18.12.1935
Sameinað þing: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í D-deild Alþingistíðinda. (4951)

123. mál, áfengismál

Flm,. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. segir, að hann hafi gert allt í þessu máli, sem fyrir hann hafi verið lagt af Alþingi. Ég skal ekkert um það segja, er hæstv. ráðh. taldi upp viðvíkjandi lögregluframkvæmdum á þessu sviði. Ég er ekkert að átelja hann fyrir, að hann hafi ekki gert skyldu sína í þessu efni, að því leyti sem stjórn lögreglunnar kemur til hans kasta. En hann hefir vanrækt allt annað, sem ég álít skyldu hans sem ráðh. að gera í þessu máli. sérstaklega þar sem hann hefir á valdi sinn veitingaleyfi veitingahúsa og vínveitingar í samkvæmum, og að því leyti, sem hann kann að vera samsekur hæstv. fjmrh. í að veita takmarkalausan gjaldeyri til þess að kaupa inn vín. Við vitum vel, að þegar afnám bannsins var samþ. hér á Alþingi, þá bjuggust þeir menn, sem að því stóðu, alls ekki við, að það hefði þær afleiðingar, sem raun hefir orðið á, og því var skylda hæstv. ráðh., þegar hann sá framan í þessar afleiðingar, að taka þær rækilega í taumana, að því leyti sem hann hafði aðstöðu til. Hann getur náttúrlega skotið skuldinni á takmarkalausum innflutningi vína yfir á hæstv. fjmrh., af því gjaldeyrismálin heyra sérstaklega undir hann, en þar sem hæstv. forsrh. er yfirmaður þessara mála í heild, hefði hann vitanlega getað gert sig gildandi í þessu efni. (Og þar sem hæstv. ráðh. gerði tilraun til að bera af sér þá ásökun, sem ég tel, að við bindindismenn höfum á hann, að hann hafi ekki gert það, sem í hans valdi stóð til þess að draga úr afleiðingunum af afnámi bannsins, þá ætla ég að fara nokkrum orðum um það atriði í ræðu hans.

Hæstv. forsrh. sagði, að hér hefði verið settur áfengismálaráðunautur, sem rétt er, og hann hefði þá aðstöðu og væri þannig launaður, að hann gæti offrað öllum sínum kröftum fyrir bindindisstarfsemina. Hvernig er nú búið að þessum manni af hálfu Alþingis? Honum eru ætlaðar einar 3000 kr. til sinnar starfsemi á fjárl. Þetta er allt það fé, sem Alþingi ætlar honum til starfs síns, og mér virtist hæstv. forsrh. líta svo á, að með þeim launum ætti þessi maður að geta helgað bindindismálunum alla krafta sína. En það er síður en svo. Sökum þess hvað hann er vanhaldinn af þessum launum, getur hann vitanlega ekki látið nema brot af starfskröftum sínum af mörkum fyrir málefnið. Hvað snertir nefndirnar úti um land, þá má e. t. v. vænta einhvers gagns af þeim, en það er lítið komið fram frá þeim ennþá, m. a. af því þær eru nýlega skipaðar og hafa svo að segja ekkert starfað á þessu ári, þar sem þær hafa aðeins verið til á pappírnum.

Ég skal ennfremur benda á dæmi um það, hvernig hæstv. ráðh. býr að áfengismálaráðunautnum að því leyti, sem hann ræður yfir blaðakosti síns flokks. Það var fyrir nokkru gerð árás á bindindisstarfsemi þessa lands í blaði hæstv. ráðh. og hún borin rógi. Áfengismálaráðunauturinn skrifaði svar við rógi þessum, en blaðið neitaði að birta svar þessa manns, sem skipaður er til þess að vera annar aðalmaður yfir þessum málum í landinu: hinn er vitanlegu forsrh. sjálfur, sem hefir flesta þræði þessara mála í sinni hendi. Þannig er þá búið að þessum áfengismálaráðunaut, þessum oddvita allra bindindismanna í landinu; hann fær ekki að koma að grein í blaði hæstv. ráðh. til þess að hnekkja rógi, sem þar hafði verið gegn bindindisstarfseminni áður fyrr. Það væri gott, ef hæstv. ráðh. leggur eins mikið upp úr starfi þessa manns eins og á honum var að heyra, að hann hnekkti slíkri framkomu gagnvart honum framvegis, þar sem hans áhrif ná til.

