18.12.1935
Sameinað þing: 31. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (4952)

123. mál, áfengismál

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég ætla að reyna að svara þessari löngu ræðu með eins fáum orðum og ég get.

Það, sem okkur greinir aðallega á um, hv. þm. Borfg. og mig er það, hvernig eigi að sporna á móti áfengisbölinu. Þessi till. hans, eins og ég hefi sýnt fram á áður, tekur ekki þannig á málinu, að hún bæti nokkuð úr ástandinu sem er, heldur þvert á móti. Ég færði rök að því, að reynslan hefir skorið úr um þetta efni.

Það er talað mikið um það, og ég viðurkenni, að ástandið er vont. Ég talaði ekki um neina Paradís, eins og hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði geri. En það er stöðugt verið að jagast á því og endurtaka það, að ástandið sé slæmt síðan áfengislögunum var breytt. En það er ekki minnzt á einu orði, hvernig ástandið var meðan landið átti að heita lokað fyrir áfengi. Og ég hefi sýnt fram á það með skýrslum, að ástandið er svipað og það var. Ég minni í því sambandi á afbrotin. Ég hefi lánað skýrslurnar, en ég var með þær í höndunum áðan, en mig minnir, að 1932 hafi afbrotin verið 614, en 10 mánuði ársins 1935 voru þau 546. M. ö. o., 1932 virðast afbrotin vera eins og árið 1935, þegar talið er, að ástandið yrði verst. Og árið 1932 er ekkert óeðlilegt í þessu efni. Þegar talað er um ástandið nú, mega menn því ekki gleyma, að ástandið 1930—1932 var ekki betra. Það voru eins drukkin vín þá, veik og sterk vín, og það þurfti ekki annað en hringja í áfengissalana. Þrátt fyrir það hafa starfað í lögreglunni þá eins og nú menn, sem hafa eins mikinn áhuga fyrir bindindismálum og hv. þm. Borgf. og rækt hafa starf sitt af mestu alúð. Og það þýðir ekki neitt að vera að draga fram ástandið nú sem nýtt ástand, er ekki hafi verið áður. Og þegar talað er um að loka fyrir sölu áfengis, þá er það margsannað af reynslunni í mörg ár, að þó að þetta sé gert, þá er það hið sorglega, að áfengisgirndin lætur ekki hefta sig. Og þó að farnar séu aðrar leiðir, eins og að takmarka gjaldeyri, þá er það svo að áfengið flýtur í landinu engu að síður: munurinn er bara sá, að ef lokað er fyrir innflutninginn, þá eru það áfengissalarnir, sem selja, en ríkisstj. annars. Munurinn er aðeins, að farið er með áfengið í vögnum, eins og þegar lokað er vínverzluninni, og það flutt upp um allan bæ og verzlað með það. Þetta er staðreynd, sem reynsla margra ára hefir sýnt, og það þýðir ekki að mæla á móti því.

Ég er hv. þm. Borgf. þakklátur fyrir áhuga hans í þessu máli, og ég er honum sammála um nauðsynina að bæta úr því, og ég hefði viljað greiða fyrir þessum ráðstöfunum hans, ef reynslan hefði ekki sýnt, að þær koma ekki að neinu gagni. Og það er ekki einungis hér á landi, heldur líku í örðum löndum, þar sem samskonar löggjöf hefir verið reynd. Bæði hjá Norðmönnum, Finnum og Ameríkumönnum er þetta nákvæmlega það sama. Því er ekki til neins að vera að gera svona, tilraunir, og það er ástæðan fyrir því, að ég stend á móti. Að ég vilji ekki vinna móti áfengisnautninni, býst ég ekki við, að neinn geti haldið fram. Og ég bjóst sízt við, að hv. þm. mundi halda því fram, að ég vildi ekki gera allt, sem hægt er, til að vinna á móti drykkjuskap.

Ég vil halda því fram, að aldrei hafi verið eins röggsamlega unnið á móti áfengisnautn af löggæzlunni í Reykjavík eins og meðan ég var fulltrúi hennar og lögreglustjóri. Þetta kom einmitt fram í þeim skýrslum, sem hv. þm. Borgf. hefir vitnað í, að eftirlitið var skerpt 1930 og hefir haldizt svo síðan. Þá þrefaldaðist tala þeirra manna, sem teknir voru fastir fyrir drykkjuskap, og þó var drykkjuskapurinn þá svipaður.

Það er alveg táknandi um áhrif þeirra ráðstafana, sem hv. þm. Borgf. vill fara að koma á, að sá maðurinn í þessu landi, sem langduglegastur hefir verið að uppræta leynisölu og brugg, Björn Blöndal, bendir á það, að reynslan sýnir, að eitt af ákvæðunum, sem ýtir hvað mest undir leynisöluna, er það, að loka áfengisverzluninni kl. 12 á laugardögum. Þetta hefir gert það að verkum, að áfengissalarnir nota laugardagana til að selja áfengi á kvöldin. Ef ætti að halda áfram þessari röksemdafærslu, þá væri bezt, að búðirnar væru opnar allan sólarhringinn, en það má auðvitað ekki koma með slíkt, því það gildir ekki í þessu sambandi. Aðalatriðið er, að á kvöldin, þegar menn drekka mest, þá er þýðingarlaust að loka fyrir vínið. Það er hin sorglega reynsla í öðrum löndum og margra ára reynsla hér í Reykjavík og á þessu landi.

