27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Sigurður Kristjánsson [óyfirl.]:

Ég get tekið undir það, sem hv. þm. Vestm. hefir sagt um sögu þessa máls. En út af till. okkar hv. þm. Vestm. vil ég þó segja nokkur orð til viðbótar. Vil ég þá fyrst geta þess, að úr því hæstv. ríkisstj. hefir séð sér fært að verða við kröfum okkar um afnám á fiskiskattinum, eða 6% gjaldinu af saltfiskinum, þá virðist mér sjálfsagður hlutur að fella gjaldið alveg niður. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkrum hv. þdm. detti annað í hug en að 1/2—3/4% gjaldið sé grímuklædd viðbót við núv. útflutningstoll á sjávarafurðum. Ég verð að segja það, að þegar hér liggur fyrir d. svo rammlega rökstutt frv. um algert afnám á útflutningsgjaldi sjávarafurða og byggt á einróma áliti útvegsmanna um þörf útvegsins fyrir að því verði af létt, þá er það fáheyrð ofdirfska og kæruleysi af hæstv. stj. að svara slíku frv., með því að hækka útflutningsgjaldið enn um 1/2—3/4%, því þetta er ekkert annað en grímuklædd viðbót við útflutningsgjaldið.

Í sambandi við þetta vil ég taka það fram, að það er talsvert fágæt málsmeðferð, að bera fram svo stórt mál og þetta sem brtt. við annað frv., við síðustu umr. þess í síðari þd., sem málið á að ganga í gegnum. Það ber fullkomin merki þess feluleiks, sem hér hefir verið leikinn, að smeygja þessu nýja gjaldi í grímuklæddum búningi inn á þennan aðþrengda atvinnurekstur. Ég vona, að ég sé ekki einn um þá skoðun, sem ég nú hefi lýst á þessu athæfi hæstv. stj., og vil ég því áður en ég skil við þetta atriði skora á alla réttsýna menn í þessari hv. þd., sem ég óska að verði sem flestir, að fella þetta nýja gjald úr frv. því, sem hér er til umr. — Um hina brtt. okkar í minni hl. sjútvn., þar sem lagt er til, að stjórn S. Í. F. taki við þeim störfum, sem fiskimálanefnd eru ætluð í þessu frv., er það að segja, að hér í d. er komið fram frv. um að leggja fiskimálanefnd niður, a. m. k. um stundarsakir, með þeim rökstuðningi, að n. virðist vera algerlega óþörf. — Að sölu ísl. sjávarafurða starfa nú fyrst og fremst 7 manna fisksölunefnd, skipuð mönnum úr þremur aðalstjórnmálaflokkum í landinu, með þremur framkvæmdastjórum; síðan 7 manna fiskimálanefnd, og þar á ofan síldarútvegsnefnd. Okkur sýnist það mörgum, að það sé nægilegum útgjöldum hlaðið á útgerðina, þó að þeim mönnum sé eitthvað fækkað, sem taka laun sín af fiskeigendum. Við höfum enga trú á því, og þykjumst hafa full rök og sannanir fyrir því, að í fiskimálanefnd sé ekki samankomin nein sérþekking fram yfir það, sem er í stjórnarnefnd sölusamlags ísl. fiskframleiðenda, eða a. m. k. getur verið í þeirri n., eftir því sem fiskeigendur vilja, því að þeir kjósa í þessa stjórn. Þar af leiðandi er það krafa okkar, að þessum kostnaði verði létt af fiskeigendum. Ef svo þetta gæti orðið, er vitanlega ekki hægt að vísa þessu máli til þeirrar n., ef hún yrði lögð niður. Ég vil leggja áherzlu á það, að þessi atvinnuvegur, sjávarútvegurinn, er þannig staddur, að ekki er forsvaranlegt fyrir ríkisstj. eða þingið að fara að leggja nýja skatta á þennan atvinnuveg, og það er ekki heldur hægt fyrir þessa sömu aðilja að þrjóskast við því að létta af þessum atvinnurekstri óþörfum gjöldum, sem ég tel fyrst og fremst það fé, sem varið er til fiskimálanefndar. Það er ekki annað en framfærslueyrir frá útgerðinni til þessara bitlingamanna, því að það hafa ekki komið nein rök fram um það, hvorki frá hæstv. atvmrh. eða öðrum, að í þeirri n. séu fólgin nein bjargráð fyrir útgerðina, eða að þar sé fyrir hendi nokkur sérþekking, sem ekki geti verið hjá stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda. Þó að hæstv. atvmrh. og aðrir hafi verið að vitna í harðfiskssöluna, þá er það vitað, að það er enginn harðfiskssérfræðingur í fiskimálan., enda er það ekki annað en neyðarúrræði, þessi harðfisksverkun. Það er ekki annað en fals að vera að prédika um það sem fagnaðarerindi, því að það hefir aldrei verið annað en neyðarúrræði hjá þeim, sem hafa gert það áður, eins og t. d. Norðmönnum.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram í þessu máli, en aðeins endurtaka það, að það er till. mín, að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda komi í stað fiskimálanefndar og miða alveg við það frv., sem komið er fram um að leggja þá nefnd niður.