Það, sem ég sagði um ástandið eftir að sterku vínunum var hleypt inn í landið, hafði ég eftir lögreglunni hér í Reykjavík. Hún tjáði mér, að í febrúar hefði meira en tvöfaldazt tala, þeirra manna, sem voru kærðir og settir í steininn fyrir áfengislagabrot. Hæstv. forsrh. kemur nú með skýrslu um þetta efni. Sýnir það vel, á hvað veikum ís hann stendur í þessu máli, að hann freistar þess að gera nokkurn samanburð á árinu 1930 og svo aftur árinu 1935. Hvað tímalengdina snertir, þá er þessi samanburður rangur að því leyti, að árið 1930 nær hann til alls ársins, en ekki nema til 10 mánaða árið 1935. Auk þess er annað við þennan samanburð að athuga, og það er, að árið 1930 var alþingishátíðin; þá safnaðist fólk hér saman af öllu landinu, svo tugum þúsunda skipti, og undir slíkum kringumstæðum er vitanlega meira seilzt eftir að ná í slíka hluti, sem hér er um að ræða, auk þess sem þá var meira gengið eftir að haldið væri uppi eftirliti heldur en nokkru sinni fyrr eða síðar, með tilliti til hinna erlendu gesta. Að þessu tvennu leyti er samanburður hæstv. ráðh. villandi, og sýnir það greinilega, á hvað ótraustum grundvelli hann stendur, er hann vill hnekkja rökum mínum um ástandið fyrir og eftir afnám bannsins, að hann tekur sérstaklega árið 1930 til samanburðar í þessu efni.

Enn á ég ótalið eitt atriði, sem lögreglan hér í bænum gaf mér upplýsingar um, og það er, að nú eftir að sala sterku, drykkjanna fór að hafa áhrif, hefir ekki verið gengið líkt því eins ríkt eftir því eins og áður að draga í steininn þá, sem ölvaðir hafa verið á almannafæri, m. a. af því, að ekki hefir verið pláss fyrir þá alla í steininum. Sú regla hefir verið tekin upp, að reyna að bjarga þessum mönnum sem oftast heim til sín, til þess að tryggja það, að pláss væri í steininum fyrir þá, sem hvergi eiga samastað eða eru í því ástandi, að ekki þykir forsvaranlegt að leiða þá heim; svo miklu fleiri ölvaða menn hefir þurft að færa af almannafæri heldur en áður. Þetta kemur líka til greina. þegar verið er að bera saman tölu þeirra, sem settir eru inn fyrir ölvun nú og áður en sala sterku drykkjanna hófst. Ég vildi koma fram með þetta af því, að það tekur eiginlega af þann glans, sem hæstv. ráðh. virtist vilja setja á það, að áststandið væri ekkert verra en áður, þó hann raunar í öðru orðinu viðurkenndi, að ég hefði rétt fyrir mér í því, að ástandið á þessu sviði væri hér allillt.

Ég ætla, að ég hafi þá með þessu hrakið það, sem hæstv. forsrh. hélt fram um lýsingar mínar á þessu efni, bæði í útvarpinu og hér á þingi, að þær hefðu ekki verið sannleikanum samkvæmar. Þegar þetta er allt lesið niður í kjölinn og öll atriði, sem máli skipta í þessu sambandi, tekin til athugunar, þá kemur í ljós, að ég hefi eigi tekið of djúpt í árinni.

Viðvíkjandi brugginu gerði hæstv. ráðh. líka nokkurskonar samanburð á ástandinu á þessu ári og áður; komst hann að þeirri niðurstöðu, að það hefði minna verið bruggað heldur en áður. Það má vel vera, að þarna komi fram einhver munur, en e. t. v. á hann rót sína að rekja til þess, að bruggararnir hafi haldið í byrjun, að nú stæðu þeir verr að vígi með sölu sína eftir komu sterku drykkjanna inn í landið. Auk þess er víst, að trú margra á það, að sala sterku drykkjanna mundi kveða bruggið niður, hefir leitt til þess, að minna hefir verið sótt á að koma upp slíkri starfsemi í fyrstu heldur en gert hefir verið á síðari hluta þessa árs, eftir að reynslan hefir eyðilagt mannir manna um það, að sterku drykkirnir kveði bruggið niður. Þetta er a. m. k. atriði, sem vert er að athuga, þegar reynt er að fegra ástandið, sem við búum nú við, með samanburði við það ástand, sem áður var í þessu efni.

