14.11.1935
Efri deild: 69. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hygg, að menn geti orðið mér sammála um, að þessar umr. hafi staðið nægilega lengi.

Ég veit ekki, hvort ég hefi tekið rétt eftir hjá hv. þm. N.-Ísf. mér heyrðist hann segja, að hann teldi grundvöllinn fyrir 6% gjaldinu burt fallinn og að þess vegna væri ekki þörf á gjaldstofninum áfram. Mér heyrðist hann segja þetta, en ég veit ekki, hvort ég hefi tekið rétt eftir, og spyr hann nú að því, því mér kom þessi umsögn hans harla undarlega fyrir sjónir, eða réttara sagt fyrir eyru, hér fyrir framan mig liggur frv., sem komið er fram í Nd. og er borið þar fram af tveimur hv. þm. úr sjálfstæðismanna hop, og í þessu frv. er ætlazt til, að ríkissjóður leggi fram í markaðssjóð saltfisks 1 millj. króna á ári. Hafi ég skilið rétt ummæli hv. þm. N.-Ísf., Þá er hér orðið æðilangt á milli skoðana þessara samflokksmanna. Annar telur grundvöllinn fyrir gjaldinu fallinn burt, en hinir vilja, að ríkissjóður leggi árlega fram 1 millj. króna í sama skyni.

Ég hefi litið svo á, að það, sem bæri á milli hjá stjórnarflokkunum og andstöðuflokkum stj., væri það, að andstöðuflokkarnir teldu rétt að leggja í verðjöfnunarsjóð svipaða upphæð og gert hefir verið að undanförnu, en í stað þess að taka það af fiskinum, þá yrði það tekið af almannafé, eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði. Aftur á móti sjá stjórnarflokkarnir fært að fella gjaldið niður á fiskinum og taka ekki upp í þess stað álög á ríkissjóð. Annar flokkurinn vill fella gjaldið burt með olíu, en hinn flokkurinn vili færa gjaldabyrðina yfir á ríkissjóð, og þess vegna hváði ég eftir því, hvort ég hefði hvert orð hv. þm. N.-Ísf. rétt.

Ég skal ekki ræða sérstaklega við hv. 1. þm. Reykv. um samvinnuslit sjálfstæðismanna í utanríkismálum. Hann sagði, að ég hefði orðað það betur, sem ég sagði, ef ég hefði sagt, að það væri hörmulegt, að þeir skyldu hafa neyzt til að slíta samvinnunni. Það eru nú þeirra einkamál, hvað þeir hafa talið sig neydda til að gera í þeim efnum. Hann beindi til mín ósk um það, að ég yrði við áskorunum þeirra og sagði, að ég þyrfti að gera það, ef þeir ættu að geta tekið upp samvinnuna aftur. Þessar áskoranir voru tvær.

Fyrri áskorunin var sú, að ég gæfi yfirlýsingu um störf sendimanns til Spánar. Þessi sendimaður var sendur til Spánar 6 mánuðum áður en ég tók við ráðherraembætti, og á þeim tíma, sem ég var búsettur austur á Seyðisfirði. Ég tel það í hæsta máta ósanngjarnt að ætlast til þess, að ég fari að gefa nokkra yfirlýsingu um þennan starfsmann fyrrv. stj. Ég tel mér það alls ekki skylt og tæplega fært.

Hin áskorunin var sú, að ég fyrirskipaði réttarrannsókn á hendur allri núv. ríkisstj. og allri fyrrv. ríkisstj. og öllum sendimönnum þeirra til Spánar. Ég treysti mér ekki heldur til þess að verða við þessari kröfu og tel ekki, að ég þurfi neitt að skýra það. —

Það er óþarfi að hafa mörg orð um forsögu fiskskattsins. Um hana er ekkert annað að segja en það, sem búið er að margtyggja með mismunandi orðalagi. Skatturinn er upp tekinn af fyrrv. ríkisstj. í sambandi við innflutning til Spánar. Fiskútflytjendum var neitað um leyfi nema þeir greiddu þennan skatt. (MG: En því fer stj. þá á eftir að gefa út lög?). Af því hún viðurkenndi nauðsynina og stóð við skuldbindingar fyrrv. stj. Þetta geta menn svo teygt og togað eins og þá langar til og verið með þær dylgjur sem þeim sýnist. Þetta er sannleikurinn, og ég segi ekki meira um þetta en ég er búinn.

