29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég býst við, að mönnum hafi ekki verið fyllilega ljóst, hvað vakti fyrir hv. þm. S.-Þ. síðast í ræðu hans, og ég er ekki viss um, að honum hafi verið það ljóst sjálfum. En það var eitt atriði, sem hann talaði um í sambandi við þetta og það var, að ef hans frumtillaga yrði samþ. nú, þá yrði hún samþ. áfram; en hann dró í efa, að ef mín till. yrði samþ. nú, yrði hún samþ. áfram. Ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að ætla það, að þm. séu ófórnfúsari en aðrir menn. Það hefir verið minnzt á, að í hv. Nd. er á ferðinni frv., sem fer í þá átt, að einstakar sóknir verði afnumdar, og þá verða þessi lög um embættiskostnað presta úr gildi numin. verði þetta frv. samþ. á þessu þingi áður en því er slitið til fulls, þá verður þessi brtt. hans ekki að neinum notum, og þess vegna ekkert gagn að því að samþ. hana, því þá er búið að nema lög þau, sem hún byggist á, úr gildi í sambandi við annað frv. Það er þess vegna miklu tryggara, að það verði til frambúðarhagsmuna fyrir bændastéttina, ef mín brtt. er samþ. viðvíkjandi yngstu prestunum, sem hafa fengið veitingu fyrir embættum síðan lögin frá 1931 voru gefin út, skal ég taka það fram, að ég sagði ekkert ákveðið um það, hvort til þess kæmi, að þeir færu í mál út af þessu, en ég drap á það sem hugsanlegan möguleika, að þeir gætu átt kröfu á hið opinbera. Ég býst síður við, að þetta kæmi fyrir, meðal annars af því, að einn fylgismaður hv. þm. S.-Þ. í prestastétt mun hafa eldri veitingu fyrir sínu embætti.