29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi flutt brtt. á þskj. 143, og svo hefir aftur komið önnur brtt. við hana á þskj. 307. Mín brtt. lýtur að því, að gerð verði sú breyt. á l. nr. 36 frá 8. sept. 1931, sem fjalla um embættiskostnað presta, að því fé megi árið 1936 verja til styrktar bændum til að byggja súrheysgryfjur og safnþrær.

Ég ætla að fara nokkrum orðum um sögu þessa máls, því ég álít það mikilsvert að segja fyrst frá því, hvernig hreyfing komst á þetta mál með súrheystætturnar, því ég var áheyrandi að því. Fyrir ári síðan var ég staddur á fundi fyrir austan, og voru þar staddir Egill í Sigtúnum og Sigurður Sigurðsson fyrrv. búnaðarmálastjóri. Þá benti Egill í Sigtúnum á, hve mikla þýðingu það gæti haft fyrir bændur sunnanlands að geta stóraukið súrheystætturnar, og hann, sem hefir með annað nauðsynjamál bænda að gera, svo sem kunnugt er af umr., sem fram hafa farið hér í þinginu, sá greinilega, hverja þýðingu þetta gæti haft fyrir bændurna. Hann sagðist álíta þetta svo mikið atriði, að hann vildi gera sérstakar ráðstafanir til þess að hjálpa bændunum í Árnessýslu með því að veita þeim hentug lán gegnum sína verzlun, svo að þeir gætu hrundið málinu í framkvæmd. Það var ekki að sjá, að á þessum fundi vari neinn sérstakur áhugi fyrir þessu máli hjá þeim merka manni, sem veitti þá búnaðarmálunum forstöðu, og það var eins og honum kæmi þetta ókunnuglega fyrir, þó hann hafi sjálfsagt verið því velviljaður. Það virtist eins og þessi hreyfing kæmi eingöngu frá kaupfélagsstjóranum, en síðan hefir fregnin um forgöngu kaupfélagsstjórans í Sigtúnum fyrir þessu máli, borizt út, þannig að hv. 10. landsk. hefir frétt af þessu, máske í gegnum samflokksmann sinn, sem var staddur þarna á fundinum. Þetta hefir orðið til þess, að hann, sem ekki sýndi neinn sérstakan áhuga á þessu máli á meðan hann var landbúnaðarráðh., hefir nú sýnt áhuga á því, eftir að hann var hættur að vera við stjórn, og hefir nú komið með virðingarverða tillögu um að greiða fyrir þessu máli, en sem eins og svo margt annað aðallega rekur sig á peningavandræði yfirstandandi tíma; og af því ég er sammála hv. 10. landsk. og lít svo á, að við báðir — eða að minnsta kosti ég — séum lærisveinar Egils kaupfélagsstjóra í Sigtúnum, og af því ég sá, að hv. 10. landsk. komst ekkert áfram með sína tillögu, þar sem hann bar þannig niður í hinum slæma fjárhag ríkissjóðs, að aðeins var um aukaútgjöld að ræða, án þess að séð væri fyrir tekjum, þá hélt ég, að hans góða viðleitni mundi ekki bera nægilegan árangur, og þess vegna tók ég það ráð að bera fram þessa brtt. um launalækkun presta. Þessi liður í fjárl. er ekki mjög gamall, og má um hann segja, að hann sé ekki eins nauðsynlegur og margt annað og að vel megi komast af án hans. Ég á þar við þá launahækkun, sem hv. 10. landsk. barðist fyrir í kirkjumálanefnd og hann af dugnaði sínum kom í gegnum þingið snemma á kreppuárunum, og mun þessi launahækkun presta nema um 5 þús. krónum. Ég skal sízt neita því, að prestar eru ekki hálaunamenn. En frá mínu sjónarmiði er það svo, að ég hefði heldur óskað þess skilnings hv. 10. landsk., sem þá var formaður kirkjumálanefndar, að hann hefði heldur reynt að hækka laun presta með því að koma á samfærslu prestakalla heldur en með auknum útgjöldum úr ríkissjóði. En hann gerði þetta vafalaust út frá þeirri skoðun, að hann áleit, að prestar mættu ekki vera færri. En hann var þá formaður kirkjumálanefndar, og fyrir þann dugnað sem hann lagði í þetta, komst þetta á. Það er nú meira og meira að verða athugunarefni, hvort þetta er ekki skokk stefna, sem hv. 10. landsk. fylgdi. Það er nú komin frá launamálanefnd tillaga um, að launahækkun presta komi í sambandi við aukið starf og fækkun þeirra. Þar sem ég álít þessa launabreytingu frá 1931 byggða á skökkum grundvelli, og þó að prestar hafi lág laun, þá eru þau þó ekki svo lág, að það standi á því að fjöldamargir læri til prests og taki brauð, þá hefi ég nú farið inn á þessa leið. Samkv. minni till. eru það aðeins fáeinir menn, sem lækka í launum, en aftur á hinn bóginn eru það náttúrlega mörg hundruð, sem standa betur að vígi. Það er lítil stétt, sem tapar launahækkun, en þeir peningar fara í almenna eyðslu hjá prestunum, en eftir minni till. er þetta fellt niður um eins árs skeið og kemur bændastéttinni allri til góða. Það er þess vegna um tvennt að velja, hvort menn vilja heldur leggja þessar 65 þús. krónur í viðbótareyðslu hjá fámennri stétt eða í framlög til hjálpar fjölmennri stétt.

Nú hefir hv. 10. landsk. sýnt það með þeirri brtt., sem hann flytur, að hann óskar ekki eftir þessari breytingu, heldur vill hann halda þeirri launahækkun, sem hann kom á. Hann hefir nú komið með fleyg, sem mér skilst, að geti ekki þýtt sérstaklega mikið að skjóta inn, um að lækka kaup okkar alþm. Það er ekki fráleitt, að ég geti athugað þessa till. um að lækka kaup alþm. með honum, sérstaklega væri það þá að lækka kaup okkar, sem búum hér í Rvík, og ef til vill þeirra, sem allra næst búa, en um hina álít ég mikið vafamál. En samkv. hans till. er um svo litla upphæð að ræða, að það munar ekki sérlega um hana, og með henni er það, að veita þennan styrk til landbúnaðarins, gert sama sem að engu. En af því að ég vil ekki ganga á móti sparnaðartillögu hv. 10. landsk., þá vil ég, að hér komi fram hrein atkvgr. um báðar till., og kannske hvorttveggja verði þá samþ. Ég flyt þess vegna skrifl. brtt. við hans till., því að ef mín till. verður samþ., þá næst betur tilgangurinn, en þeir, sem vilja spara á þingkostnaðinum, greiða atkv. með því, og þeir, sem vilja hjálpa bændunum, geta gert það án þess að viðhorfið til þingkaupsins rugli þá. Ég ætla að leggja hérna fram brtt. og vænti þess, að afbrigði fáist.