13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. Vestm. Hann benti á það, að samkv. skýrslu fyrir árið 1933 væru ýmsar vörur keyptar hingað af Dönum, sem þeir aftur flyttu inn frá Þýzkalandi. Ég ætla ekki að bera móti þessu. En við það er þó tvennt að athuga. Þessi skýrsla, sem hv. þm. vitnaði í, er orðin nokkuð gömul. Það er ólíkt, hvað miklu meiri vinna er lögð í það nú að beina vörukaupunum til Þýzkalands heldur en gert var 1933. Í öðru lagi eru, eins og hv. þm. líka drap á, miklir örðugleikar á því að flytja til viðskipti milli landa í fljótu bragði. Það hefir komið fram, að vissar vörutegundir, sem við kaupum frá Dönum, koma frá Þýzkalandi. Þegar farið var að grennslast eftir þessu frekar, kom í ljós, að dönsk verzlunarfyrirtæki höfðu sérstaka aðstöðu frá hinum þýzku útflytjendum til þess að selja vöruna til Íslands. Beinum kaupum á þessum vörum frá Þýzkalandi er ekki hægt að koma á nema fá þessu breytt. Þannig eru ótal ljón á veginum, þó vel sé að þessu unnið, svo það hlýtur að taka tíma að ryðja viðskiptunum braut. Hinsvegar hefir með eðlilegum hætti töluvert færzt af viðskiptum frá Danmörku yfir til Þýzkalands á árinu, sem leið, eins og vera á, þar sem viðskiptin milli Íslands og Danmerkur eru svo ójöfn sem raun er á.

Það er rétt, sem hv. þm. sagði um lyfjavörurnar, að mjög æskilegt væri að flytja innkaup til Þýzkalands, því mikill hluti þeirra mun þaðan kominn. En á því er sá örðugleiki, sem nú er þó verið að reyna að yfirvinna, að þau firmu, sem hér er um að ræða, hafa það sölufyrirkomulag, að sölufirmu þeirra í Danmörku hafa umboð fyrir öll viðskiptin við Norðurlönd. Nú er einmitt verið að athuga, hvaða möguleikar eru á að fá úr þessu bætt fyrir næsta ár í þá átt, sem hv. þm. fór fram á.

Hvað snertir rafmagnsvörurnar er því til að svara, að ég veit ekki til, að nú sé keypt sem nokkru nemur af þeim annarsstaðar en í Þýzkalandi. Þessa hefir verið gætt svo vandlega, að rafmagnsvörur hafa í sumum tilfellum verið keyptar dýrara í Þýzkalandi heldur en hægt hefir verið að fá þær annarsstaðar, bara til þess að halda uppi viðskiptum við þetta land.

Hv. þm. var að skýra hér frá því, að Norðmenn seldu mikið af vörum til Þýzkalands, og efast ég ekki um, að það sé rétt. En það er þá aðeins af því, að þeir geta keypt þaðan mikið aftur. Ég veit ekki betur en þeir verði að taka út andvirði þeirra vara, sem þeir flytja til Þýzkalands, í vorum eins og við. Ef þeir selja mikið þangað, er það vegna þess, að þeim hefir tekizt að ná þaðan miklum vörukaupum á móti, en það er einmitt það, sem við erum að reyna.

Vitanlega eru mér og stj. kærkomnar allar upplýsingar og leiðbeiningar um, hvað hægt væri að kaupa frá Þýzkalandi, hvaðan sem þær koma. Og eins og hv. þm. veit, hefir ekki staðið á því, að þær till. væru athugaðar, sem fram hafa komið um þetta.

Einn erfiðleiki enn er á þessu sviði, sem ég hefi ekki minnzt á, og hann er sá, að innflytjendur eru ekki eins viljugir að kaupa vörur frá Þýzkalandi eins og annarsstaðar að, af því að þær eru í mörgum tilfellum dýrari þar. Þar af leiðandi eru innflytjendurnir tregir til að skýra frá þeim möguleikum, sem þeir kunna að hafa til vörukaupa í Þýzkalandi. Oft eru það einmitt þeir, sem kunnugast er um, hvaða vörur hætt er að fá frá Þýskalandi, en þeir eru e. t. v. ekki alltaf útfalir á þeirri þekkingu, ef þeir hafa orðið varir við, að varan væri dýrari þar en annarsstaðar. Ég er ekki að segja, að þetta sé neitt óeðlilegt. En það gerir það að verkum, að stj. verður gegnum innflutningsnefnd að hafa öll spjót úti eftir því, hvaða vörur er hægt að kaupa frá Þýzkalandi og hvaða verði, en fær ekki æfinlega til þess þann stuðning, sem æskilegur væri, frá þeim, sem bezt þekkja til.