13.11.1935
Neðri deild: 72. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

129. mál, sala og útflutningur á ýmsum íslenzkum afurðum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Húnv. hefir enn skotið sér hjá því að svara spurningu minni, heldur fer hann í kringum hana eins og köttur í kringum heitt soð, í stað þess að svara spurningunni beint, hvort hann ætlast til, að vörur séu látnar liggja óseldar í landinu, sem hægt er að selja til Þýzkalands, til þess að geta selt til Þýzkalands gærur og ull. En þar með er allt hans tal um harðræði gegn landbúnaðinum niður fallið. Hann var nú að reyna að halda því fram með sínum venjulegu stóryrðum, að útflutningsleyfið til landbúnaðarafurðanna hafi komið of seint. Þetta er ekki rétt. Útflutningsleyfið fyrir hinum fyrstu 25% kom nógu snemma til þess að útflytjendur gætu notað sér það. Ástæðan til þess, að hin leyfin komu svo seint, var sú, að það þarf að vera nokkuð vitað um útflutningsmöguleikana, til þess hægt sé að gefa leyfin út.

Hv. þm. sagði, að þetta væri mikið harðræði gagnvart landbúnaðinum, sem beitt hafi verið í ár, og gæfi ástæðu til harðrar gagnrýni, en sjálfur upplýsti hann, að árið 1933, þegar ekkert hann var, hafi markaður verið fyrir 1/2 millj. Ég get upplýst, að þetta harðræði gegn landbúskapnum er ekki meira en það, að nú er selt fyrir margfalt hærra en þegar allt var frjálst.

Ef hv. þm. á enn eftir að tala, þá vil ég enn mælast til þess, að hann gefi skýrt svar við því, hvort hann vill láta svo vera, að framleiðsluvörur af öðrum atvinnugreinum, ef ekki eru seljanlegar annarsstaðar en í Þýzkalandi, liggi óseldar, en samt sé leyfður innflutningur á öðrum vörum til Þýzkalands. Ég spyr enn, og ég krefst svars. Ef hann svarar ekki, þá er öll gagnrýni þessa hv. þm. fallin fyrirfram. Af því hann segist hafa flutt gagnrýni sína á þessum grundvelli. Þá heimta ég svarið beint. (ÓTh: Hæstv. fjmrh. ætti að mæta í úníformi).