14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Þessar umr. hafa farið mjög á við og dreif, og ég geri ekki ráð fyrir, að ég geti gert það fyrir hv. ræðumenn að elta alla þá útúrdúra, sem farnir hafa verið í sambandi við þetta mál. Ég mun þó leitast við að gera skil nokkrum atriðum, sem máli skipta. Hv. þm. N.- Ísf. komst svo að orði, að sér væri það að sjálfsögðu mikið gleðiefni, að ráðh. og ríkisstj. hefðu getað fallizt á að verða við óskum sjálfstæðismanna að létta markaðs- og verðjöfnunarsjóðsgjaldinu af. Hv. þm. veit, að hann er hér að fara með rangt mál. Það hefir ekki verið farið eftir kröfum nokkurra manna í þessu efni, hvorki sjálfstæðismanna né annara. Hv. þm. veit vel, að hann fer með rangt mál. En það skiptir minnstu máli, því að aðalatriðið er efni frv., hvernig sem það er til komið. Þá talaði hv. þm. mikið um þá hörmulegu meðferð, sem hinir „hjartahreinu“ og „göfugu“ sjálfstæðismenn hefðu orðið fyrir í blöðunum í sambandi við blaðadeilur um utanríkismál, fiskverzlunarmál o. s. frv. Ég mun ekki gera hv. þm. það til geðs að fara að ræða um blaðadeilur við hann, enda tel ég ekki minnstu ástæðu til þess. Einn meginhluti ræðu hv. þm. var um efni, sem að vísu má segja, að komi þessu frv. nokkuð við, en er þó svo fjarri því, liggur mér við að segja, að það er ekki hægt að segja, hvernig frv. reiðir af, komi það til með að hafa veruleg áhrif í þá átt að bæta úr þeim ágöllum, sem hann benti á. Hv. þm. taldi, að því er mér skildist, að ein ástæðan fyrir því, hversu völtum fótum útgerðin stæði, væri sú, að ég og sá flokkur, sem ég telst til, hefði stöðugt talið fólkinu trú um, að gróði útgerðarinnar væri svo mikill, að til hennar mætti gera næstum taumlausar kröfur. Ég hefi nokkrum sinnum áður átt orðaskipti við menn um þetta og skal því ekki fjölyrða um það að þessu sinni. En ef útgerðarmenn telja, að það séu kaupkröfur verkamannanna á sjó og landi, sem unnið hafa við fiskinn, sem steypt hafa útgerðinni á höfuðið, þá fer þeim ekki ólíkt þeim, sem sá flísina í auga bróður síns, en gleymdi bjálkanum í sínu eigin auga. Til þess að sannfærast um, hversu margfalt meira útgerðarmenn hafa borið úr býtum heldur en verkamennirnir, sem hjá þeim hafa unnið, þarf ekki annað en að líta á mannvirkin, bæði hér í bænum og uppi í Mosfellssveit, sem næstum eingöngu hafa verið gerð fyrir fé frá útgerðinni. Það er náttúrlega í sjálfu sér ekki nema gott, að menn leggi milljónir í húsbyggingar og jarðeignir, en það fé, sem þannig er bundið, verður hinsvegar ekki notað til útgerðar, sem er á hausnum. Það er enginn vafi á því, að þessar blóðtökur hafa valdið útveginum mjög þungum búsifjum og eiga því vafalaust mjög mikinn þátt í því, hversu hagur hans er nú bágborinn.

Ég skal játa, að ég er ekki að svo stöddu við því búinn að svara útreikningum hv. þm. á verðmismun á saltfiski hér og í Noregi. Eftir því, sem hann upplýsti, er verðmunurinn 19 kr. á hvert skp., og fá Norðmenn 19 kr. meira fyrir skp. Þetta kann vel að vera, en samt hefi ég rekið mig á, að það hefir komið fyrir, að útreikningi hefir skakkað hjá þessum hv. þm., ef tölur hafa ekki verið fyrir hendi. En sé þetta rétt, þá er það ljóst, að sú brtt., sem hv. þm. flutti um að fella niður 1/2 —3/4% gjaldið, er tilgangslaus að mestu, því að þá hefði þetta litla gjald næstum engin áhrif til þess að jafna þann mikla mismun, sem er á því verði, sem íslenzkir og norskir fiskimenn fá fyrir fiskinn.

