13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal segja hæstv . fjmrh. það, að ég fer ekki eftir neinum forskriftum frá honum, ég spyr hann alls ekki að því, hvenær ég tek til máls, né hvenær ég hirti hann fyrir þau glappaskot, sem hann er alltaf að fremja, og ég vil ekki sízt nota tækifærið nú til að benda þessum hæstv. ráðh., sem sérstaklega telur sig hafa það verk með höndum að gæta hagsmuna bændanna, á hans klaufalegu aðferðir, þegar hann er að reyna að staga saman sína gatslitnu stjórnmálaflík.

Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, við hvað ummæli þess manns áttu að miðast, er sagði að það verði séð svo um, að þessir menn hafi ekki aðstöðu til að borga eins hátt fyrir vörurnar og síðast. (Fjmrh.: Hvaða maður var það?). Hæstv. ráðh. getur farið til þeirra, sem eiga að hafa framkvæmd þessa með höndum, og vitað, hvort hann finnur ekki sér samlita sauði. (ÓTh: Ætli það hafi ekki verið formaður nefndarinnar:).

Það er óþarfi fyrir hæstv. ráðh. að telja það mína skoðun, að ekki eigi að selja til Þýzkalands þær vörur, sem óseljanlegar eru annarsstaðar. Það er hægt að sýna fulla sanngirni við úthlutun landbúnaðarafurða á þýzkan markað, þó að hinu sé fullnægt. En hvort þetta harðræði gegn landbúnaðinum er gert af beinum fjandskap við þá menn, sem að þessari atvinnugrein standa, eða hvort það er af einhverjum öðrum ástæðum, skal ég ekki segja. En auðvitað er hæstv. ráðh. ekki svo hreinlyndur að skýra rétt frá þessu hér í þinginu, heldur reynir hann að klóra yfir axarsköft sín, annaðhvort vísvitandi eða af fákænsku.