05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það má vel vera rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að það ætti að hafa fyllri reglur um það, hvernig úthluta skuli leyfunum. Það gæti líka verið eðlilegt, að ákveðnar stofnanir, sem þetta snertir mest, hafi fulltrúa í nefnd, sem úthlutaði leyfunum. Hvorttveggja þetta er heimilt eftir bráðabirgðal. og þessu frv. En það hefir ekki verið tekið upp í l., eftir hvaða reglum leyfunum skuli úthlutað. Ég get skýrt frá því í höfuðatriðum, við hvað miðað hefir verið við úthlutun leyfanna. Úthlutunin liggur nú hjá atvmrh., og ég hefi ekki séð ástæðu til að breyta því. Að því er snertir nokkuð af vörunum, svo sem fiskbein, hrogn og harðfisk, hefir heimildin ekki verið notuð, og hefir verið frjáls útflutningur á þeim vörutegundum. Aftur á móti hefir heimildin verið notuð að því er snertir síldarmjöl, lýsi, gærur, skinn og ull. Þær reglur, sem eftir hefir verið farið, eru í stuttu máli var, að til þeirra landa, sem borga hærra verð en hið algenga markaðsverð, hefir útflutningurinn verið ákveðin hundraðstala af magni því, sem hlutaðeigandi hefir átt yfir að ráða undanfarin ár. Að sjálfsögðu hefir verið tekið tillit til þess, á hvaða voru hefir verið mestur munur á heimsmarkaðsverði og verði í ákveðnu landi. Það er að sumu leyti býsna hart að banna að selja vöru til þess lands, sem býður hæsta borgun. En þó er það oft svo, að það stoðar lítið, þó að varan sé seld fyrir hátt verð, ef óvissa er um, hve mér greiðslan kemur. En ef l. heimiluðu ótakmarkaða sölu á þessum vörum, gæti það orðið til þess, að seljendur yrðu að bíða 6—12 mán. eftir að fá greiðslu. Á þeim tíma gætu gerzt tíðindi, sem röskuðu verðmæti peninganna. Ég vil benda á, að með eftirlitinu eru gerðar ráðstafanir til þess að tryggja það, að seljendur fái andvirði varanna borgað sem fyrst, og áður en nokkur sveifla hefir átt sér stað á verðmætum peninganna. En hinu verður ekki neitað, að þau fríðindi, sem útflytjendur fá, eru borguð af þeim mönnum, sem vöruna kaupa í viðkomandi landi. En ég get ekki séð, að við fáum reist rönd við þessu. Við verðum að nota sem bezt sölumöguleika okkar, og kaupa jafnframt vörur þar, sem bezt gegnir fyrir okkur. Og þessari reglu hefir verið reynt að fylgja.

Ég skal geta þess, að fyrir ull og gærur, sem menn héldu, að væru útilokaðar frá því landi, sem borgar hæst fyrir þær vörur, hefir verið leyfður innflutningur fyrir hærri upphæð en á síðastl. ári.

Það er líka nauðsynlegt að taka tillit til þess, hverjar líkur eru fyrir því, að hægt sé að selja vöruna í öðrum löndum en aðalinnflutningslandinu. Það er t. d. svo með ísfiskinn, að sá ísfiskur, sem kemst ekki á „kvóta“ í Englandi, má heita óseljanlegur nema í Þýzkalandi. Og til þessa verður ríkisstj. að taka tillit við úthlutun leyfanna.

Ég get líka sagt, þó að það verði kannske skoðað sem raup af minni hálfu, að ég held, að yfirleitt hafi menn verið ánægðir með úthlutun leyfanna, og mér virðist að fullur skilningur hafi verið á því hjá útflytjendum, að nauðsyn hafi verið á, að gripið var til þessa ráðs.

Ég sé ekki, að ástæða sé til þess að kveða nánar á en gert er í bráðabl., en ef það sýnir sig, að það getur ekki gengið sæmilega á þennan hátt, þá er hægt að fela þetta sérstakri stofnun og setja reglugerð um úthlutun leyfanna samkv. þessum lögum.