Skal ég þá víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. Reykv. Hann byrjaði sína ræðu á því að tala um, að það væri mjög óviðkunnanlegt að blanda saman tveimur óskyldum málum, þ. e. a. s. þessum umr. um breyt. á l. um fiskimálanefnd annarsvegar og niðurfellingu l. um markaðs- og verðjöfnunarsjóð hinsvegar. En þetta eru ekki óskyld mál. Þau eru svo náskyld, að þegar lagt er til, að gjaldið í markaðs- og verðjöfnunarsjóð verði fellt niður, þá er vitanlega afar eðlilegt, að þetta fé sé lagt undir fiskimálanefnd, sem hefir þessi störf með höndum. Hv. þm. talaði um þá breyt., sem hér liggur fyrir á bráðabirgðal. um útflutning á fiski, fiskimálanefnd o. fl. Um hana sagði hann, að stj. væri að snúa frá villu síns vegar, því að þegar þetta mál hafi legið fyrir þinginu áður, þá hafi hún hugsað sér allt annað fyrirkomulag á fiskverzluninni heldur en síðar er tekið upp, að mér skilst, með þessum bráðabirgðal., sem hér liggja fyrir. Hv. þm. veit, að hann fer hér með rangt mál. Við allar umr. í báðum deildum um þetta mál fullvissaði bæði ég, og einnig þeir, sem stóðu að þessu frv., andstæðingana um það, að við óskuðum og vonuðum, að fiskverzlunin gæti sem mest verið á einni hendi, þannig að hægt væri að nota ákvæði löggjafarinnar um einn aðalútflytjanda. En það voru einmitt hv. andstæðingar okkar í þessu máli, sem kölluðu alla góða vætti til vitnis um, að samtök útgerðarmanna yrðu sprengd og að heiður og velferð landsins væri í veði, ef frv. yrði samþ. Frv. var samþ. og það sýndi sig, að í staðinn fyrir það mikla ófremdarástand, sem áður ríkti um fiskútflutninginn, hafa komið tiltölulega mjög öflug samtök fyrir kraft þessara laga, með meiri þátttöku en flestir gátu jafnvel gert sér von um, að yrði. (MG: Til hvers þurfti þá bráðabirgðalögin?), ég skal koma að því. Sú breyt., sem gerð var með bráðabirgðal., er, að áður var tiltekið 75% lágmark af fiskmagninu til þess að geta orðið aðalútflytjandi og til þess að geta gengið í félag fiskframleiðenda, er gert ráð fyrir 65% lágmarki samkv. ákvæðum bráðabirgðal. Önnur breyt., sem gerð hefir verið, er sú, að samtímis því, sem breyt. var gerð og nokkuð var þröngvað kosti þeirra, sem ekki vilja taka þátt í þessum samtökum, þótti rétt að gera aðra breyt., sem er í því fólgin, að þeir, sem í félaginn væru, gætu ekki ráðið stjórnendunum öllum, heldur skyldu vera tilnefndir 2 menn af stj., sem tækju svo þátt í stjórnarstörfum vegna hinna, sem neyddir voru til þess að ganga í félagið. Og þetta eru þær tvær höfuðbreyt. á fisksölumálunum, sem gerðar voru með bráðabirgðal. síðastl. vetur. Nú skal ég játa að, að nokkuð hefir verið gengið móti fiskútflytjendum til samkomulags, með því að færa niður lágmarksákvæðið um fisksölumagn, miðað við það, sem ákveðið var í l. frá síðasta þingi, en það var gert gegn því, að ríkisstj. fengi aukin áhrif í félaginu með því að skipa tvo menn í stjórn þess. Ég tel þessa lausn malsins sæmilega viðunandi fyrir alla aðila, og hefi ekki orðið var við annað, en að flestir séu ánægðir með hana. En ef hv. þm. er einhver hugfró í því að telja sér trú um, að hans flokkur hafi borið hærra hlut í þessu máli, þá er honum það velkomið, því það er ekkert annað en hugarburður.