Mér þykir gott að sjá hér framan í hæstv. atvmrh., því ég vona, að hann geti orðið nokkurt keyri á hæstv. ríkisstj. í þessu efni, a. m. k. miðað við þá afstöðu, sem hann hafði til áfengismálanna áður fyrr, og kem ég e. t. v. að því síðar í minni ræðu.

Um smyglið, sem hæstv. ráðh. sagði, að hefði verið svo ógurlegt áður fyrr, er það að segja, að það var náttúrlega ógurlegt. Hann sagði, að það hefði verið smyglað áfengi í land hér við Faxaflóa og flutt hingað. Það hefði verið smyglað í land vestur á Breiðafirði og það hefði verið flutt áfengi norðan úr landi jafnvel. Hann sagði, að það hefðu komið heilir skipsfarmar af smygluðu áfengi hingað upp. Það er rétt, að í tvö skipti var gerð tilraun til að senda hingað sérstök skip til þess að selja áfengi, en í bæði skiptin tókst að koma því upp og gera skipin og farm þeirra upptæk. En hvernig er þetta nú? Ég hefi sagnir af því víðsvegar að af landinu, að ekki muni vera lítið um slíkan innflutning vína. Mér er t. d. sagt frá Austfjörðum, að ekki muni vera lítið um smyglun þangað, og víða annarsstaðar mun svipað ástatt. Þó það haldi e. t. v. áfram að vera meiri erfiðleikar á að koma smygluðum vínum í land hér í Reykjavík heldur en annarstaðar, þá hefir ekkert verið gert til þess að hefta það, að bílar geti flutt áfengi til Reykjavíkur og annara staða, þar sem markað er að fá fyrir það. Því er áreiðanlegt, að smyglið heldur áfram. Það kann að vera, að úr því hafi dregið eitthvað í bili, meðan menn voru að átta sig á hinum breyttu kringumstæðum og komast að raun um, hvað góð skilyrði eru til, að slík starfsemi geti haldið áfram.

Hæstv. ráðh. sagði ennfremur, að það, þó sala vína hefði aukizt, væri enginn mælikvarði á vínnautnina í landinu, þar sem svo mikið hefði verið bruggað og smyglað áður. En þegar maður athugar þessa geysilegu aukningu á vínsölunni samhliða því, að bruggið og smyglunin heldur áfram, og ber þetta saman við ástandið, sem áður var, þá hygg ég það órækan vott þess, að margfalt meira áfengi renni ofan á landsfólkið nú heldur en áður en sterku vínin komu á markaðinn. Það hefir verið talað um vaxandi vínnautn hér í Reykjavík og öðrum kaupstöðum, en hún hefir einnig sýnt sig úti um sveitir landsins. M. a. varð á einum stað að fresta réttum til næsta dags sökum ölvunar, og þeir menn, sem áttu að reka féð úr réttum, komu því ekki til skila af því þeir voru miður sín af ölvun. Náttúrlega er drykkjuskapurinn mest áberandi í kaupstöðunum, m. a. vegna þess, hvað fólkið er þar margt, en afleiðingarnar af afnámi bannsins birtast nú einnig víðar og víðar úti um landsbyggðina. Hann verður þó ekkert vopn í höndum hæstv. ráðh., þessi samanburður, sem hann gerði til þess að draga úr því, sem ég hafði sagt um viðhorf áfengismálanna hér á landi nú. Það léttir ekki ábyrgðina, sem á hæstv. ráðh. hvílir fyrir það að ganga ekki röggsamlegar til verks heldur en hann hefir gert, þó hann reyni að slá ryki í augu manna, svo ástandið sýnist skárra heldur en það í raun og veru er. Það er svo, að enginn einstakur maður hefir kunnugleika til að skyggnast svo inn í alla króka og kima, að hann geti gefið tæmandi mynd af ástandinu, sem hið nýja viðhorf í áfengismálunum hefir skapað í landinu.

