29.03.1935
Efri deild: 37. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

5. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

Guðrún Lárusdóttir:

Ég veit ekki, hvort þetta mál er rætt hér í gamni eða alvöru, en hitt veit ég, að á alþingi er hvorki staður né stund til þess að henda gaman að jafnalvarlegu efni og hér er til umræðu.

Hv. þm. S.-Þ. var mjög ánægður yfir brtt. sínum og sagði, að almenn ánægja væri yfir þeim í landinu. Ég veit ekki, hverja hann umgengst, en ég þekki einnig allmargt fólk, og ég þori af þeirri kynningu að fullyrða, að til er fólk, og það fjöldi fólks, sem finnur vel, hvílíkt hnefahögg þessi fyrrv. kirkjumálaráðherra reiðir með þessari till. sinni í garð elztu mennta- og siðgæðisstofnunar landsins og elztu embættismannastéttarinnar í landinu.

Ég er af alhug fylgjandi ræktun landsins, en sú ræktun verður að bíða, ef ekki er hægt að framkvæma hana nema á kostnað uppbyggingarstarfsemi prestanna. Ef engin önnur ráð eru til jarðabótanna en að klípa af launum lægst launuðu embættismanna í landinu, þá er það sú fyllsta vandræða- og gjaldþrotayfirlýsing, sem hægt er að koma með.

Nýja dagblaðið, málgagn hv. þm. S.-Þ., var að tala um það á dögunum, að hv. þm. S.-Þ. hefði sett hv. 10. landsk. í gapastokkinn með þessum till. sínum. Nú hefir hv. 10. landsk. komið með brtt. til þess að gefa hv. þm. S.-Þ. kost á að forna hugsjónum sínum nokkru af þeim launum, sem honum ber sem þingmanni. ég tel engan vafa á því, að sá munur sé á efnahag þingmanna og presta yfirleitt, að réttara sé að klípa eitthvað af ágóða þeirra en hinum vesölu tekjum presta.

Hv. þm. S.-Þ. sagði prestana óþarfa. Mér er kunnugt um það, að launamálanefnd leggur til að fækka þeim stórkostlega. Hv. þm. S.-Þ. sagði, að þær tillögur væru í samræmi við vilja þjóðarinnar. Hvaðan kemur honum heimild til að segja slíkt? Ég ítreka þessa spurningu og óska, að hann svari henni, ef hann getur. Það má vitanlega þræta um það, hvort meta eigi meira safnþrær eða menningar- og uppeldisstarf presta, þótt slíkt sé ekki sambærilegt. Ég óska eftir glöggum svörum frá hv. þm. um það, hvernig hann viti það, að landsmenn vilji fækkun presta fyrr en þjóðaratkvæði hefir farið fram um það. Það má líka benda honum á, að launamálanefnd leggur til, að svo verði gert, enda verður að telja það sjálfsagt, áður en það spor verður stigið, að þurrka út þá stétt, sem mest og lengst hefir unnið fyrir siðgæði og menntun í landinu.