hér í bænum, hreyfast lítið frá ári til árs, og hafa eigi aukizt á þessu ári. Og þeir stórþjófnaðir, sem áttu sér stað í kirkjunum hér í bænum í fyrra vetur, og hv. þm. Borgf. talaði um sem dæmi þess, hversu stórfelldir og svívirðilegir þjófnaðir hefðu aukizt á þessu ári, þeir voru framdir áður en áfengislögin gengu í gildi.

Þrátt fyrir þetta dettur mér ekki í hug að neita því, að ástandið í áfengismálunum er langt frá því að vera glæsilegt; það er þvert á móti mjög alvarlegt. En það þýðir ekkert að taka það sem mælikvarða á vínnautnina í landinu, hvað selt hafi verið nú á þessu ári í áfengisverzlun ríkisins og hvað selt hafi verið þar áður. Stafar það vitanlega af því, sem öllum má vera kunnugt, að það áfengi, sem áður var selt hér á landi í stærstum stíl, var smyglað áfengi, sem sett var hér upp úr skipum, víðsvegar við Faxaflóa og Breiðafjörð, og jafnvel á Norðurlandi, og síðan flutt með bílum hingað til bæjarins. Og fólk hirti Whisky-flöskurnar, sem það fann á við og dreif, og notaði þær undir kaffi. Alveg hið sama má segja um bruggarana. Það má geta því nærri, að þegar teknir hafa verið 40—50 bruggarar á einu ári, þá er það ekkert smáræði, sem þeir hafa getað framleitt og selt af áfengi áður en þeir voru teknir. Það verður aldrei mælt eða talið í tölum, hvað bruggarar og smyglarar hafa selt hér af áfengi árlega að undanförnu. Allur samanburður á vinsölu áfengisverzlunarinnar nú við það, sem áður hefir verið selt hér af áfengi, er því algerlega út í bláinn. vegna þess, að það veit enginn um, hvað áður hefir verið selt hér af brugguðu og smygluðu áfengi. Það átti sér meira að segja stað — og komst upp ári síðar —, að það komu upp heil skip, heilir togarar hingað til lands beinlínis til þess að smygla áfengi. Þau héldu sig á höfnum og í nágrenni og hlóðu sig af fiski aftur, sem þau svo fóru með til útlanda. Nei, það eina, sem við höfum til þess að miða við í þessu efni, eru skýrslur þær frá lögreglunni í Rvík, sem liggja fyrir um afbrot í þessum sökum, og þær eru eins og ég hefi þegar bent á.

Þegar verið er að tala um að koma í veg fyrir meiri áfengisnautn með till. eins og þeim, sem hér liggja fyrir frá hv. þm. Borgf., þá verð ég að segja það, að ég hefi ekki mikla trú á því, að það geti tekizt, og skal ég færa að því nokkur rök.

Ég hefi sagt, eins og ég tók fram í umr. um áfengismálið í fyrra, að það væri ekki hægt að vinna á móti áfengisbölinu í þessu landi frekar en annarsstaðar á annan hátt en að upplýsa fólkið um það, hvílíkt böl áfengisnautnin er. Aðrar þjóðir hafa orðið að beygja sig fyrir þessu, og við verðum að gera það sama. En ég er á sama máli og hv. þm. Borgf., að gera allt í þessu máli á því sviði, sem í valdi ríkisstj. er að gera.

Ég skal þá minnast á þessar till. og reyna að eyða sem stytztum tíma í þær.

Fyrsti liðurinn er um það, að sjá um, að í áfengisútsölu ríkisins sé ekki selt vín nema þrjá daga vikunnar, og aldrei lengur en 4 tíma á dag.

Ef þetta ákvæði yrði samþ., þá er ég sannfærður um, að það yrði enginn ávinningur að því, vegna þess, að ef þessi till. yrði samþ., þá mundu áfengissalarnir birgja sig upp af áfengi eins og þeir gerðu meðan takmörkunin var ennþá meiri, og selja áfengi með hækkuðu verð: þá daga, sem áfengisverzlunin væri lokuð. Þetta er staðreynd, sem þýðir maður, sem mest hefir barizt gegn áfengissmyglun, sagði þegar búið var að samþ. að loka áfengisútsölum kl. 4 á laugardögum, að eini stórgallinn, sem hann sæi. væri, að það ætti að loka svona snemma á laugardögum, vegna þess að það væri vatn á myllu áfengissalanna. Og hann kom beinlínis til mín til þess að fá þessu breytt. En hvílíkt himnaríki yrði það ekki fyrir áfengissalana í þessum bæ, ef áfengsverzluninni yrði lokað annanhvern dag.

