27.11.1935
Neðri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

130. mál, fiskimálanefnd o.fl.

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. Vestm. vildi mótmæla því, að það hefði verið rétt, sem ég sagði, að höfuð mismunurinn á afstöðu stjórnarfl. og sjálfstæðismanna til þessa máls væri sá, að sjálfstæðismenn vildu halda áfram að afla markaðs- og verðjöfnunarsjóði tekna eingöngu á þann hátt að taka úr ríkissjóði, í staðinn fyrir að leggja gjaldið á fiskframleiðendur, en stjórnarfl. teldu eins og ástandið er nú, að ekki væri ástæða til að halda áfram slíkri tekjuöflun til markaðs- og verðjöfnunarsjóðs. Því verður ekki með neinum rökum neitað, að þetta er mismunurinn. Það sýnir gleggst frv. það, sem flutt er af hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. á þskj. 448, því að þar segir, að stofna skuli sjóð, er nefnist markaðsjóður saltfisks, og í hann skuli leggja allt að kr. 1000000 á ári. Það er því þarflaust að deila um það, að í þessu liggur meginmunurinn á afstöðu sjálfstæðismanna og stjórnarfl. til málsins. Hitt er rétt, a. m. k. getur litið svo út, sem hv. þm. Vestm. sagði, að það kann að vera, að til þessa liggi ástæður, sem ekki er nauðsynlegt, að sjálfstæðismönnum séu kunnar. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að áður en sú upplýsing var gefin á þinginu viðvíkjandi afnámi útflutningsgjalds af sjávarafurðum, var haldinn lokaður fundur í þinginu og á þessum fundi mættu ekki sjálfstæðismenn, þar sem þeir völdu þann kost að slíta samvinnu um utanríkismálin og losa sig með því við ábyrgð, sem afgreiðslu slíkra mála fylgir.

Á þessum fundi var gerð grein fyrir breyttri aðstöðu í ýmsum atriðum, og eftir að hann var haldinn var sú yfirlýsing gefin hér í þinginu, sem áður er getið. Ég get sagt það, að ástæðurnar voru í haust allar aðrar heldur en munu hafa verið vorið 1934, þegar þetta gjald var lagt á, eða haustið 1934, þegar lögin voru staðfest. Ég hefi ekki annað um þetta atriði að segja.

Hv. 6. þm. Reykv. telur, að með þessari breyt., sem hér um ræðir, sé verið að leggja nýjan skatt á útgerðina, sem nemi 1/2 til 3/4%. Hv. 6. þm. Reykv. orðaði það svo, að hér væri um grímuklætt útflutningsgjald að ræða. Ég verð að segja, að mér finnst það undarlegt að halda slíku fram, þegar samtímis sem þetta nýja gjald er lagt á er afnumið gjald, sem nemur 6%. Það geta ekki talizt aukin gjöld á útgerðinni, þegar fyrst er tekið 6% gjald af og í staðinn lagt á 1/2% eða 3/4% gjald. Ég sé ekki annað en að með þessu sé létt a. m. k. 5% gjaldi af fiskinum. Hv. 6. þm. Reykv. taldi þetta grímuklætt útflutningsgjaldi og vildi gefa í skyn, að það ætti að renna til almennra ríkisþarfa eins og útflutningsgjaldið nú gerir. Þetta er ekki rétt. Um grímubúninginn þarf ekkert að ræða; það er beinlínis sagt til þess, hvernig og á hvaða hátt eigi að verja þessu gjaldi. Þessu hundraðsgjaldi á að verja í þarfir sjávarútvegsins og jafnframt á að tryggja, að á móti komi frá ríkinu nokkru meira gjald heldur en þessu nemur. Ef gert er ráð fyrir, að á næstu 2 árum komi 300 þús. kr., er það þá þreföld upphæð frá ríkissjóði. Standi gjaldið lengur, breytist hlutfallið nokkuð, en tímarnir eru svo fljótir að breytast, að ómögulegt er að sjá langt fram í tímann, hvorki í þessu efni né öðru.

