02.12.1935
Sameinað þing: 23. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í D-deild Alþingistíðinda. (4971)

196. mál, innlend sementsgerð

Bjarni Ásgeirsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Barð. hefir borið fram þáltill. þá, sem hér liggur fyrir á þskj. 660. En af því að hann er fjarverandi sökum veikinda, vil ég segja nokkur orð. Frá því á síðastl. hausti hefir verið unnið að því að rannsaka skilyrði fyrir innlendri sementsgerð, og hefi ég hér sýnishorn bæði af sementi úr íslenzku efni og steypu, sem hv. þm. eiga kost á að sjá. Efni í sement þetta er tekið á þremur stöðum. Fyrst og fremst er skeljasandurinn, sem er tekinn vestur á Patreksfirði, og inniheldur hann 90% af kolsúru kalki, sem er nauðsynlegt efni til sementsgerðar. Þar vestra eru miklar námur af sandi þessum, sem, eftir því sem kunnugir telja, mun duga um ófyrirsjáanlegan tíma. Í öðru lagi er leir, sem tekinn er hér úr bökkum Elliðaánna, og er víðar mjög mikið af hér í grenndinni, og í þriðja lagi er kísilsýra, sem er tekin suður á Reykjanesi, en verður að sækja þangað vegna þess að hana vantar í leirinn til að hann sé fullkomið efni í sementsgerðina, svo sem er í Danmörku. Er efni þetta notað í þeim hlutföllum, sem nú skal greina. Til að framleiða 25 þús. tonn af sementi þarf 50 þús. tonn af skeljasandi, 4 þús. af leir og um 6 þús. tonn af kísilsýru. Eins og menn sjá, er langmestur hlutinn skeljasandur, og er talið, að það muni ekki miklum vandkvæðum bundið að ná honum.

Aðalverkefnið nú er því að rannsaka, hvort nægileg kísilsýra fæst hér nærlendis. Þegar virkjun Sogsins er lokið, verður hér nóg af ódýrri raforku. Hinsvegar verður að nota nokkuð af kolum, og er mér ekki kunnugt, hve mikill kostnaður kann af því að verða. Eins og gefur að skilja, er nú búið að verja talsverðu fé til þessara rannsókna, en okkur flm. þykir vissara, að leyfð verði nokkur fjárupphæð til frekari rannsókna, eða um 10 þús. kr., svo að rannsókn verði að fullu lokið, þó ekki séu líkur til, að þurfi að nota það allt. Þess skal geta, að Monberg verkfræðingur hefir gengizt fyrir því, að rannsókn þessi erlendis var íslenzka ríkinu að kostnaðarlausu.

Það mun öllum ljóst, að ef hægt er að skapa slíku fyrirtæki fjárhagslega tryggan grundvöll og tryggja fé til stofnkostnaðar, hvílíkt nytsemdarfyrirtæki þetta mundi verða í landi eins og okkar, þar sem byggja þarf jafnmikið, jafnt í sveit og við sjó, og byggingar eru allstór liður í atvinnu fólksins, en í því neyðarástandi, sem nú er, verður að skera niður innflutning á byggingarefni, eins og gert var að nokkru á þessu ári, og útlit er fyrir, að verði að herða á enn meira á mesta ári. Ég vænti því þess, að hv. þm. skilji nauðsyn þessa máls og samþ. þáltill. Ég veit ekki, hvort hv. þm. finnst rétt að vísa henni til fjvn.; ég er ekki á móti því, að svo verði gert, en vænti þess, að hún hraði þá afgreiðslu í henni.