15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Magnús Guðmundsson:

Ég veit ekki, hvort ég á að þora að segja nokkur orð eftir að hafa hlýtt á hina miklu ræðu hv. þm. S.-Þ., sem bæði hafði í hótunum og skoraði á okkur stjórnarandstæðinga að þegja. Ég ætla þó að dirfast að leiðrétta það, sem hann sagði og snerti mig persónulega. Hann segir, að ég hafi 25. maí 1934 gefið út bráðabirgðalög um verðjöfnunargjaldið vegna Spánarsamninganna. Vitaskuld er þetta algerlega rangt, því að þá var alls ekki búið að semja við Spánverja og sendimenn komu ekki heim fyrr en 15. júní 1934, enda lýsti hv. þm. því yfir, að mér hefði sjálfum verið ókunnugt um innihald samninganna þegar bráðabirgðalögin vorn gefin út. En hvernig á ég þá að hafa getað gefið út lög vegna þessara samninga, sem ég ekki vissi hvernig voru? (JJ: Hv. þm. gaf lögin ekki út ). Það lítur ekki út fyrir, að hv. þm. lesi stjórnartíðindin, því ef hann gerði það, gæti hann sjálfur séð, að lögin eru undirskrifuð af mér, en ekki öðrum ráðh., eins og hv. þm. hefir haldið fram. Og hann gæti ennfremur seð, að það er útilokað, að þau séu gefin út vegna Spánarsamninganna, þar sem þeir voru ekki gerðir þegar lögin voru gefin út. Ég vissi ekki um innihald Spánarsamninganna fyrr en um eða eftir kosningar 1934, sem fóru fram 24. júní. Eftir þann tíma gat ekki verið um það að ræða að gefa út bráðabirgðalög, því að stjórnin bjóst við að leggja niður völd þá þegar. Ég hefi lesið það í grein eftir hv. þm., sem kom í N.dbl., að hann ásakar fyrrv. stj. fyrir að hafa ekki gert þetta. Ég verð að segja, að ég finn ekkert ásökunarefni þarna, enda gat ekki verið um þetta að ræða fyrir stj., sem gat búizt við að fara á hverjum degi, þó það drægist nokkuð lengur en búizt var við, að fara að gefa út bráðabirgðalög um Spánarsamningana; það kom alls ekki til mála. Hv. þm. S.-Þ. hélt því fram, að núv. hæstv. stj. hefði verið bundin við samningana, sem gerðir voru 1934. Ég skal viðurkenna, að hún gat talizt bundin við þá árið 1934, en ekki lengur, því vitaskuld þurfti hún ekki að endurnýja þá. En ef ekki hefir verið unnt að gera annað en endurnýja samningana fyrir 1935, er augljóst og sannað um leið, að ekki hefir verið um annað að gera í upphafi en að gera þessa samninga.

Þá vil ég upplýsa hv. þdm. um, að það er algerlega rangt, sem hv. þm. S.-Þ. helt fram, að h/f Kveldúlfur hefði barizt gegn því, að Helgi Guðmundsson færi suður á Spán. Sannleikurinn er sá, að bankastjórinn vildi ekki fara, og það var afarerfitt að fá hann til að fara. Og veizlan, sem ég hélt á Staðastað og þessi hv. þm. hefir skrifað um, — en var nú raunar aldrei nein veizla, því aðeins voru þar samankomnir 4 —5 menn — hún var til þess gerð að reyna að fá Helga Guðmundsson bankastjóra til þessarar farar.

Úr því að ég er staðinn upp á annað borð, vil en segja örfá orð út af ræðu hæstv. atvmrh. í gær. Hann sagði, að fisksölusamlagið hefði ekki horfið úr sögunni, þó löggjöfin um fiskimálanefnd hefði verið sett, eins og við sjálfstæðismenn hefðum spáð í fyrra. Því er til að svara, að hann sagði sjálfur í umr. í fyrra, að „Union“ gæti ekki starfað áfram. (Atvmrh.: Eins og hún var). Hann margendurtók það þá, að í Union væri innbyrðis ósamkomulag, svo hún gæti ekki unnið áfram, og það yrði því að koma upp nýju fyrirkomulagi, sem gæti tekið við þegar Union dræpist.

Við sögðum aftur á móti, að Union lifði vel, en hún mundi verða drepin með þessum nýju lögum eða fyrirkomulagi, sem hæstv. ráðh. ætlaði að koma á. En hvað skeður svo? Hæstv. ráðh. greip til þess að gefa út bráðabirgðalög til þess að breyta þessum nýju lögum sínum og til að bjarga þeim félagsskap, sem hann var búinn að segja, að ekki væri lífvænt, en mundi liðast í sundur vegna óeiningar og innbyrðis ósamkomulags forstjóra þess og stjórnar.