07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég get fallizt á margt af því, sem hv. flm. brtt. sagði í ræðu sinni. En hinsvegar tel ég hæpna þá leið, sem hann vill fara um kosningu þessarar n. Vörur þær, sem aðallega kemur til mála, að sótt verði um útflutningsleyfi fyrir, eru ísfiskur, freðfiskur og harðfiskur. En saltfiskurinn er, samkv. l. um fiskimálan., í höndum þeirrar n. vörur, sem ennfremur falla undir þennan lið, eru síld, síldarmjöl og fiskimjöl, ull, gærur o. fl. Mér finnst nú, að eðlilegast sé, að fiskimálan. skipi þarna mann. Í henni á sæti einn maður skipaður af ríkisstj., en aðrir eru fulltrúar verzlunarstéttarinnar, sem gerir innkaupin, neytenda o. s. frv. Er eðlilegast, að þessir fulltrúar fjalli um þau mál, sem hér er um að ræða. Einnig er eðlilegt, að þeir, sem hafa mestra hagsmuna að gæta um útfluttar vörur, fjalli þarna um. Er því enginn aðili líklegri en Sambandið, að því er landbúnaðarafurðir snertir. Hinsvegar gengur ekkert af sjávarafurðum gegnum hendur Sölusambands ísl. fiskframleiðenda. T. d. er síldin hjá síldarútvegsn., að öðru leyti en því, að þessi n. myndi ákveða, hvert magn mætti flytja til Þýskalands. Er því fiskimálan. eðlilegri fulltrúi útgerðarinnar en sölusambandið. Ég vil því gera þá brtt. við brtt. hv. 1. þm. Reykv., að í stað orðanna „Sölusamband ísl. fiskframleiðenda“ komi: fiskimálanefnd.