15.11.1935
Efri deild: 70. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Sigurjón Á. Ólafsson [óyfirl.]:

Það voru nokkur orð í ræðum tveggja hv. þm., sem fellu hér í þessari hv. d. í gær, sem ég vildi gera aths. við, og skal ég reyna að haga orðum mínum hógværlega. Umr. þessar eru sprottnar af ágreiningi, sem virðist vera milli Sjálfstfl. og stjórnarflokkanna um það, hvort 1/2 eða 3/4% útflutningsgjald skuli renna til sjóðsins eða ekki. Umr. þessar hafa nú farið nokkuð á við og dreif, og skal ég ekki blanda mér inn í það.

Hv. 7. þm. Reykv. komst inn á það atriði í svari sínu til mín í gær, sem enginn ágreiningur er um milli flokkanna, og ekki heldur þarf að vera, sem sé nauðsynina á þessum styrk. Ágreiningurinn er aðeins um það, hvort ríkissjóður á að greiða þetta tillag, eins og farið er fram á eða ætlazt til, að verði gert í frv. sjálfstæðismanna, sem fram er komið í hv. Nd., eða hvort taka skuli þetta fé af framleiðslunni beint, — og hvaðan ætti þá að taka þetta fé? Á að taka það af atvinnubótafé, eða af þeim styrk, sem veittur er landbúnaðinum, eða af launaþegum ríkisins, eða hvaðan á að taka það? Ég veit, að þessum hv. þm. sem öðrum er vel ljóst, að nú er mestur vandinn að finna tekjustofna til að standast útgjöld ríkissjóðs. En ef þeir ætlast til að taka helminginn af ágóða fiskverzlunarinnar í þessu skyni, hvar á þá að afla fjár þess í stað? Við teljum, að þetta verði að leggja á framleiðsluna, enda kemur allt í sama stað niður, að raunverulega ber framleiðslan öll þessi gjöld. Allir eru nú sammála um að aflétta 6% gjaldinu, og þá fæ ég ekki seð, að þetta lága hundraðsgjald sé svo ýkjaþungur baggi. Annars er ekki ástæða til að deila um þetta, og ekki að öðru leyti ástæða að svara þeim hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf., því í rauninni svöruðu þeir engu í minni ræðu í gær og hröktu ekkert af því, sem ég hefi sagt.

Hv. þm. N.-Ísf. sagðist ekki hafa verið að beina skektum sínum til verkamanna eða sjómanna, er hann var að tala um illa afkomu útgerðarinnar, heldur til þeirra, sem hafi verið að skrifa um útgerð. Ég held við það, að tónninn í orðum hans var til allra, sem tekið hafa kaup sem óbreyttir verkamenn við útgerðina, og stend því við allt, er ég sagði þar um. Annars þakka ég honum fyrir, að hann hefir nú dregið í land hvað þetta snertir. — þá var eitt, sem hann kastaði fram og er alveg óviðurkvæmilegt og ósæmilegt, þar sem hann sagði, að flokksmenn mínir hafi dregið sér fé frá útgerðinni, og dróttaði því að ónafngreindum mönnum, að þeir hefðu starfað að útgerð í sviksamlegum tilgangi. Ég þekki engan slíkan flokksmann minn. En ef þetta er rétt, því hefir þá ekki þessi hv. þm. dregið þessa menn fram í dagsljósið í ræðu eða riti? Ef hann getur og hefir sannanir ber honum skylda til að sanna þetta athæfi, sem varðar við lög. Ég vil því skora á hann, að hann geri fyllri grein fyrir dylgjum sínum um ónafngreinda menn, sem hann segir, að séu úr mínum flokki. Ef hann er „dauður“ við umr. nú, skora ég á hann að sanna þetta síðar. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál.