13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Mér hefir satt að segja liðið úr minni fjöldi af þeim aths., sem ræða hæstv. atvmrh. í gær gaf tilefni til. En það, sem mér þótti aðalmáli skipta, var þó það, að mér þótti nokkuð á skorta, að hæstv. ráðh. gerði fullnægjandi skil fyrir þeirri stefnu, sem hann taldi eðlilegt, að væri lögð til grundvallar í viðskiptamálunum út á við.

Hæstv. ráðh. fór mörgum orðum um það, að ástæðan fyrir því, að Íslendingar gætu ekki notið hærra verðlags á útflutningsvöru sinni í ákveðnu landi, sem hann nánar tilgreindi, væri sú, að sá gjaldeyrir, sem þar fengist fyrir voruna, væri háður ýmsum þeim annmörkum, að öllum viðskiptaþjóðum þess sama lands þætti ekki tilvinnandi að selja þangað framleiðsluvöru sína nema hún væri goldin hærra verði þar en annarsstaðar. Þetta væri hin raunverulega orsök til hins háa verðlags, sem þar ríkti. Þetta getur í fljótu bragði séð sýnzt eiga við rök að styðjast, en það, sem ég vil benda á og leggja áherzlu á, enda þótt þetta almennt talað kunni að hafa við rök að styðjast, þá þarf það engan veginn að vera þess eðlis, að réttmætt sé af þeim ástæðum að bægja viðskiptum okkar frá þessari þjóð, því að það getur verið sú sérástæða fyrir okkur Íslendinga, að verðmunurinn í þessu landi miðað við það, sem er í öðrum löndum, sé svo mikill, að við með okkar sérstöku þarfir getum keypt í þessu landi nauðsynjavörur með verðlagi, sem ekki er hærra en svo, að það sé hagur fyrir þjóðarheildina að skipta við þessa þjóð. Frá mínu sjónarmiði er þessu þannig varið, að ég er sannfærður um, að það sé rétt að beina viðskiptunum meira til þessarar ákveðnu þjóðar — Þjóðverja — heldur en verið hefir. Og ég vil leggja áherzlu á og beina til þeirra manna, sem samkv. lögunum með áorðinni breytingu eins og þau liggja nú fyrir hv. d., fara með Þessi mál, að þeir taki til athugunar, hvort ekki sé hægt að auka viðskiptin við Þýzkaland meira en verið hefir.

Mér er kunnugt um, að Þjóðverjar geta boðið okkur kol við að vísu ofurlítið hærra verði heldur en við fáum þau annarsstaðar, en þetta eru kol, sem til togaraútgerðarinnar hafa reynzt með afbrigðum vel, miklu betur heldur en beztu ensk kol. Ég tel því mjög æskilegt, að það sé tekið mjög gaumgæfilega til athugunar að beina viðskiptum okkar til Þýskalands meira heldur en gert hefir verið.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. sagði um aths. mínu út af því, að hann hefði átt tilhlutun um það, að umboðsmaður sjávarútvegsmanna í n., sem á að hafa ákvörðunarvaldið í þessu, er valinn af fiskimálanefnd, en ekki sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, vil ég taka það fram, að ég held fast við það, og það er engum vafa undirorpið, að það er almennur vilji sjávarútvegsmanna, að fiskimálan. fari þar ekki með umboð, heldur verði það S. Í. F. Mér er kunnugt um hug margra í þessu máli, en vitanlega ekki allra, eins og hæstv. ráðh. sneri út úr mínu máli í mörgun. Það var eftirtektarvert, þegar hæstv. ráðh. var að rökstyðja ágæti fiskimálan., að þar ættu fulltrúa félög og stofnanir eins og t. d. Fiskifélag Íslands, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda og fleiri. En hverjir eru þessir „fleiri“? Það er m. a. Alþýðusamband Íslands og Samband ísl. samvinnufélaga og fleiri, sem ekki geta talizt umboðsmenn sjávarútvegsins. En þar sem S. Í. F. er stofnað samkv. vilja meiri hl. sjávarútvegsmanna, en þeir hafa engan vilja látið í ljós um starfsemi fiskimálan., þá er ekki óeðlilegt, þó að þeir vilji fremur S. Í. F. sem sinn rétta málsvara heldur en fiskimálan., og það liggur líka fyrir yfirlýstur vilji sjávarútvegsmanna um, að stjórn S. Í. F. sé þeirra rétti aðili í þessu máli. — Að öðru leyti skal ég ekki við þessa umr. málsins orðlengja frekar um það, enda þótt ýmislegt í ræðu hæstv. ráðh. gæti gefið tilefni til frekari aths.