Þá vék hæstv. ráðh. að till. mínum og lagði á móti þeim öllum, að undantekinni hinni síðustu, sem gengur í þá átt, að ástæða væri til að brýna fyrir stj. að skerpa eftirlitið eða ganga ríkara eftir ströngu eftirliti við löggæzlumenn landsins. Ég hefi nú ekki deilt á hæstv. ráðh. út af þessu atriði sérstaklega, en það hafa komið hér fram upplýsingar í þessu máli, ég ætla frá þeim hv. landsk., sem síðast talaði, sem benda fyllilega til þess, að hér þyrfti einnig að ganga röggsamlegar til verks heldur en gert hefir verið. Hæstv. ráðh. sagði, að eina afleiðingin af 1. lið till. minnar mundi verða sú, að hér mundi skapast gróðavænleg atvinna handa ýmsum af launsölu víns. Hv. 5. landsk. upplýsti nú, að þrátt fyrir allar þessar opnu gáttir víneinkasölunnar, þá væri selt mikið af vínum utan vínbúðanna. Þetta bendir til þess, að hæstv. ráðh. og þeir menn, sem stjórna lögreglunni hér í Reykjavík, þurfi að ganga nokkuð ríkar eftir um eftirlit með slíku, þó ég viðurkenni vitanlega fullkomlega, að þar sé um töluvert mikla erfiðleika að ræða.

Mér skildist mega draga þá ályktun út af þeirri afstöðu, sem hæstv. ráðh. tók til till. minnar að því er snertir veitingaleyfi á veitingahúsum og samkvæmum, að helzta lækningin í því efni væri að láta vínbúðir ríkisins standa opnar allan sólarhringinn; takmarka ekki neitt þessa hluti, heldur láta sér ekki nægja útsölutímann, sem nú er, og bæta nóttinni við. Ef það er skoðun hæstv. ráðh., að ástandið verði því betra í veitingahúsunum, sem lengur er leyft að selja vínin, þá vitanlega leiðir af því, að það er skoðun hans, að það bæti líka ástandið yfirleitt að halda vínbúðunum opnum helzt allan sólarhringinn. Í þessu efni er það djúp staðfest milli skoðana okkar hæstv. ráðh., sem ég býst við, að gangi illa að brúa. Hvaða ráðs var gripið til í Vestmannaeyjum um lokaleytið síðastl. vor, þegar ástandið var orðið svo alvarlegt, að ekki var hægt að komu tauti við neitt? Mér er sagt, að þar hafi aldrei verið annað eins uppþotsástand síðan á dögum Tyrkjans. Var ekki gripið til þess að setja vínútsöluna undir hespu og lás? Það virtist eina ráðið til að bæla niður það uppþot, sem ölvun fjölda manns skapaði. Þetta bendir til þess, sem ég hefi haldið hér fram, að eina leiðin til þess að takmarka vínnautnina sé sú, að takmarka nokkuð frá því, sem nú er, aðgang manna að vínsölunni, halda búðunum ekki eins lengi opnum eins og gert hefir verið. Og sama hlýtur að gilda um hótelin og þær nætursamkomur, sem hæstv. ráðh. hefir verið að veita leyfi til vínsölu.

Hæstv. ráðh. sagði, að 1. des. síðastl. hefði verið órækur vottur um, að ástandið hefði ekki versnað, heldur hefði það jafnvel batnað frá því, sem verið hefði. Ég hefi nú fengið lýsingu á því, hvernig þetta fór fram hér 1. des., og sú lýsing er alveg hræðileg. bæði að því er snertir karla og konur. Er verð að segja, að ef hæstv. ráðh. hefir fengið rétta lýsingu á samkomunni 1. des. og öðrum slíkum samkomum hér, þá lætur hann sér ekki allt fyrir brjósti brenna, og það hlýtur að vera nokkuð þykkur á honum skrápurinn, þegar um það er að ræða að komast inn að þeim skynjunarfærum hæstv. ráðh., sem hann hefir til þess að skapa sér rétta mynd af ástandinu eins og það er. Til þess manns, sem við samanburð sinn hér er að gefa í skyn, að við búum við eitthvert himnaríkisástand, miðað við það, sem áður var, er vitanlega ekki hægt að gera nema mjög takmarkaðar kröfur af hendi okkar bindindismanna, sérstaklega þegar athugað er, hverjum tökum hæstv. ráðh. hefir tekið þessa hluti hingað til.

