18.12.1935
Sameinað þing: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í D-deild Alþingistíðinda. (4950)

123. mál, áfengismál

Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Mig langar til að leggja nokkur orð í belg, þegar rætt er um þetta mál. Það er ekki svo að skilja, að ég búist við að koma með neitt nýtt eða það, sem menn hafa ekki heyrt áður, reynt eða séð.

Maður er búinn að hlusta á skýrslur, sem áttu að sanna það, að áfengisnautnin hafi ekki vaxið, heldur jafnvel minnkað við komu sterku drykkjanna inn í landið. Ég skal ekki bera brigður á, að þessar skýrslur séu réttar. En sú skýrsla, sem skýrust stendur mér fyrir hugarsjónum, er skýrsla hins daglega lífs. Það er sú reynsla, sem ég fæ að sjá svo að segja daglega, eða mjög oft, í þeim verkahring, sem ég hefi á hendi, og ég verð að segja, að samanborið við það, sem var áður en sterku vínin komu hingað til landsins, þá hefir ástandið á þeim svæðum, sem ég sérstaklega tala um, versnað til mikilla muna. Ég hefði haft tilhneigingu til þess að færa nokkur dæmi máli mínu til sönnunar, en ég veit ekki, hvort það á við, og ég veit ekki heldur, hvort hv. þm. endast til þess að sitja öllu lengur undir umr., — klukkan er nú að verða i, og ætla ég því að stikla á stóru.

Það hefir amerískur prófessor einn og bindindismaður sagt: Drykkjuskapurinn er verri en hin voðalegasta styrjöld. Og vel metinn læknir, dr. Rush, sagði: „Sú þjóð, sem saurguð er af áfengum drykkjum, getur eigi haldið áfram að vera sjálfstæð og frjáls þjóð.“ Ég er viss um, að enginn mótmælir slíkum orðum og að það er heldur enginn hér inni, sem mundi vilja bera brigður á það, sem hann horfir sjálfur á dags daglega.

Það er því miður, í skemmstu máli sagt, eftir því sem ég hefi komizt næst, þá stynja heimilin, mörg heimili bæði hér og annarsstaðar, undan byrðum áfengisbölsins. Konurnar koma til mín í hópatali og hvísla að mér raunasögum sínum, og öllum ber þeim saman um, að það hafi einmitt versnað fyrir alvöru, áfengisbölið, eftir að sterku drykkirnir komu aftur inn í landið. Ég skal ekki leggja dóm á það, hvort sú ályktun þeirra er rétt, en þegar ég virði fyrir mér konurnar sjálfar og geng inn á heimili þeirra og sé skortinn, sem þar hefir haldið innreið sína, efast ég ekki um, að þær hafa ástæðu til að kvarta og að böl þeirra er sárara en tárum taki. Orsökina rekja þær til áfengisverzlunarinnar, þar sem „svarti dauðinn“ fæst, og er jafnlöglegur og réttmætur varningur eins og hvaða nauðsynjavara, sem vera skal. Það eru annars ömurlegar andstæður í þessu öllu saman. Annarsvegar er verið að byrla mönnum þessa drykki, en hinsvegar er verið að gera allskonar varúðarreglur, sem miða að því að forða mönnum frá vörutegund, sem boðin er fram af ríkisvaldinu sjálfu.

Þáltill. hv. þm. Borgf. ber það fyrst og fremst með sér, sem allir vita, að þessi hv. þm. hefir manna mestan áhuga fyrir bindindismálinu. Hann hefir sjálfur mjög greinilega rætt þessar till., rakið þær til mergjar og fært fyrir þeim skýr rök. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem hann sagði. En í sambandi við þessar tvær fyrri till., um að það þurfi að takmarka vínsöluna við styttri tíma á dag og fækka vínsöludögunum, þá vil ég segja það, að því meira, sem þetta yrði gert, því frekar þarf að hafa vakandi auga á þeirri verzlun, sem vitað er, að fer fram hér í bænum, sem sé leynisölunni. Þetta þarf að haldast í hendur. Það er satt, sem hæstv. forsrh. sagði áðan um þá hættu, sem stafaði af leynisölunni. Það er hægurinn hjá að aka vini í bílum um göturnar, fela það og selja svo þegar kvöldar, þegar vínverzluninni er lokað. Þetta er gert, og það í allstórum stíl. Þær eru ekki svo fáar drykkjumannakonurnar, sem hafa rekið sig á leynisalana og bölvunina, sem „atvinna“ þeirra veldur. Hér er atriði, sem þarf að athuga gaumgæfilega.

Það virðist ekki til of mikils mælzt fyrir hönd þjóðarinnar, þó að þess sé beiðzt, að gjaldeyrir landsmanna yrði heldur notaður fyrir nauðsynjar heldur en fyrir sterka drykki, brennivín, whisky og þess háttar, því að allir vita, hvaða afleiðingar notkun slíkra drykkja hefir. En reynslan hefir sýnt, að nauðsynjavörur eru látnar sitja á hakanum fyrir áfenginu. Þetta er hörmulegt ástand. Víðsvegar úti um land er sagt að sé allmikill vöruskortur, að fólginn sé skammtað úr hnefa nauðsynjar eins og t. d. hveiti, sykur og sitthvað fleira, en það talar enginn um, að hörgull sé á víni. Það er alstaðar nóg til af því.