Önnur till er um það að ákveða það í reglugerð, að veitingahús megi ekki selja vín nema með mat, og ekki nema 3 tíma og aldrei eftir kl. 9 kvöldin.

Ég held, að menn séu yfirleitt á sama máli um það síðan þessu var breytt — því að þannig var það — þá hafi a. m. k. batnað ástandið á veitingahúsinu, sem hér er um að ræða. Því að reynslan var sú, að þegar menn fengu vín með mat frá kl. 7 til 19 á kvöldin, þá hvolfdu þeir því í sig í einu á seinustu mínútunum og urðu vanalega svo augafullir, að þeir urðu ósjálfbjarga það sem eftir var kvöldsins. Reynslan hefir orðið sú, síðan þessu var breytt, að betur hefir verið farið með vín á þessu veitingahúsi heldur en gert var áður. það yrði því tvímælalaust stórt spor aftur á bak í áfengismálunum, ef takmarka ætti svona vínveitingatímann á veitingahúsunum, og eins ef ætti að loka áfengisútsölum annanhvern dag.

Það má gjarnan minnast á í þessu sambandi, að ég hefi spurzt ýtarlega fyrir um það, hvernig það hafi verið á stúdentaballinu 1. desember. því að 1. desember og gamlárskvöld hefir þótt talsvert bera á því, að mikið væri drukkið. En það ber öllum saman um að ástandið hafi verið betra nú 1. desember heldur en áður en áfengislögunum var breytt. Afleiðingin yrði engin önnur en sú, ef lokað yrði kl. 9, að það kæmist sama lagið á og áður, að hver einasti maður, og jafnvel konur líka, fá sér vín og hella því á pela og hafa það í rassvasanum (Hlátur,) og drekka það svo á laun allt kvöldið. Menn brosa að því, að konur hafi rassvasa, en það sýndi sig áður meðan lokað var kl. 9, að sumar konur höfðu í vasa á pilsinu og smeygðu pelanum þar niður. Það er þetta rassvasafyrirkomulag, sem hv. þm vill innleiða. (PO: Er hæstv. ráðh. búinn að sauma fyrir þær?). Ég sé ekki ástæðu til að svara svona orðalagði, af því að ég er ekkert sérstaklega orðljótur, og held ég, að sæmra væri fyrir hv. þm. að halda sér saman en að viðhafa slík orð.

Um 3. lið till., sem fjallar um vínveitingaleyfi í veizlum og á dansskemmtunum, gilda sömu rök og um annan liðinn. Sama reynslan á undanförnum árum, sú reynsla, að menn birgja sig upp af víni og hafa það með sér og drekka það einmitt á þeim stöðum, þar sem er miklu lakara að menn fari með vín heldur en á almannafæri.

Þá minntist þessi hv. þm. á, að það væri eðlilegt að leggja hömlur á gjaldeyri til þess að kaupa áfengi fyrir. (Og hann álítur það. Þessi hv. þm., að það út af fyrir sig mundi verða til stórframdráttar fyrir þetta mál að loka fyrir gjaldeyrinn og á þann hátt í raun og veru að innleiða að nokkru leyti aftur bann á áfengi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að það væri mjög ákjósanlegt að geta neitað um gjaldeyri, sem þarf til þess að flytja áfengið inn í landið. Ég er sammála hv. þm. um það. En ég er jafnviss um hitt, að þegar verður stöðvaður verulega innflutningur á áfengi inn í þetta land. Þá kemur það sama upp á teningunum og áður, að eftirspurninni verður fullnægt með smygluðu og brugguðu áfengi.