Ég veit ekki, hvort ég á að fara að deila við hv. 1. þm. Reykv. um sigur minn eða ósigur í fisksölumálinu. En ég vil minna hv. þm. á fyrirspurn, sem hv. þm. N.-Ísf. gerði hér í þessari hv. d. við afgreiðslu laganna í fyrra. Sú fyrirspurn var um það, hvort til þess væri ætlazt, að umboðsmenn Sambands ísl. fiskframleiðenda seldu gömlu birgðirnar, og svaraði ég því á þá leið, að að sjálfsögðu væri svo til ætlazt, að sölusambandið seldi allan þann fisk, sem það hefði umboð til að selja. Í framhaldi af þessu voru gerðar ráðstafanir til þess, að Sölusambandið gæti ekki skotið sér undan því að selja þessar birgðir.

Að það hafi verið ætlun stj., að upp kæmust grúppusystem í fisksölu, eins og hv. 1. þm. Reykv. fullyrti, er vísvitandi rangt með farið. Hv. þm. veit það vel, að í öllum þeim ræðum, sem ég hélt um þetta mál í fyrra, var það skýrt fram tekið, að því aðeins yrði farið út í það að hafa útflytjendur marga, að ekki lánaðist að koma upp félagi um útflutninginn. Nú sýndi það sig, að það var auðvelt — og það var tilgangurinn, og fyrirfram ákveðið — að svo framarlega sem völusambandið vildi breyta lögum sínum, þá hefði það söluna áfram. Það, sem gerzt hefir, er því ekki annað en það, að Sölusambandið hefir breytt lögum sínum í samræmi við þær kröfur, sem gerðar voru.

En ég vil segja það, að ef ákveðið hefði verið í fyrra t. d. að ríkisstj. skipaði tvo menn í stjórn fisksölusambandsins og að smáútgerðarmennirnir hefðu þeim mun rífara atkvæðamagn en stórútgerðarmenn, að þeir hefðu 3:2 atkv., miðað við sama fiskimagn, þá hefði eitthvað sungið í tálknunum á hv. 1. þm. Reykv. (MJ: Þetta er nú ekki fullkomið). Ég játa það, en það er þó stórt spor í rétta átt, og ég uni vel þeim ósigri, sem hv. 1. þm. Reykv. telur, að ég hafi beðið í þessu máli.

Um fiskimálan. hirði ég ekki að deila við hv. þm. Ég skil vel, að honum vaxi í augum þessi kostnaður. En hv. þm. má þá helzt ekki gleyma því, að líta á aðra hlið sama máls, sem næst liggur til samanburðar. En það eru laun sjálfra forstjóra fisksölusamlagsins. Hv. þm. virðist ekki vasa þessi kostnaður í augum. Það er rétt, að fiskimálan. er nokkuð dýr. Ég hygg, að það muni láta nærri, að laun allra nm. 7 séu um það bil jafnhá og laun eins af forstjórum fisksölusambandsins. Það er rétt, að forstjóri n. hefir 450 kr. laun á mánuði, og n. öll nokkuð yfir 20 þús. kr. Þetta er vissulega miklum mun hærra en prófessorslaun. En það breytir engu í þeim samanburði, sem ég hefi gert um þetta. Það þyrfti fjóra prófessora til þess að slaga upp í einn forstjóra í fisksölusamlaginu. Annan kostnað í sambandi við fiskimálan. en laun nm. sjálfra geri ég ekki ráð fyrir, að hægt væri að minnka.

Það merkilegasta, sem gerzt hefir hjá okkur á sviði útgerðarmálanna á síðasta ári, er sumt að nokkru leyti og sumt eingöngu framkvæmt að tilhlutun fiskimálan. Má þar nefna herðingu á fiski, sem gefizt hefir vel, og veiði og vinnslu á karfa, sem einnig gefur góðar vonir. Og mér er kunnugt um, að vegna aðgerða fiskimálan. hefir S. Í. F. gert meira nú en í fyrra til þess að reyna að auka sölu saltfisks á erlendum markaði. Árangur af ferð Thors virðist ætla að verða miklu betri en þeir, sem sendu hann í þessa markaðsleit, munu hafa vænt sér. Yfirleitt virðast nú vera að opnast þær smugur, sem nokkur von er um, að geti vísað okkur inn á ný markaðssvið fyrir okkar fisk, sumpart beint, sumpart óbeint fyrir tilstilli fiskimálanefndar. Þess vegna er ekki rétt að leggja hana niður.