Þá kem ég að þriðju till., sem ég vil sérstaklega undirstrika í sambandi við skemmtanir, sem orð fer af, að fari illa fram og ósæmilega sökum vinnautnar. Ég er ekki á móti því, að fólkið skemmti sér og geri sér glaðan dag, en ég tel það raunalegt, ef ungt fólk getur ekki glatt sig í sinn hóp, nema með því að hafa vín um hönd og verða sér til minnkunar. Það væri vel, ef úr þessu drægi, eins og mér heyrðist á ræðu hæstv. forsrh., svo að það hefði t. d. verið eitthvað skárra 1. desember„ballið“ í ár heldur en endranær. Ég veit það ekki, en nýársfagnaðurinn er eftir, og það mætti hafa einhvern við hendina til þess að gefa mönnum upplýsingar um, hvernig hann færi fram, en ekki er ég trúuð á að það sé góðs að vænta, ef Bakkus verður dýrkaður þar jafnrækilega og áður. Það væri óskandi, að bindindisstarfsemin í landinu yrði sem mest efld, og mér þótti vænt um að heyra, að hæstv. forsrh. fór um það þeim orðum, að það mundi ekki á honum standa að styrkja þá starfsemi. Það er hvöt fyrir þá, sem lægra eru settir í þjóðfélaginu, að liggja ekki á liði sínu, þegar þeir vita, að forráðamennirnir, sem mest eiga undir sér, ganga á undan með góðu eftirdæmi, hvetja en ekki letja til slíkrar starfsemi. En það má halda vel áfram á því sviði, ef að gagni á að verða, og það því fremur er kvenfólkið er farið að verða ískyggilega „mikið með“, — farið að drekka. Af því fer nú orðið talsvert orð, og því miður of mikið satt af því, sem þar er sagt. Ég þarf tæplega að lýsa því, hvernig ástatt er á því heimili, þar sem konan leggst í drykkjuskap, en það hefir hríðversnað hér í bæ síðan sterku vínin komu. Byrjaði með Spánarvínunum, sællar minningar, og ein syndin býður annari heim. Ég þekki ýms raunaleg dæmi, sem mætti nefna í þessu sambandi, en ég hirði ekki um að tilgreina þau. Ég veit aðeins, að ástandið hefir versnað síðan sterku drykkirnir komu; svo mikið er víst, hvað sem skýrslurnar segja. Skýrslurnar herma ekki skipbrot hvers einstaklings. Hér er alvörumál, sem krefst úrlausnar. Ég tala ekki um það fyrst og fremst í minn eigin nafni. heldur í umboði og í nafni þeirra sem líða og þjást daga og nætur út af því mikla böli, sem áfengisnautnin hefir í för með sér. komið þið með mér, hv. þm., einhverja kvöldstund inn á heimili, sem ofdrykkjan hefir lagt í rústir. Þar blasir við oss eymd og áþján, sem orð fá ekki lýst. Er það ekki ömurlegt, að með löggjöf landsins sé þeirri eymd haldið við? Ég hygg þá drengi vera innan þessara veggja, að þeir hrærðust til meðaumkunar, ef þeir sæju slíka hluti, sem ég hefi oftlega séð á heimilum þeirra, sem mest kaupa af áfenginu hér í bænum, mestu eyða frá heimilum sínum í óreglu og svall. Og þegar svo konan, húsmóðirin, lætur leiðast út í sama fenið, já, — hvernig er umhorfs á því heimili? Húsmóðirin lifir venjulega fyrst og fremst fyrir heimili sitt og ver börnin sín fyrir hverskonar voða á meðan hún getur, en þegar hún sjálf er hnigin fyrir freistingunni, þá er öll vörn úti. Lítill drengur var eitt sinn spurður, hvað bindindi væri. Hvað haldið þið að hann hafi sagt? Bindindi er brauð og smjör. Það var brosað að þessu svari, en barnið sagði: Jú, þegar pabbi drekkur ekki, fæ ég bæði brauð og smjör, en þegar hann drekkur, fæ ég hvorugt. — Það er mikill sannleikur í þessu svari, eins og oft er í svörum barna. Ég vona, að hvaða skoðanir sem við, sem hér erum inni, höfum í stjórnmálum, þá getum við verið á einu máli um það, að áfengisnautnin sé böl, sem þarf að útrýma, hvað sem öðru liður. Sumir segja, að áfengið færi svo mikla peninga í ríkissjóðinn og hann megi ekki missa það fé. En hvaða varningur er það, sem við fáum í staðinn? Við fáum margfaldlega aukið ómagaframfæri, heilsubilun, siðspillingu hverskonar og kynspillingu, aukna þörf fyrir löggæzlu og margt fleira, sem beinlínis kostar stórfé, auk hinna örlagaþrungnu siðferðislegu afleiðinga, sem ekki verða með tölum taldar. Þess vegna er það mín skoðun, að okkur beri að samþ. allt, sem miðar í þá átt að sporna við eiturnautn áfengisins. Ég mun því hiklaust greiða þáltill. hv. þm. Borgf. atkv. mitt, svo sem heiðarlegri og gagnlegri tilraun í þá átt að stemma stigu fyrir eymd, spilling og niðurlægingu, sem þjóð vorri er búin af völdum hinnar síauknu áengisnautnar.