Nú, að því er snertir hitt atriðið, um gjaldeyri, þá kom þar fram sama grundvallarskoðun hjá hæstv. ráðh. Eins og hann vill svara drykkjugengdinni með því að hampa vínflöskunni framan í drykkjumanninn, eins vill hann ekki standa neitt á móti vínstraumnum inn í landið, svo að aldrei sé misst sjónar af því og haldið sé öllum möguleikum til þess menn geti fallið fyrir drykkjufýsninni og freistazt af þessum óþef. Hér ber nákvæmlega að sama brunni, að hæstv. forsrh. hefir gerólíkar grundvallarskoðanir og við, sem styðjum bindindis- og bannhugsjónina og trúum á réttmæti þeirra, þó að þær skoðanir hafi orðið að lúta í lægra haldi.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að það væri mótsögn hjá mér, að ég hefði viðurkennt, að með hækkun vínsins væri lyft undir smygl, en hinsvegar vildi ég takmarka innflutning á víninu. En hæstv. ráðh. hefir víst ekki athugað, hvað hann ristir grunnt með þessu og hvaða aðstöðumun það skapar handa bruggurunum, þegar allt flýtur í vínum, sem hægt er að selja leyfilega, eða þegar um takmarkaða sölu er að ræða. Þessi aðstöðumunur, með takmörkun innflutningsins, gerir það að verkum, að það er hægara að standa n móti brugginu eða mikilli vínsölu, af því að þá er frekar hægt að rekja feril bruggaranna og þeirra, sem sækja vín til þeirra. En þegar leyft er að selja ótakmarkað og verðið haft hátt á víninu, þá heldur sala bruggaranna áfram og þá er lokað fyrir þá möguleika að herja á bruggarana og uppræta þennan óþrifnað. Þegar hæstv. ráðh. ályktar, að um mótsagnir hjá mér sé að ræða, þá er það af því, að hann les ekki málið niður í kjölinn og gerir sér ekki grein fyrir því, hvernig það er í , framkvæmdinni.

Jæja, ég hefi þó fengið það upp úr ræðu hæstv. ráðh., að hann lofar öllu góðu að því er snertir framkvæmd þessa máls, að svo miklu leyti sem löggæzlan fær haft hönd í bagga. En hann neitar gersamlega að ganga inn á þau atriði í minni till., sem létt gætu störf lögreglunnar til að standa móti vínnautninni. Þetta gerir hann með því, að hann vill ekki hefta aðganginn að Vínbúðunum, heldur öfugt,. Hann vill ekki heldur skerða sölu vínsins á veitingastöðunum, með því að takmarka tímann, sem það er á boðstólum. Hann vill ekki draga úr vínnautninni og þeirri spillingu, sem það hefir í för með sér, að vínveitingar séu leyfðar takmarkalaust, og ekki heldur með því að takmarka gjaldeyri í þessu efni. Þetta er skýr afstaða og gottað fá því yfirlýst, hver afstaða hæstv. forsrh. er gagnvart þessum þýðingarmiklu ráðstöfunum til þess að hamla á móti vínnautninni í landinn. Það er gott að fá því yfirlýst, hvað andvígur hann er þessum ráðstöfunum.

Þá vil ég koma að hæstv. atvmrh. Það er kunnugt, að um hann gegnir öðru máli en hæstv. forsrh.; hann hefir verið áhugasamur um bindindismál, og hann oft verið inn á því og haldið fram, að mínar leiðir um takmörkun vínnautnarinnar gætu hamlað á móti þessari spillingu. Þá er hann sammála mér um það, að ef slíkar leiðir sem þessar væru farnar, þá mætti af þeim vænta árangurs í þessari baráttu.

