27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. taldi rétt að rifja upp sögu þessa máls að nokkru leyti, sem hér er til umr., þ. e. a. s. hvernig það bar til hér á Alþingi, að þessi 6% skattur var lagður á saltfiskinn. Ég hefi ekkert við þá frásögn að athuga að því er snertir hina sögulegu hlið málsins. Hæstv. ráðh. fór að vísu lengra aftur í tímann, en hann andæfði ekki þeirri staðreynd, að þetta gjald var lagt á með samþykki og fullum vilja allra þingflokka. En hæstv. ráðh. minntist einnig á þær till. um afnám fiskskattsins, sem lagðar voru fram í sjútvn. Nd., áður en yfirlýsing hans var getin hér í d. f. h. stjórnarfl. um að þeir ætluðu að afnema skattinn. Og hann talaði um frv. okkar sjálfstm. á þann hátt, að í því væri fólgin yfirlýsing frá Sjálfstfl. um, að hann ætlaði að halda þessu gjaldi, en aðeins flytja gjaldskylduna af fiskinum yfir á ríkissjóð. Út af þessu vil ég taka það fram, að þegar hv. 6. þm. Reykv. lagði þessar till. fram í sjútvn., þá var það gert í samráði við form. Sjálfstfl., með það fyrir augum, að þær yrðu samningsgrundvöllur flokkanna fyrir skynsamlegri úrlausn til þess að afnema 6% gjaldið af fiskinum. við vissum þá ekki það, sem hæstv. stj. virðist hafa vitað, að engin þörf væri á því að viðhalda þeirri starfsemi, sem þessum gjaldstofni hefir verið ætlað að halda uppi. Við gerðum því eðlilega ekki ráð fyrir, að það væri hægt að hlaupa frá því nú að leggja fram fé til þess hlutverks. En hæstv. ríkisstj. virðist hafa vitað um það. Og þegar hún getur lýst því yfir, að hægt sé að fella niður gjaldið án þess að nokkuð annað komi í staðinn, þá er ekkert við því að segja. Við sjálfstæðismenn höfðum ekki aðstöðu til að vita um það. Það er því alls ekki rétt hjá hæstv. ráðh., að til sé þessi höfuðstefnumunur á till. flokkanna í þessu máli, sem hann var að lýsa í ræðu sinni, eða að við höfum viljað eyða þessum peningum á einhvern hátt. Það, sem aðallega vakti fyrir okkur minnihl.mönnum í sjútvn., var að létta þessu þungbæra gjaldi af sjávarútveginum, sem við vissum, að hann var ekki far um að greiða; en hinsvegar var okkur ekki kunnugt um, að það mætti hverfa frá því að afla tekna í staðinn. En hæstv. stj. hefir gefið yfirlýsingu um, að sú þörf sé nú ekki lengur fyrir hendi, sem var þegar þetta gjald var á lagt, og að hún treysti sér til að afnema það án þess nokkuð komi í staðinn. Gott og vel; við erum því fegnastir, að eigi þurfi á því að halda og að hæstv. ráðh. hefir tekið af okkur allan vanda í því efni. Það er ekki nema eðlilegt, að þeim þdm., sem ekki eiga sæti í utanríkismálanefnd — og hafa ekki beinan aðgang að ríkisstj. —, sé ókunnugra um það en stj. og flokksmönnum hennar, hvernig aðstaða þjóðarinnar er gagnvart þeim erlendu þjóðum, sem við skiptum við.

Ég ætla, að þetta liggi nú ljóst fyrir; við sjálfstæðismenn treystum okkur ekki til að létta þessu gjaldi af, nema að benda á aðra leið í staðinn; en stj. treystir sér til þess, og jafnframt að varpa frá sér þeim möguleikum, sem sköpuðust á saltfisksmarkaðinum í sambandi við fiskskattinn, án þess að hún viti, hvað af því getur leitt.

Ég neita því afdráttarlaust f. h. minni hl. í sjútvn., að okkur sé það áhugamál að viðhalda þessu gjaldi, nema brýn nauðsyn beri til. Þetta vil ég taka fram vegna þeirra getsaka, sem hæstv. ráðh. varpaði fram um þann höfuðmismun, sem væri á tillögum okkar og stjórnarfl. í þessu máli.

Um þetta nýja gjald, sem stj. leggur til, að tekið verði af fiskinum samkv. frv., vil ég aðeins geta þess, að mér finnst, að hún eigi ekki að taka aftur með vinstri hendinni það, sem gefið er með þeirri hægri. Það mun sýna sig, hvaða afdrif frv. okkar sjálfstm. fær, um afnám útflutningsgjalds af sjávarafurðum, og ef samþ. verður ákveðið í þessu frv. um 1/2—3/4 % gjald af fiskiafurðum, þá er fyllilega til þess stofnað, að á sjávarútv. hvíli allt of þungir skattar. — Ég skal svo ekki deila lengur við hæstv. atvmrh., en ræða hans gaf tilefni til þessara skýringa frá minni hálfu.