13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég er hissa á því, hvað hv. þm. V.-Húnv. kom seint með þessa ræðu við þessa umr., því ég vissi, að hún hlaut að koma. Þetta var einmitt gott tækifæri fyrir þennan hv. þm., sem æfinlega gjammar fram í til þess að reyna að vekja tortryggni á gerðum núv. stj., þegar hægt er að koma því við.

Hann var að gera ríkisstj. þær getsakir, að bráðabirgðalögin hefðu verið sett til þess að koma í veg fyrir, að bændur gætu fengið að nota þýzkan markað. Það þarf ekki annað en að setja þessa hugsun hv. þm. fram eins og ég geri, til þess að sýna, hvað mikil fjarstæða er að bera slíkt fram hér í hv. d.

Hv. þm. segir, að bráðabirgðal. hafi verið framfylgt af svo mikilli hörku gagnvart landbúnaðinum, að við slíkt sé ekki unandi. Það þýðir nú ekkert að vera að snakka um þetta fram og aftur. Ég vil bara spyrja hann, hvort hann ætlast til, að þær vörur, sem hvergi er hægt að selja annarsstaðar heldur en í Þýzkalandi, séu látnar sitja hér verðlausar, til þess að hægt sé að selja þangað ull og gærur, sem hægt er að selja annarsstaðar. Ef hann ætlast ekki til þess, þá verður hann að sjá, að fyrst verður að selja þangað fiskinn, sem ekki er hægt að selja annarsstaðar, og er þá bezt fyrir hann að tala ekki aftur.