Í sambandi við það, sem hv. þm. var að segja um að ríkisstj. virtist nú orðið ekki leggja mikið upp úr nauðsyn verðjöfnunarsjóðs, vil ég taka fram, að í fyrrahaust, er l. um verðjöfnunarsjóðinn voru samþ., var fullkomið samkomulag milli allra flokkanna um að stofna sjóðinn, bæði um það, hversu hátt gjaldið til hans skyldi vera, og eins hitt, hvernig það var lagt á. Þess vegna er það ekki nema leikur að látast nú vilja breyta öðrum meginþætti l., nefnilega þeim, hvernig gjaldsins er aflað. Það er ekki annað en bein riftun á samkomulagi flokkanna frá því í fyrra, það frv., sem flokksbróðir þessa hv. þm. ber fram í hv. Nd. um það, að ríkissjóður greiði allt verðjöfnunargjaldið. hér var um fullkomið samkomulag að ræða, það er því undarlegt, að þetta frv. skuli koma fram án þess um það sé talað að slíta gerðum samningum milli flokkanna.

Þá held hv. þm. því fram, að ríkisstj. teldi ekki þörf á því að halda áfram tilraunum til þess að auka markað fyrir sjávarafurðir eða leita að nýjum. Þetta er náttúrlega hinn mesti misskilningur. hér segir í b-lið 3 á þskj. 506, að ríkisstj. hafi heimild til að veita stofnunum eða einstaklingum lán eða styrk til „að gera tilraunir með útflutning og sölu sjávarafurða á nýja markaðsstaði, svo og til að auka sölu þeirra á hinum eldri“. Þetta sýnir ljóslega, að ummæli hv. þm. hafa við ekkert að styðjast. Er hér aðeins annað orðalag en í l., en meiningin er hin sama. Þær tekjur, sem vænta má, að þessi sjóður fái, eru frá 150 til 200 þús. kr., auk þess, sem eftir er af þeirri 1 millj. kr., sem heimilað var í fyrra til tilrauna um nýjar aðferðir í fiskverkun og eflingu og öflun markaða. Ég get svarað hv. þm., sem spurði, hvort hér væri um nýja lántökuheimild að ræða, því, að svo er ekki. Ég tel, að þetta sé nægilega ljóst tekið fram, en hinsvegar er ekkert á móti því að orða það ákveðnar, ef einhverjum finnst þess þurfa. (MG: Já, það er nauðsynlegt).

Þá taldi hv. þm. mikla nauðsyn á því, að leggja niður fiskimálan., þar sem Sölusamlagið sé komið á svo góðan grundvöll. Fiskimálan. sé óhæfilega dýr, og hana megi alveg spara. Ég skal játa, að hún er nokkuð dýr. Það vinna þar sjö menn, og hún kostar alls nákvæmlega jafnmikið og einn framkvæmdarstjórinn við sölusamlag ísl. fiskframleiðenda, 21 til 22 þús. kr. Það er óneitanlega nokkuð mikið fé. En það er ekki ómögulegt, að það gæti orðið eitthvað minna, og mun ég reyna að draga úr þessum kostnaði um áramótin. En það væri þá kannske ekki úr vegi að athuga um leið, hvort ekki verði hægt að draga úr fleiri liðum, er snerta fisksöluna. Hinsvegar gef ég ekkert loforð um það, að hægt verði að draga úr kostnaði við fisksölusamlagið, en hitt er aðalatriði málsins, hvort þessi stofnun á að halda áfram að starfa eða ekki. Þar er því til að svara, að samkv. l. um fiskimálan., þá er hún eina stofnunin, sem tryggt er, að sé alltaf málsvari fyrir sjávarútveginn. Fisksölusambandið er ekki löggilt nema til eins árs, og engin trygging er fyrir því, að það verði ekki lagt niður eftir árið. Það er ekki heldur hægt að setja lög um, að það eigi að starfa áfram. Þeir einstöku útgerðarmenn og félög, sem mynda það, geta þegar þeim sýnist leyst það upp og stofnað „grúppur“ til þess að annast fisksöluna, og væri þá engin stofnun til í landinu, er annaðist störf fiskimálanefndar á næsta ári. En það verður að telja lífsnauðsyn, að slík stofnun sé til, til þess að jafna fiskinum á markaðina og ennfremur að auka sölu á harðfiski, freðfiski o. fl. Og ég tel ekki líkur til þess, að öðrum sé betur trúandi til þess að inna það starf af hendi heldur en þeim mönnum, sem nú eiga sæti í fiskimálanefnd.