Ég verð að segja, að þó að mér sé það vel ljóst, engu síður en þeim tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, að hagur sjávarútvegsins er erfiður og litlir möguleikar fyrir hann að greiða aukin gjöld, jafnvel örðugleikar á að standa undir þeim, sem verið hafa, að þótt þetta gjald væri ekki lagt á og jafnvel þótt fært þætti að fella niður allt útflutningsgjald af fiski, þá mundi það út af fyrir sig ekki líklegt til þess að breyta svo nokkru nemi afkomu sjávarútvegsins. En hitt er miklu þýðingarmeira, að halda áfram og helzt auka við þá viðleitni, sem höfð hefir verið til þess að koma afurðum sjávarútvegsins á víðari markað, með því að breyta til um verkunaraðferðir og með því að leita nýrra sölustaða og leggja kaup á að koma vörunni út. Í þessu er meiri hjálp fólgin fyrir sjávarútveginn heldur en að fella þetta gjald niður. Það dettur engum í hug að halda því fram, að þetta gjald ráði úrslitum um afkomu sjávarútvegsins, en ef tilsvarandi upphæð er notuð til þess að skapa aukna möguleika til þess að selja vöruna, þá þarf ekki mikið að ávinnast til þess að það geri meira heldur en að bæta fyrir þetta gjald, og meira til. Ég hefi von um, að það sýni sig, að svo fari.

Hv. 6. þm. Reykv. taldi, að fiskimálanefnd væri sú bitlingahjörð, sem lagi þyngst á fátækum sjávarúvegsmönnum, og væri bezt að lóga þessum gripum með sama. Það væri helzta bjargráðið, skildist mér. Þar væru ekki heldur sérfræðingar í harðfisksverkun, enda væri þesskonar verkun neyðarúrræði. Ég býst við, að í þessum efnum séu skoðanir okkar hv. 6. þm. Reykv. nokkuð ólíkar. Það skal játað, að fiskimálanefnd er nokkuð dýr. En allir þessir 7 menn, sem í henni eru, hafa að launum eitthvað svipað og einn forstjóri fyrir Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda. Það er óneitanlega dýr nefnd, þó að hún hafi ekki nema 1/3 af framkvæmdarstjóralaunum Sölusambandsins. En ég er ekki vonlaus um, að hægt verði að koma við einhverjum sparnaði á þessum lið, án þess að ég geti gefið um það ákveðið loforð. En það er ekki rétt að horfa eingöngu á kostnaðarhliðina, þó að mönnum kunni að vaxa í augum þessi kostnaður. Ég tel, að síðan fiskimálanefndin tók til starfa hafi ýmsir merkilegir hlutir áunnnizt fyrir hennar forgöngu. Ég skal t. d. nefna harðfisksverzlunina, hvort sem hún er neyðarúrræði eða ekki. En sú byrjun, sem gerð hefir verið á harðfiskverkun, gefur þær vonir, að betra sé að halla sér að henni heldur en hrúga saltfiski ofan á saltfisk, sem litlar líkur eru til að selja.

Þá var að tilhlutun fiskimálanefndar tekin upp á síðastl. ári ný atvinnugrein, sem ýmsir gera sér vonir um, að verði arðvænleg. Það eru karfaveiðarnar. Þessi tilraun gefur von til þess, að hægt verði að létta af saltfisksveiðunum vissa tíma ársins með því að látu togarana stunda þessar veiðar. Það er og útlit fyrir, að þessar afurðir verði auðseljanlegri heldur en síldarafurðir. Fiskimálanefndin hefir einnig gert mikilsverðar rannsóknir um möguleika til sölu á hraðfrystum fiski, sem að vísu er skammt komið enn. En allt um það, þá getum við samt miklu meira í þessu efni heldur en áður og stöndum betur að vígi að halda áfram heldur en þegar starfið var hafið.

Að öllu þessu athuguðu tel ég það misráðið að leggja niður þessa nefnd. Ég held þvert á móti, að það sé sjálfsagt, að hún starfi áfram. Og ég tel vel fara á því, að saltfiskverzlunin, sem er mesta vandamál nútímans, sé hjá þeirri stofnun, sem hana hefir nú, og að tryggð sé samvinna fiskimálanefndar og Sölusambandsins með því, að einn maður úr fiskimálanefnd, sem samtímis er í stjórn Sölusambandsins, sé tengiliður þar á milli. En í l. um Sölusamband ísl. fiskframleiðenda er það skýrt tekið fram, að það sé stofnað til þess að hafa saltfisksöluna á hendi, og annað ekki.

Ég held, að ég þurfi ekki að taka fleira fram út af ræðum hv. þm. og læt því þetta nægja.