12.11.1935
Neðri deild: 71. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er sjálfsagt ekki hægt að synja fyrir nauðsyn þessa frv. Það liggur í augum uppi, að Íslendingar eru neyddir til þess að fara að dæmi annara þjóða með takmörkun á innflutningi vara frá öðrum löndum. Það er einnig rétt, að þeir, sem ríkisstj. felur stjórn utanríkisviðskipta okkar, verða að vinna að því að beina útflutningi okkar til hinna ýmsu viðskiptaríkja nokkuð eftir því, hvernig aðstaða er með vörukaup frá þeim ríkjum hverju fyrir sig. Eins og menn vita, hlýtur mikill hluti af þeirri fjárfúlgu, sem við höfum yfir að ráða í erlendum gjaldeyri, að ganga til kaupa á hreinni nauðsynjavöru, sem ekki verður komist af án þess að fá, ef framleiðslan á að geta haldið áfram í sama horfi og ef fólkið á að geta fengið hinar brýnustu lífsnauðsynjar. Ég viðurkenni, að af þessum ástæðum verður hið opinbera að hafa einnig hönd í bagga með um það, hvert okkar framleiðsluvörur eru seldar. En ég vil vekja athygli á því, að allmikil vandkvæði eru fyrir stj. með að halda vel á því valdi, sem hér er tekið af útflytjendum. Það má ekki fara eftir því einu, hvort þær notaþarfir, sem þjóðin þarf að kaupa frá öðrum þjóðum, eru dýrari í einu landi en öðru. Það þurfa að liggja fyrir frá þjóðhagslegu sjónarmiði upplýsingar um það, að notaþarfir okkar í því landi, þar sem verðlag á útflutningsvörum okkar er bezt, séu hlutfallslega dýrari í því landi heldur en því, sem munar á verðláni á nauðsynjavörum, er við þurfum að kaupa í þessu landi, miðað við önnur þau lönd, er lægra borga fyrir okkar útflutningsvörur, til þess að rétt sé að hindra útflutning til þessa lands. M. ö. o.: Það er ekki rétt að draga úr sölu útflutningsvara okkar til þess lands, er borgar þær hæst, nema um ávinning sé að ræða fyrir heildarviðskiptin, miðað við sölu og kaup í öðrum löndum. Þetta er aðalatriði, sem allir geta verið sammála um. En ágreiningur getur risið um það, hvort þetta sjónarmið eitt beri að leggja til grundvallar við sölu útflutningsvaranna. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta sé ekki einhlítur grundvöllur, vegna þess að ef á þetta eitt er litið, þá er hér ekki um hreina gengishækkun að ræða, heldur er beinlínis verið að svipta framleiðendur þeim rétti að geta selt sínar vörur þangað, sem þær eru bezt borgaðar, í því skyni að tryggja neytendum það lægsta verð á nauðsynjavörum, sem hægt er að fá. Það er vitanlega mjög nauðsynlegt fyrir neytendur að geta fengið nauðsynjar sínar með sem lægstu verði, en eins og nú er háttað högum framleiðenda, þá veitir þeim sannarlega ekki af að fá það hæsta verð fyrir sínar vörur, sem fáanlegt er. Mér þótti nauðsyn á að vekja athygli á því, hvaða skilning eigi að leggja í frv., og það hefi ég nú gert. Eins og það var fyrst lagt fyrir Alþingi vantaði tryggingu fyrir því, að útflutningsvörunum yrði beint til viðskiptalandanna með hagsmunum framleiðenda fyrir augum, en með breytingum, sem gerðar voru á frv. í hv. Ed., hefir þetta verið fært til betra vegar, þó nokkuð skorti enn á fullkomið öryggi fyrir því, að réttur framleiðenda sé ekki fyrir borð borinn.

Það er ákveðið, að tveir þeirra fulltrúa, sem skipa gjaldeyris- og innflutningsnefnd, skuli vera fyrir aðalatvinnuvegina, landbúnaðinn og fiskiveiðarnar, og að þeir séu skipaðir af Sambandi ísl. samvinnufélaga og fiskimálanefnd, sem ég get ekki viðurkennt, að sé fulltrúi fyrir sjávarsíðuna, og enn síður þar sem ég flyt frv. um að leggja þá n. niður. En hvað sem verður um framkvæmd þessa frv., sem ég geri nú ráð fyrir, að verði samþ. í einhverju formi, annað verði ekki talið fært, þá mun ég miða fylgi mitt við frv. við það, hvort hv. d. treystir sér til að tryggja betur þau atriði, sem ég hefi nefnt. Og ég lýsi því yfir, að stuðningur minn við þetta mál í framtíðinni veltur á því, hvort þeir menn, sem falin hefir verið framkvæmd þessara mála, taka þau réttum tökum eða ekki, en það gera þeir ekki, ef þeir líta á það eitt við sölu afurðanna, hvar hægt er að fá ódýrastar neyzluvörur.