Þetta er ekki leiðin, og þar skilur okkur á, hv. þm. Borgf. og mig, að loka fyrir vínstrauminn á þennan hátt. Leiðin er að reyna að uppræta áfengisgirndina með því að upplýsa fólkið, og til þess er auðvelt að finna leiðir. Það verður að vekja skilning hjá þjóðinni fyrir þeirri spillingu, sem af áfenginu stafar. Það er sú leið, sem verður að fara, En hér skiljast vegir milli mín og hv. þm. Borgf.

Ég skal nú aðeins með örfáum orðum víkja að þeim liðum, sem hv. þm. hefir haldið fram, að ég hafi vanræki. Hv. þm. getur ekki hent nema á það eitt, að ég hafi gefið veitingaleyfi. Þar sem þessi leyfi hafa verið gefin, þá eru þau í höndum lögreglustjórans í Reykjavík, og hefir þar verið fylgt sömu reglu og áður, og Alþingi hefir séð sérstaka ástæðu til að veita heimild fyrir eitt veitingahús. En á öðrum veitingahúsum liggur veitingavaldið hjá mér. Og hvar eru þau leyfi, sem ég hefi gefið? Ég hefi ekkert slíkt leyfi gefið, þó að sótt hafi verið um þau í tugatali; ég hefi ekki veitt leyfi hótel Ísland, ekki hótel Skjaldbreið. Heklu eða Vík. (PO: Ráðh. hefir veitt hótel Borg leyfi). Hótel Borg er veitingastaður, sem löggiltur er sérstaklega. Það er ætlazt til þess samkv. áfengislöggjöfinni. Þar er gert ráð fyrir, að einu veitingahúsi sé veitt vínveitingaleyfi, og gerðu allir þm. ráð fyrir hótel Borg. Það hefir því ekki við nein rök að styðjast, að ég hafi veitt vínveitingaleyfi.

Hv. þm. talaði um, að áfengismálaráðunautur hafi lág laun, 3000 kr., og ég er hv. þm. þar sammála, og var það hið eina, sem rétt var í ræðu hans. Ég skal fúslega fallast á, að þau verði hækkuð, því að það er í samræmi við mitt álit.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði ráðizt á stórstúkuna. En það hefi ég alls ekki gert. Það hefir verið ráðizt á stórstúkuna fyrir það, að hún hafi notað aðstöðu sína til þess að draga taum sérstaks flokks. Þessar árásir hafa verið nokkuð rökstuddar og virðast ekki hafa verið ástæðulausar. Ég verð að segja það, að starf stórstúkunnar undanfarin ár hefir verið mér sár vonbrigði. Sannleikurinn er sá, að Reglan er ekki lengur neinn lífrænn félagsskapur, eins og hún ætti að vera, og væri ástæða til þess að taka það mál sérstaklega til umr., en út í það skal ekki farið nánar hér.

Það er fjarstæða hjá hv. þm., að það gildi ekki sama regla og áður um það, hverjir eru settir í fangelsi. Þeir, sem eru með óspektir, eru settir í fangelsi, en hinir eru fluttir heim. Hv. þm. sagði, að ástandið hefði verið sérstaklega slæmt í ýmsum réttum, svo að menn hefðu ekki getað sinnt störfum þar vegna ölæðis. Um þetta er sama að segja og um rök hv. þm. í heild. því hvernig var ástandið t. d. í Skeiðaréttum fyrir nokkrum árum, áður en bannlögin voru afnumin? Hefir nokkur yfirleitt heyrt verri lýsingu en þá, sem gefin var af ástandinu eins og það var þá? Þá varð að fá 4 eða 5 lögregluþjóna í þær réttir, og einnig varð að fá lögregluþjóna í aðrar réttir, til þess að reyna að koma í veg fyrir, að ástandið yrði áfram eins og það var þá orðið. Það má því vera slæmt núna, ef það er öllu verra en það var þá.

Eins og menn sjá, þá er mikill meiningarmunur milli okkar hv. þm. Borgf. um það, hvernig eigi að vinna móti áfengisnautninni. Um það erum við ekki sammála, enda kom það glöggt fram, þegar áfengislögin voru samþ. Og ég hefi ekki breytt um skoðun síðan. Ég hefi með hverju ári styrkzt í þeirri skoðun, að ekki sé hægt að vinna móti áfengisnautninni, nema með því að uppræta áfengisgirndina. Hv. þm. Borgf. vill reyna að koma í veg fyrir áfengisgirndina með því að loka áfengissölunum 3 klst. fyrr á daginn, og hafa lokað annanhvern dag. En ég þykist hafa fært rök að því, að þetta sé ekki leiðin. En í öllu því, sem hv. þm. vill gera til þess að gera löggjöfina strangari — en þar þykist ég fyrst sem lögreglustjóri og síðar sem dómsmrh. hafa gert allt, sem í mínu valdi stendur, — og uppræta á þann hátt áfengisbölið, skal ég vera með honum í. Einmitt á þessu sviði þykist ég hafa sýnt, að ég vil vinna með honum. Að ég vil vinna í þá átt, hefi ég sýnt sem lögreglustóri og líka sem dómsmrh. Hv. þm. hefir ekki bent á eitt atriði, sem ég hefi vanrækt í þessu efni. Það eina er veitingaleyfið, en um það hefi ég gefið fullar upplýsingar.

Ég held, að það yrði áfengismálunum til gagns, ef hv. þm. vill taka till. aftur, því eins og hún er, þá er hún algert spor aftur á bak, og reyna svo að sameinast mér og öðrum í því að vinna á þann hátt, sem reynslan hefir sýnt, að er eina leiðin til þess að vinna á móti áfengisbölinu. Ef hann gerði það, þá væri von um einhvern meiri árangur, en með till. er horfið að því að taka upp það, sem áður hefir verið og reynslan hefir sýnt, að hefir reynzt hörmulega.