Nú vil ég skjóta því til hæstv. atvmrh., þar sem svo mikið djúp er staðfest milli hans og hæstv. forsrh. (ég dæmi þar eftir fyrri framkomu hans, og ég hefi ekki ástæðu til að halda, að honum hafi snúizt hugur, heldur sé hann nú einmitt sterkari í átökum, að hann beiti áhrifum sínum gegn skoðunum hæstv. forsrh., sem er af stjórnarvaldsins hálfu yfirmaður hans, og geri það, sem hann getur, til þess að uppræta þessar skoðanir forsrh. og leiða hann af villu síns vegar að taka nú í sína þjónustu þær till., sem ég hefi borið fram.

Þó að ég hafi skiptar skoðanir í ýmsum efnum við hæstv. atvmrh., þá treysti ég honum, vegna þeirrar aðstöðu, sem hann hefir í ríkisstj., til þess að leggja fram lið sitt í þessu efni, treysti honum til að leggja þannig lóð sitt í skálina í ríkisstj., að það geti leitt til þess, að þetta mál yrði tekið þar fastari tökum heldur en yfirlýsing hæstv. forsrh. gefur vonir um.

Það er því meiri von, að hæstv. atvmrh. geti gert sinn góða vilja og lofsverða tilgang gildandi í þessu máli, þar sem vitanlegt er, ,að það er eitt af þeim málum, sem sósíalistar liggja mikla áherzlu á, og eins og mönnum er kunnugt, þá er í ríkisstj. þeirra vilji mestu ráðandi. Ég treysti þannig atvmrh. til að taka í taumana, og ég veit hann getur verið sterkur, ef hann beitir sér, og ég skora á hann að láta málið til sín taka í ríkisstj. og beita þar sínu bolmagni. Og eftir því sem lýst hefir verið í hans blaði því hörmungarástandi, sem af drykkjuskapnum hefir hér leitt, og þar sem sagt er, að allir verði að taka höndum saman til að hamla á móti þessari spillingu, því fremur ætti hæstv. ráðh. að beita sér fyrir þessu, þar sem hann getur vænzt þess, að flokksblað hans styðji hann hvað þetta snertir.

Ég vil því alvarlega skora á hæstv. atvmrh., að hann verði við þessum tilmælum mínum. Hann þekkir mína afstöðu og veit, að ég geri þetta málefnisins vegna að beina þessari áskorun til hans, þar eð þann ráðh., sem þetta mál heyrir undir, brestur algerlega skilning á því, að hvaða gagni þessi till. mín gæti komið, og stendur á öndverðum meiði við hæstv. atvmrh. og aðra landsmenn, sem vilja hefta áfengisstrauminn.

Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum, en ég vil aðeins að lokum benda hæstv. forsrh. á, að það er dálaglegt ástand, sem hann er að skapa og viðhalda í landinu, með því að skattleggja nauðsynjar manna og takmarka t. d. byggingarefni, en láta áfengið fljóta ótakmarkað inn í landið. Ég vil benda honum á, að það er svart ástand, sem hann skapar, þegar svo er komið, eins og fyrir bónda einum í Borgarf., sem ætlaði að koma sér upp fjárhúsi, en fékk ekki járn yfir það, því að gjaldeyrisnefnd neitaði um gjaldeyri til þess, og húsið varð að standa opið, og ef tíðin hefði ekki verið sérstaklega hagstæð, þá var búfjárstofninn í voða, vegna þess að nauðsynlegan hlut vantaði, af því að gjaldeyrir fékkst ekki fyrir honum. Það er væntanlegt, að hæstv. forsrh. geri sér rækilega grein fyrir þeirri mynd, sem hann er að draga upp í þessu þjóðfélagi með því að taka fyrir innflutning á nauðsynlegustu hlutum, meðan vínið er látið fljóta viðstöðulaust ofan í hvern mann, sem vili hella þessum drykk í sig.

Ég vil brýna fyrir hæstv. forsrh., að hann setji vel á sig þessa mynd og þann stimpli, sem settur er á þetta þjóðfélag með þeirri grundvallarskoðun hans, sem ég hefi hér lýst. Það er gott fyrir hann að virða það sem gaumgæfilegast fyrir sér, hvernig hún lítur út í framkvæmd og veruleika.