Það er í raun og veru einkennilegt — og ég bið hv. þm. að taka vel eftir þeim rökum. — að hv. þm. Borgf. skuli jafnhliða og hann kemur fram með þessa till. um að hefta innflutning á áfengi með því að halda í gjaldeyrinn, sem en álít rétt að gera eins og mögulegt er, koma með þau rök í málinu, að ef áfengi væri hækkað í verði, mundi það þýðingarlaust. En vegna hvers? vegna þess — til þess að nota hans eigin orð —, að því dýrara sem áfengið er í landinu, þeim mun betri aðstaða fyrir smyglarana og bruggarana. Ef hækkað verð á áfengi verður vatn á myllu bruggaranna og smyglaranna —, hvað þá, ef bannaður er innflutningur á áfengi með öllu og neitað að selja það, hvað sem í boði er? Nei, hv. þm. kom þarna í sambandi við verðlækkun á áfengi einmitt með þau rök, sem gilda ekki nema að nokkru leyti um verðhækkun, en gildu til hins ýtrasta, ef á að stöðva innflutning á áfengi með öllu. Þar höfum við reynsluna frá undanförnum árum.

Það er spurt um, hve mikið fé fari til innkaupa á áfengi. Ég hefi því miður ekki skýrslur um það við hendina, en það er óhætt að fullyrða, að sí gjaldeyrir, sem fer fyrir áfengi, er svo lítill, að menn trúa því varla. T. d. fyrir það brennivin, sem selt er hér, mun fura gjaldeyrir, sem nemur um 1 15 til 1 16 af útsöluverði þess.

Ég hefi þá farið í gegnum þá liði, sem hv. þm. minntist á í þáltill sinni, og um einstaka liði byrjaði ég í raun og veru að ræða, t. d. að leggja ríkt á við lögreglumenn ríkisins að hafa eftirlit með, að áfengislögunum sé hlýtt. Ég er sammála hv. þm. um það, að það ber að gera allt, sem í valdi ríkisstj. stendur, til þess að halda fast að löggæzlumönnum ríkisins um að gera allt, sem þeim er mögulegt, til þess að sporna á móti því, að áfengislögin séu brotin, og gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að áfengisnautn minnki.

Ég hefi nú sýnt fram á, og þarf ekki að endurtaka neitt af því, að þetta er einmitt það, sem ríkisstj. hefir gert, eins og hv. þm. Borgf. sá sérstaka ástæðu til þess að minnast á í sambandi við löggæzlumanninn, sem sendur er út um land til þess að útrýma smygli og bruggun. Það er einmitt þessi leið, sem hefir verið farin í áfengismálunum. Það hefir verið skipaður mjög hæfur maður til þess að vera ráðunautur ríkisstj. í þessum efnum, og hefir hann valið sér til aðstoðar þrjá menn úr hverjum hreppi til þess að vinna að þessum málum. Jafnframt hefir hann stofnað fræðsluhringa, þar sem unnið er að því að leiða mönnum fyrir sjónir, hvílíkt böl áfengisnautnin er. Það er sannfæring mín, að einmitt á þennan hátt einan sé hægt að útrýma áfengisbölinu í landinu. Það er gleðilegur Vottur þess, sem ég er sannfærður um, að er miklu meira virði heldur en menn almennt taka eftir, að mikið af þeirri æsku, sem er að vaxa upp í landinu, er þeirrar skoðunar, að áfengisnautnin sé böl. Það er ekki heldur hægt að neita því, að mikill hluti íslenzkrar æsku er ákveðnari nú en nokkru sinni áður að berjast á móti áfengisbölinu, og það hafa verið stofnuð samtök í skólum landsins til þess að vinna á móti áfengisbölinu. Íþróttahreyfingin er mikið að eflast í þessu landi, eins og allir, sem í þessum bæ búa, hljóta að hafa tekið eftir. Er það líka stórt spor í sömu átt. Bezta vörnin gegn áfengisbölinu er, að fólk lifi heilbrigðu lífi og stundi útiveru. Það er á þennan hátt, sem ég vil taka höndum saman við hv. þm. Borgf. til þess að vinna á móti áfengisbölinu. Það skal ekki standa á mér sem dómsmrh. að gera það, sem í valdi ríkisstj. stendur, til þess að vinna á móti áfengisbölinu á þennan hátt. En að setja þessar reglugerðir, sem við erum margbúnir að reyna, að koma ekki að gagni, það er alveg þýðingarlaust. Það eina, sem hægt er að gera í þessu efni, er að láta lækninguna koma innan að frá fólkinu sjálfu.